Samin undir áhrifum drauma og PJ Harvey

Þegar Koparborgin eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur kom út árið 2015 vakti hún töluverða athygli og hlaut meðal annars Bókmenntaverðlaun Reykjavíkurborgar 2016 fyrir bestu frumsömdu barnabókina og tilnefningu til barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs. Aðdáendur Koparborgarinnar voru orðnir langeygir eftir annarri bók frá Ragnhildi og loksins nú í ár sendir hún frá sér sína aðra bók, Villueyjar. Bókin segir frá Arildu sem býr í Eylöndunum og sækir skóla á eyðieyju. Söguheimurinn er sá sami og Koparborgin byggir á, en Villueyjar stendur alveg sjálf. Sagan er vissulega mun dýpri og flóknari en kemst fyrir í einni setningu.

Hvaðan kemur innblásturinn að sögunni?

„Eftir að ég gaf út Koparborgina árið 2015 var ég með margar litlar spírur að nýrri sögu, en ég fékk þær ekki alveg til að ganga upp. Mig dreymdi nokkra eftirminnilega drauma um að ég væri að drukkna, og svo einn þar sem ég var á flótta á lestarstöð. Ég hlaut að geta gert eitthvað við þetta, en hvað? Svo var ég að hjóla í vinnuna einn daginn og hlusta á Let England Shake með PJ Harvey og allt í einu bara BÚMM, ég sá öll Eylöndin fyrir mér. Þetta skrítna land sem birtist í algjöru aukahlutverki í Koparborginni, auðvitað gæti heil saga gerst þar. Ég þurfti að hlusta á þessa plötu nokkrum sinnum til að átta mig á að hún fjallar alls ekkert um söguna mína, heldur um fyrri heimsstyrjöldina. En hvað um það, ég á PJ Harvey óbeint mikið að þakka.

Hvað varðar bækur þá sótti ég mikið í tvær fantasíubækur sem ég hef lesið mjög oft síðustu ár, Jonathan Strange & Mr. Norrell og Uprooted. En ómeðvituðu áhrifin úr bókunum sem ég las sem barn eru samt alltaf sterkust. Fyrir utan hinn augljósa Harry Potter verð ég að nefna Leynigarðinn og Lítil prinsessa. Þó sú síðarnefnda sé kannski ekki mjög töff áhrifavaldur þá verður maður að vera hreinskilinn við sjálfan sig. Svo var ég að lesa Matthildi eftir Roald Dahl aftur um daginn og fattaði að ég hafði alveg óvart hermt nokkuð grimmt eftir einum kafla þar. Mér finnst þetta alveg magnað, maður les einhverja bók þegar maður er sjö ára og eitthvað í henni bara festist í heilanum á manni án þess að maður taki eftir því.“

Heimurinn sem þú skapar er nokkuð líkur okkar, en samt svo ólíkur. Hvert sækir þú fyrirmyndir að Villueyjum?

„Fyrirmyndirnar koma úr svo mörgum áttum að það er erfitt að telja það allt upp. Bókin gerist í landi sem kallast Eylöndin og er nokkurs konar hliðarstef við Bretland. Það lá beint við fyrir mér að byggja ímyndaðan fantasíuheim á Bretlandi, af því að ímynd þess er einhvern veginn alls staðar í þeim bókmenntum sem ég þekki, sérstaklega barnabókmenntunum sem höfðu mótandi áhrif á mig þegar ég var að alast upp.

Bresk menning er kunnugleg en samt svo framandi, raunsæisbókmenntir úr nútímanum eða sögulegar skáldsögur sem gerast í Bretlandi virka hálfvegis á mig eins og fantasíur. Fyrir utan það hvað Bretar hafa sjálfir skrifað margar frábærar fantasíur, þar sem þeir endurskapa sitt eigið land, menningu og sögu í sífellu. Þá er svo auðvelt fyrir mig sem höfund að grípa einhverja velþekkta klisju, rétt impra á henni, og ímyndunarafl og þekking lesandans fyllir áreynslulaust í eyðurnar. Höfundur og lesandi eru að tala um efni sem báðir þekkja.“

Munu lesendur komast til baka til Koparborgarinnar í þessari bók? Eða gerist bókin eftir tortímingu borgarinnar?

