Frá Marteini skógarmús til Dónalds Trump

„Mig langaði bara allt í einu til að skrifa um það sem er efst á baugi í dag, um kommentakerfin, um popúlisma og um ómanneskjuleg og ómannúðleg viðhorf sem mér finnst vaða uppi. Og þar sem ég skrifa barnabækur endaði þessi löngun til að hafa áhrif í barnabók. Sem er þó vonandi fyrst og fremst spennandi, skemmtileg og pínulítið krípí. Broskall!“ Gunnar Helgason er fyrir löngu orðinn einn af þekktustu barnabókahöfundum Íslands. Bækurnar af Fótboltasögunni miklu og bækurnar um Stellu hafa heillað lesendur, jafnt unga sem aldna. Nýjasta verkefni Gunnars er að setja Mömmu klikk á svið í Gaflaraleikshúsinu.

Bæði Fótboltasagan mikla og bækurnar um Stellu verða að teljast nokkuð jarðbundnar bækur. Í bókinni Draumaþjófurinn kveður við nýjan tón, því aðalsöguhetjurnar eru rottur en ekki menn. Heimur rottanna er þó nokkuð líkur okkar eigin og mjög líklegt er að fullorðnir eigi eftir að sjá einhverjar skírskotanir til pólitísks ástands í heiminum í dag. Það leynist þarna ádeila. „En ekki fyrir börnum. Ég held að þau skynji ekki endilega ádeiluna á sama hátt og fullorðnir munu gera,“ segir Gunnar. „Þau munu sjá og hugsa að þau verði að huga betur að umhverfinu og hvað verður um allt plastið sem við erum að nota, sem dæmi, en þau munu ekki tengja við hið pólitíska ástand sem erí heiminum í dag. Fullorðnir munu hinsvegar sjá ádeiluna. Ekki spurning.“ Bókin er ríkulega myndskreytt af Lindu Ólafsdóttur og ef rýnt er í myndina af Skögultönn má sjá nokkur líkindi með henni og forseta Bandaríkjanna.

Hvaðan kom innblásturinn að Draumaþjófnum?

„Innblásturinn kom hreinlega yfir mig þegar ég sat á æfingu á Dýrunum í Hálsaskógi hjá Leikfélagi Keflavíkur haustið 2017. Leikkonan sem lék Martein Skógarmús var einfaldlega svo frábær að ég hugsaði með mér: Nei, nú verð ég að skrifa heila bók um hann Martein. Og það rifjaðist líka upp fyrir mér þegar Jóhann G. Jóhannsson lék Martein í síðustu uppfærslu Þjóðleikhússins á Dýrunum. Hann var svo góður að þá áttaði maður sig á því að Marteinn er í raun aðalpersóna verksins. Svo ég settist niður og fór að punkta hjá mér. Og ég punktaði í eitt og hálft ár og alltaf breyttist bókin og það er í raun voðalega lítið eftir af honum Marteini í bókinni. Það breyttist allt til dæmis þegar ég sá ræðu sem bandarísk þingkona hélt í kirkju þar sem henni var tíðrætt um Draumaþjófana í lífi hverrar manneskju (The Dreamsnatchers) og þar með var titillinn kominn. Og við það breyttist bókin enn meira. Svo þegar ég byrjaði að skrifa bókina þá læddist inn í tölvuna ný rotta, nýr karakter sem er algerlega innblásinn af Kitty-kitty-bang-bang. Og svo gerðist hann Dónald Trump, blessaður mikill áhrifavaldur, og smám saman varð þessi litla tribute bók til Marteins að spennusögu um litla rottu sem reynir að lifa af í hörðum heimi. Og breyta honum.“

Hver er Eyrnastór Aðalbarn Gullfalleg Rottudís?

„Hún er saklaust barn í byrjun bókarinnar sem hefur það best af öllum röttubörnum í heiminum því hún er dóttir Skögultannar, hinnar ógurlegu, foringja rottanna í Hafnarlandi. Hún er hinsvegar ævintýragjarnari en aðrar yfirstéttarrottur og á vin, hann Halald, sem er skemmtilegasta rotta sem hún þekkir. Þeirra vinátta fær hinsvegar hræðilegan endi þegar Skögultönn kemst að þvi að þau eru vinir. Þannig byrjar bókin og smám saman fer Eyrnastór að skilja hvernig samfélag rottanna í Hafnarlandi virkar og henni finnst að það sé í raun vont samfélag. Í lokin er hún orðin uppreisnarseggur og byltingarstjóri.“

Hvers vegna urðu rottur fyrir valinu þegar velja átti persónur í bókina?

