Eva Rún Þorgeirsdóttir sendir frá sér tvær bækur inn í jólabókaflóðið í ár; og Stúfur hættir að vera jólasveinn. Áður hefur hún sent frá sér bækurnar um Lukku og hugmyndavélina. En er töluvert rólegri bók en bækurnar um Lukku og hugmyndavélina, þar sem hasar er á hverri síðu. Bókin er fjölskyldubók um hugleiðslu. „Hún útskýrir í einföldu máli hvað hugleiðsla er og hvetur lesandann til að leita að innir ró,“ segir Eva Rún. Bókin er unnin í samvinnu við Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur, myndhöfundi. „Ævintýralega fallegu vatnslitamyndirnar hennar Bergrúnar bæta svo miklu við textann og koma ákveðinni stemmningu – svo mikilli kyrrð og ró – til skila til lesandans. Vatnslitir eru næring fyrir augað.“

Út á hvað gengur bókin Ró?

„Ró er bók sem útskýrir í einföldu máli hvað hugleiðsla er og hvetur lesandann til þess að leita að innri ró. Lífið getur stundum orðið dálítið yfirþyrmandi, til dæmis þegar við finnum fyrir kvíða, óróleika eða óöryggi. En innra með okkur öllum býr sá eiginleiki að geta kallað fram kyrrð og ró innra með okkur, jafnvel þó að það virðist ómögulegt.

Bókin fjallar í raun um það hvernig verur við mannfólkið erum – með stórkostlegan líkama, magnaðann huga og með fullt af allskonar tilfinningum innra með okkur. Bókin hvetur þann sem les til þess að leggja af stað í leiðangur til að finna þessa ró. Þetta er nefninlega leiðangur. Við þurfum að vera forvitin, halda áfram að kanna eigin hugarheima og tilfinningar og gefast ekki upp í leitinni að innri frið.“

Hvaðan kom hugmyndin að bókinni?

„Ég kenndi krökkum jóga, slökun og hugleiðslu í sjö ár og bókin er í raun samantekt á því efni sem ég var að kenna þeim. Hugmyndin að bókinni kviknaði eftir að ég hafði kennt krökkum í dálítinn tíma og sá hversu mögnuð áhrif hugleiðsla hafði á þau. Mig langaði að koma þessu kennsluefni mínu í eigulega bók.

Jógatímar með krökkum eru mjög skapandi og lifandi og ýmsar hugmyndir kviknuðu í tímunum sem ég kenndi. Ég kenndi til dæmis jóga í nokkur ár í Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík – sem er ein skemmtilegasta vinna sem ég hef verið í – og þar var frábært að fá að vinna með sömu krökkunum yfir langt tímabil. Þar sá ég hvernig krafmiklustu orkuboltarnir gátu – með smá þrautsegju – tileinkað sér slökun og hugleiðslu og notið þess að slaka á. Auk þess hef ég unnið mikið með jóga og hugleiðslu með börnum mínum og séð hversu mögnuð og heilandi áhrifin eru.

Það má því segja að öll börn sem ég hef kennt jóga og hugleiðslu eigi dálítið í þessari bók. Bókin er líka skrifuð sem skilaboð til barnanna minna. Þetta er það sem mig langar til að þau taki með sér út í lífið.“

Samspil mynda og texta í bókinni er einstaklega gott. Hvers virði er góð myndskreyting í bók sem þessari?

„Ég var búin að ganga lengi með hugmyndina að þessari bók en vantaði teiknara. Það var ekki fyrr en ég fékk snillinginn Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur til liðs við mig að bókin fór að verða til. Hún tengdi strax við viðfangsefnið.

Myndirnar í Ró skipta gríðarlega miklu máli. Þær hjálpa skilaboðum textans að komast til skila og við Bergrún lögðum okkur fram við að tengja myndir og texta saman. Bókin er samstarf okkar tveggja og við hittumst nokkrum sinnum í ferlinu til að vanda til verks. Við ákváðum að nota íslenska náttúru í myndunum, enda fullkomlega við hæfi að tengja fegurð íslenskrar náttúru við hugleiðsluna, kyrrðina og friðinn. Og býflugan varð til dæmis táknmynd fyrir hinn sí-sveimandi huga.

Er bókin eingöngu til lesturs?

„Ró er ekki bara ætluð til lesturs. Bókin er þannig gerð að þú getur lesið hana alla eða bara lesið eina og eina opnu og notað æfingarnar sem þar eru.

Í bókinni eru fáar og einfaldar æfingar. Þar er að finna öndunaræfingu, slökun og svo hugleiðslu þar sem hægt er að velja sér hugleiðslusögu. Æfingarnar eru mjög einfaldar og allir ættu að geta tileinkað sér þær.

Það er líka hægt að skrifa og teikna í bókina. Þar er að finna opnu þar sem þú getur skrifað þína eigin hugleiðslusögu og önnur opna þar sem þú getur teiknað og litað trjáhýsi. Þannig gerir þú bókina persónulegri og hún verður einskonar verkfærakista sem þú getur gripið í og notað þegar þú vilt.“

Hverjir hafa gott af því að nýta sér bókina? Er bókin bara fyrir börn?

„Bókin er það einföld að krakkar sem hafa náð tökum á lestri geta lesið hana sjálf. En síðan geta mömmur, pabbar, ömmur, afar og systkini líka lesið fyrir börnin sín og þannig getur bókin opnað á samtal innan fjölskyldunnar um það hvernig hægt er að finna meiri frið og innri ró.

Bókin er því fjölskyldubók – og unglingar og fullorðið fólk ætti að njóta þess að lesa bókina líka og gera æfingarnar í henni. Þó að bókin sé fyrst og fremst skrifuð fyrir krakka, þá á hún alveg jafn mikið erindi við unglinga og fullorðið fólk.“

 

Ljósmyndina af Evu Rún tók Rut Sigurðardóttir

 

 

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...