„Nei, sú saga er búin. Meðal þeirra hugmynda sem ég mátaði mig við þegar ég var að leita að efni í nýja bók voru forsaga Koparborgarinnar, örlög fólks á þessu svæði eftir að sögusviði fyrstu bókarinnar lýkur, eða örlög barnanna í öðru landi. En það bara lifnaði ekki við. Ég get sjálf orðið mjög reið út í höfunda sem hjakka of lengi í sömu hugmyndinni. Mér finnst það eyðileggja töfrana. Jafnvel taka eitthvað frá lesendunum, að vera alltaf að skrifa eitthvað meira þegar persónurnar og sögusviðið eru þegar farnar að lifa sjálfstæðu lífi í þeirra hugum.

En Villueyjar er samt í  mjög nánum tengslum við Koparborgina, ein elsta senan í allri bókinni er atriði þar sem nemandi og kennari eru að rífast um hvort borgin hafi einhvern tíma verið til. Þessi sena varð til í hausnum á mér löngu áður en karakter Arildu leit dagsins ljós. En ég vissi frá upphafi að þó bækurnar tvær gerist í sama heimi, sé sögusvið Villueyja í öðru landi og miklu seinna. Villueyjar er alveg sjálfstæð frá Koparborginni en ég er engu að síður að reyna að skapa heildstæðan heim þar sem ríkja sömu lögmál, ekki síst um það hvernig galdrar virka.“

Hvaða atriði fannst þér erfiðast að skrifa?

„Almennt séð fannst mér erfitt að skrifa alla bókina eins og hún leggur sig. Sérstaklega seinni helminginn, sem ég skrifaði líka mun hraðar. Ég gæti nefnt ýmsar skrítnar myndlíkingar yfir þetta hugarástand, t.d. að þetta hafi verið eins og að keyra bremsulausan bíl eftir flókinni þrautabraut. Ég fór mjög hratt og þurfti samt að vanda mig mikið og það voru alltaf að koma nýjar beygjur í ljós.

Það gerast hræðilegir hlutir í bókinni, það hafði ég ákveðið áður en ég byrjaði að skrifa hana. Ég veit ekki af hverju, sem lesandi elska ég góðar feelgood bækur en mér virðist fyrirmunað að skrifa þannig. Ég var frekar köld þegar ég skrifaði hana en þurfti auðvitað að lesa alla kaflana ansi oft yfir, og það fannst mér erfiðara. Það eru senur í bókinni sem ég mun aldrei geta lesið upphátt, því ég færi örugglega að gráta, það er bara þannig. Alls konar hlutir sem ég hef óttast í mínu eigin lífi, þeir koma allir fyrir Arildu.“

Af þeim persónum sem koma fram í bókinni, hver er þér hjartfólgnust?

„Ég elska allar persónurnar afar heitt! Þrátt fyrir það hvernig ég kem fram við þær. Sú eina sem ég er kannski ekki með miklar mætur á er sundkennarinn Arlingdale, sem er að hluta til byggð á leikfimikennara sem ég hafði einu sinni.

Mér fannst það flókið úrlausnarefni að skapa persónur í þessari bók, því ég vildi alls ekki endurtaka mig frá því í Koparborginni. En ég held það hafi tekist sæmilega, í þessari bók eru fleiri aukapersónur, en þær fá líka minna rými í söguþræðinum. Svo þurfti ég í fyrsta sinn að skapa fullorðnar persónur. Ég meina fullorðnir, hvernig hugsa þeir? Hvað gera þeir? Ég er enn mjög hissa á því að tilheyra þessum hópi.

