Dulmálsmeistarinn er fyrsta barnabók norska rithöfundarins Bobbie Peers. Hún kom út í Noregi árið 2015 og hefur verið þýdd yfir á mörg tungumál. Dulmálsmeistarinn er fyrsta bókin í bókaseríunni um William Wenton en bækurnar eru nú orðnar fimm á frummálinu. Á frummáli heitir bókin Luridiymstyven og kemur út hér á landi í vandaðri þýðingu Ingunnar Snædal. Bókin hefur hlotið góðar viðtökur erlendis og var meðal annars kosin barnabók ársins í Noregi árið 2016.

Erfiðasta þraut í heimi

Í bókinni segir frá William Wenton sem í byrjun sögunnar er á ókunnugum stað í Noregi ásamt fjölskyldu sinni. Fyrir átta árum þurftu þau að flýja England en lesandinn fær ekki að vita af hverju, allavega ekki til að byrja með. Þegar William leysir Ómöguleikann, erfiðustu þraut í heimi, í skólaferð í Noregi hefst hröð og spennandi atburðarrás sem heldur lesandanum við efnið. Bókin gerist að mestu leyti á Englandi á stað sem kallast Rannsóknarstofnun ofurgreindra. Stofnunin er nokkurs konar skóli sem tekur inn nemendur sem hafa sýnt afburða hæfileika í að leysa dulmál og þrautir. Brátt kemst William að því að hann er í bráðri hættu, meðal annars vegna fyrirbæris sem kallast lúridíum. William deyr þó ekki ráðalaus og hæfileikar hans til að leysa dulmál og ráðgátur reynast honum gulls ígildi.

Stórhættulegar vélmennaplöntur

Höfund skortir svo sannarlega ekki ímyndunarafl og bókin er stútfull af góðum hugmyndum sem komu mér skemmtilega á óvart. Á Rannsóknarstofnun ofurgreindra er að finna margar forvitnilegar uppfinningar og vélmenni, meðal annars stórhættulegar vélmennaplöntur. Ég hefði ekkert á móti því að eiga sumar af þessum uppfinningum sjálf, eins og til dæmis talandi hurð sem er uppfull af vitneskju og þjónar þeim gagnlega tilgangi að segja frá því hver er að banka. Síðan eru uppfinningar sem ég er viss um að lesendur verða fegnir að hafa ekki á heimilum sínum. Þar má nefna deilumenni en ég ætla að leyfa ykkur lesendunum að komast að tilgangi þess.

Grípandi vísindaskáldsaga

Maður á svo sannarlega ekki að dæma bók eftir útliti kápunnar en ég verð að viðurkenna að kápan heillaði mig enda er hún bæði vönduð og falleg. Sagan greip mig strax frá fyrsta kafla og hélt mér við efnið alveg til enda. Söguþráðurinn er talsvert hraður og sums staðar hefði mátt staldra við og lýsa betur umhverfi og aðstæðum. Oft var ég einfaldlega svo spennt að ég vildi fá að vita meira um það sem var að gerast. Einnig hefði ég viljað kynnast betur Isciu, vinkonu Williams frá rannsóknarstofnuninni, enda leikur hún lykilhlutverk í sögunni. Kaflarnir eru stuttir og laggóðir sem mér þykir mikill kostur því ég á erfitt með að hætta að lesa í miðjum kafla. Dulmálsmeistarinn er spennandi vísindaskáldsaga sem hentar vel fyrir tíu ára og eldri. Hún er auðlesin og áhugaverð og ég bíð spennt eftir framhaldinu.

 

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...