Ferðin á heimsenda – óteljandi skrímsli

Sigrún Elíasdóttir sendir fyrir jólin frá sér sína fyrstu barnabók, Ferðin á heimsenda – Leitin að vorinu. Bókin er furðusaga (e. fantasy) um Húgó og Alex frá Norðurheimi. Sagan er nokkuð klassísk í uppbyggingu. Hetjurnar eru kynntar til sögunnar, þær lenda í hrakningum og ævintýrum. Leitin að vorinu endar líka þannig að nokkuð augljóst er að von er á fleiri bókum um Húgó og Alex.

Húgó er óskaplega álappalegur sláni sem kann lítið annað en að elda og Alex er algjört hörkutól sem kann allt um náttúruna, óbyggðir og baráttu við hrikaleg skrímsli. Húgó vissi ekki einu sinni að skrímsli væru til! Eitt árið bólar ekkert á vorinu í Norðurheimi, veturinn er orðinn svo langur að fólk er farið að flykkjast til borgarinnar Norat í leit að fæði og skjóli. Bærinn er löngu orðinn yfirfullur og augljóst að eitthvað þarf að gera. Því á að senda einhvern yfir fjöllin (þar sem óteljandi hættur leynast) til að tala við véfréttina og forvitnast um hvar vorið er niðurkomið.

Fyrir slysni býður Húgo sig fram til fararinnar og Alex býður sig fram honum til aðstoðar, enda þaulvanur ferðinni yfir fjöllinn. Ferðalagið reynist þeim félögum ekki hættulaust. Við hvert fótmál leynast hættur og skrímsli og spádómar frá geðvondum einhyrningum.

Mörg skrímsli á stuttum tíma

Sigrún skrifar bókina með húmor og léttleika. Húgó er klaufi sem þó leynir á sér og Alex er hörkutól sem býr yfir leyndarmáli. Í nær hverjum kafla birtist nýtt skrímsli eða tvíeykið lendir í einhverri hættu, sem gerir það að verkum að maður heldur áfram að fletta. Í gegnum söguna fylgist lesandi með því hvernig vinátta og traust myndast á milli Húgó og Alex og í lok bókarinnar kemur í ljós að ferðalag þeirra endar engan veginn hinum megin við fjallgarðinn.

Sigrún hefur skapað heim í kringum Húgó og Alex. Í lok bókarinnar er stuttur texti um sköpun þessa heims, sem er skipt í fjóra geira. Þessi fjórskipting heimsins skiptir máli fyrir framhald sögunnar, en þó tel ég að það hefði gagnast lesandanum að fá upplýsingar um þessa fjórksiptingu fyrr í sögunni. Í staðinn er mest púður sett í að skapa nýtt skrímsli til að berjast við í hverjum kafla.

Fleiri myndskreytingar!

Sigmundur Breiðfjörð er myndhöfundur bókarinnar. Það eina sem ég hef að athuga við mynskreytingarnar er að það er of lítið af myndum. Ég hef áður gagnrýnt útgáfu íslenskra bóka fyrir að vera ekki með nægilega margar myndskreytingar í bókum. Myndir Sigmundar eru skemmtilegar, fullar af húmor og framandleika sem hæfir vel sögunni. Sá aldurshópur sem bókin er miðuð að (8-13 ára) sækir fremur í bækur sem eru myndskreyttar, enda geta myndskreytingar bætt miklu við söguþráðinn, séu þær vel gerðar. Hins vegar finnst mér gagnrýnisverð bindingin á bókinni. Bók sem þessi er leigð út til fjölda nemenda á skólabókasöfnum. Hún velkist um í skólatöskum, þvælist í rúmum, undir borðum, við matarborðið og þar fram eftir götum. Allt eins og það á að vera. Kjölbindingin á mörgum eintökum af Leitinni af vorinu er skökk og slök og mér þykir nokkuð líklegt að hún eigi eftir að vera lesin í tætlur allt of fljótt á skólabókasöfnunum. Útgáfa bókarinnar var styrkt af Auði, nýjum barna- og ungmennabókasjóði í maí síðastliðnum. Því er synd að sparað skuli til útgáfu bókarinnar eins og hér virðist hafa verið gert.

Því er þó ekki að neita að lesendur á aldrinum 8-13 ára ætti að líka vel við hraðan söguþráð, frumleg skrímsli, húmor og spennu í boði Sigrúnar, Húgó og Alex.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...