Arilda er langstærsti karakterinn í allri bókinni, svo það liggur beint við að segja að hún sé mér hjartfólgnust. En svo þykir mér líka óskaplega vænt um pabba hennar, hann Talwin. Þrátt fyrir að gera skelfileg og óafturkræf mistök, þá voru þau gerð í góðri trú.“

Munu lesendur fá að sjá meira af heiminum þínum í næstu bókum?

„Ef mér tekst að finna efni í aðra bók, þá finnst mér afar líklegt að hún gerist í sama heimi, já. Það er einfaldlega auðveldast að prjóna við eitthvað sem þegar er til. Því meira sem ég skrifa, því fleiri ráðgátur verða til um heiminn, göt sem þarf að fylla í. Svo held ég að mitt ímyndunarafl virki bara svona. Það vill fá að leika lausum hala í heimi sem minnir á okkar, en samt ekki alveg. En að sama skapi er erfitt að byggja upp heilan heim, því meira sem maður útskýrir, því líklegra er að upp komi ósamræmi af einhverju tagi. Eins og að byggja spilaborg, og hver ný hæð er ótraustari en sú fyrri. En við sjáum bara til.“

 

Hér fyrir neðan má lesa hluta af fyrsta kafla bókarinnar:

Kerran skrölti eftir malarveginum og Arilda lét fæturna dingla fram af pallinum. Hún gerði alltaf það sama á leiðinni í skólann á haustin. Sat aftast og sneri baki í hina krakkana til að geta horft á ferjustaðinn fjarlægjast og hverfa loks bak við hæðirnar. Hávaðinn í rauðri mölinni sem skoppaði undan hjólunum útilokaði öll önnur hljóð og Arilda þurfti að halda sér fast til að detta ekki fram af. Þegar hún leit um öxl, framhjá skólasystkinum sínum á farþegabekkjunum, sá hún Maurice standa uppi við ekilshúsið. Hann hafði lagt olnbogana ofan á þakið og horfði fram á veginn. Fíngert hárið þyrlaðist í vindinum, hann leit við og hrópaði spenntur: „Við erum að verða komin, Arilda! Ég sé húsið!“

Arilda hélt aftur af brosinu, sneri sér við og horfði einbeitt á rauðan malarveginn streyma fram undan vagninum. Tilfinningin á fyrsta skóladeginum var sú sama ár eftir ár, blanda af eftirsjá og feginleika. Til að njóta hennar til fulls gerði Arilda sitt besta til að dagurinn væri alltaf eins. Vagninn var kominn yfir hæðardragið og hestarnir höfðu komið auga á áfangastaðinn á sama tíma og Maurice. Þeir greikkuðu sporið, vegurinn tók að halla niður á við og vagninn þeystist áfram. Skólatilfinningin magnaðist upp innra með Arildu eftir því sem hæðin reis hærra yfir henni og hún kreppti hnúana um pallbrúnina svo þeir hvítnuðu.

Þegar vagninn staðnæmdist var Arilda fyrst til að stökkva niður á brakandi mölina. Hnén voru svo stirð af kyrrsetu að hún riðaði. Hún leit fyrir hornið á vagninum og þá fyrst sá hún skólahúsið, einu bygginguna sem rauf samfelluna í eyðilegu landslagi eyjunnar. Það var tvílyft hvítt steinhús með háu risi. Aftur frá framhliðinni lágu tvær hliðarálmur sem girtu af stóran garð, þar sem sundlaugin og hlaupabrautin voru. Þakið var lagt mosavöxnum steinflísum og litlir og mjóir gluggarnir voru grænmálaðir svo húsið rann áreynslulaust saman við umhverfið. Arilda dró andann djúpt. Það var skólalykt af loftinu. Lyktin af mosa og kólnandi veðri, af heiðinni handan skólans, af sjónum allt í kring.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...