Barnabókin sem er byggð á raunverulegum atburðum

Snæbjörn Arngrímsson sigraði Íslensku barnabókaverðlaunin í ár með bókinni Rannsóknin á leyndardómum eyðihússins. Í bókinn segir frá vinunum Millu og Guðjóni G. Georgssyni sem bæði búa í Álftabæ, skammt frá Eyðihúsinu. Dag einn er undarlegur pakki með gátu skilinn eftir á bókasafni bæjarins. Ráðgátan er of spennandi til að vinirnir geti látið hana hjá líða og upphefst hin æsispennandi rannsókn á leynardómum eyðihússins. Snæbjörn er þekktastur fyrir að hafa stofnað bókaútgáfuna Bjartan á sínum tíma, flutt inn Harry Potter til landans og síðar kynnt Dani fyrir Dan Brown. Rannsóknin á leyndardómum eyðihússins er hans frumraun.

Hvaðan kom innblásturinn að bókinni?

„Á ferðalagi með næturlest frá King Cross lestarstöðinni í London hitti ég rauðhærða konu sem hafði dvalið tvö sumur á Íslandi. Þetta var besta tímabil lífs hennar, sagði hún á meðan við brunuðum í gegnum enskt landslag baðað tunglsljósi. Og hún sagði mér líka frá atburðum sem gerðust í litla, íslenska þorpinu þar sem hún bjó og áttu eftir að fylgja henni alla ævi. Þarna var fyrsta fræinu sáð.“

Þú skrifar bókina í mjög knöppum stíl – kaflar eru mjög stuttir. Hvers vegna velurðu þennan knappa stíl?

„Já, ég valdi að hafa fyrstu kafla bókarinnar frekar stutta til að ná upp ákveðnu tempói í bókinni. Eftir því sem hraðinn í frásögninni eykst því lengri verða kaflarnir. Þetta var bara tilraun til  skapa ákveðinn takt í bókinni, eða kannski réttara að halda jöfnum, hröðum takti. Eins hugsaði ég að það geri bókina aðgengilegri fyrir yngri lesendur að hafa stílinn knappan, sérstaklega þegar maður vill að bókin sé verulega spennandi.“

Krakkarnir í bókinni komast í hann ansi krappan og þú nærð að lýsa tilfinningum þeirra á mjög lifandi og sannfærandi hátt. Eru börn í kringum þig sem þú sækir fyrirmyndir í að Guðjóni G. Georgsson og Millu?

„Ég á sjálfur fimm börn en þau eru ekki beinlínis fyrirmyndir að aðalpersónum bókanna. Bæði Milla og Guðjón G. Georgsson hafa lifnað og þroskast í huga mér á meðan ég skrifaði söguna. En ég er auðvitað undir áhrifum frá mörgum þáttum, bæði fólki sem ég þekki og líka eftirminnilegum persónum úr bókum sem ég hef lesið. En ekki má gleyma því að bókin byggir á raunverulegum atburðum.“

Hvaða kafla fannst þér skemmtilegast að skrifa?

„Mér fannst skemmtilegast að skrifa kafla þar sem ég kom sjálfum mér á óvart. Stundum lýsti ég atburðum sem vöknuðu skyndilega í höfðinu á mér og urðu svo lifandi á meðan ég skrifaði. Og ef mér fannst takast vel upp, var ég alveg í skýjunum.“

Mega lesendur búast við frekari ævintýrum um Guðjón G. Georgsson og Millu?

„Ég er að skrifa aðra bók sem segir frá Millu og Guðjóni G. Georgssyni. Bókin gerist líka í Álftabæ og aðalpersónurnar eru eins og áður Milla og Guðjón G. Georgsson. Ef bókin verður nógu vel skrifuð, nógu skemmtileg og nógu spennandi kemur hún væntanlega út í október á næsta ári.“

Hér fyrir neðan er örstuttur bútur úr bókinni, sem sýnir vel hinn knappa stíl Snæbjarnar.

Brátt fer að rigna

Strokufangarnir voru enn ófundnir. Dagblöðin voru enn full af fréttum um leitina að þeim.

      Guðjón G. Georgsson, þessi smávaxni drengur, með annan handlegginn vafinn utan um ljósastaurinn fyrir utan Eyðihúsið, gekk í hringi í kringum sjálfan sig og staurinn, á meðan hugsanirnar hringsnerust í höfðinu á honum.

      Þegar hann var orðinn ringlaður settist hann hjá mér á útitröppurnar mínar og horfði hugsandi á Eyðihúsið.

      Guðjón G. Georgsson var í þungum þönkum.

      Fuglarnir sungu. Greinar reynitrésins í garðinum vögguðu í vindinum. Á himninum sigldu svört ský hraðbyri yfir dalinn.

            Brátt færi að rigna.

 

 

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...