Það er út af honum Marteini Skógarmús. En mér fannst allt í einu að mýs væru of sakleysislegar fyrir alla grimmdina og spennuna sem mig langaði að setja í bókina. Þá var eðlilegt að skipta yfir í rottur.

Hvað viltu að lesendur taki með sér úr bókinni?

Ég vil helst að fullorðnir lesendur loki bókinni að lestri loknum og segi: Jánei, þetta gengur ekki! Börnin eiga hinsvegar að loka bókinni og hugsa: Þetta var sko spennandi. Svo þegar þau eldast vona ég að þau muni hvernig ástandið var í Hafnarlandi áður en Eyrnastór gerði uppreisn.

 

Hér fyrir neðan geturðu lesið brot út bókinni:

„FLJÓT!“ öskraði Eyrdís og hljóp af stað á eftir hópnum.

Hún leit til baka og sá að minkurinn hljóp á sínu undarlega stökki í áttina að henni. Úr hinni áttinni kom hrafninn eins og fiðruð byssukúla í áttina að henni. En í stað þess að þykjast vera dauð hljóp Eyrdís í áttina að minknum. Hrafninn breytti um stefnu og reiknaði út hvar þau minkurinn myndu mætast. Hann varð að gefa í ef hann átti að ná þessu.

Minkurinn stökk til að hremma rottuna.

Eyrdís fleygði sér á magann og rann undir minkinn.

Hrafninn sperrti klærnar og greip í feldinn. Í kjötið.

Örvæntingarvein skar loftið.

Krummi breiddi úr vængjunum til að hægja á sér og lenti loks á götunni með óargadýrið undir sér. Það reyndi að bíta hann og hann hjó gogginum í það á móti en minkurinn iðaði svo í klóm hrafnsins að hann hitti aldrei. Þá beit minkurinn hrafninn í bringuna. Sársaukinn var ekki mikill því minkurinn náði varla í gegnum þykkt lagið af fiðri. Alveg ósjálfrátt hjó hann gogginum í hausinn á minkinum. Það dugði til að minkurinn sleppti takinu.

Þegar hrafninn hóf sig til flugs leit hann til baka og sá blóð seytla úr höfði minksins þar sem hann forðaði sér en Eyrdís var á spretti í áttina að hliðinu.

Hún stoppaði innan við hliðið, ánægð með sig. Í þetta sinn kúkaði hún ekki á sig af hræðslu, né fékk hún blóðnasir. Hún hafði séð til þess að hinar rotturnar komust inn í Hafnarland og hafði sjálf sloppið frá tveimur rándýrum með sniðugri brellu. Það gaf henni kjark og aukna trú á að henni tækist að sigra Ljúf og Skögultönn!

Hún sneri sér við og leit í kringum sig. Hvert höfðu vinir hennar farið? Hún hljóp af stað og tók stefnuna á skuggana með fram gámunum. En hún var ekki komin langt þegar hún varð vör við hreyfingu til hliðar við sig.

„Eyrnastór Aðalbarn Gullfalleg Rottudís?“ sagði einhver og hún leit til hliðar. Úr skugganum við skúrinn sem stóð við hliðið kom ung rotta. Þetta var Léttfeti. Eyrdís mundi eftir honum frá Draumanóttinni. Hann var Njósnari. En hann hafði verið vinur Halaldar. Var hann þá ekki vinur hennar? Hann stóð grafkyrr og horfði á hana eins og hann vissi ekki hvað hann ætti að gera. Hann er orðinn svo grannur, hugsaði Eyrdís.

Það hafði ekki verið hluti af áætlun hennar að hlaupa beint í flasið á Njósnara en hún var fegin að það var Léttfeti sem hafði séð hana en ekki einhver af eldri Njósnurunum. Hún trítlaði af stað í áttina til hans, viss um að hún gæti fengið hann í lið með sér og byltingarhópnum hennar. Hann virtist enn meira undrandi á því að hún skyldi hlaupa til hans því skipanir hans voru alveg skýrar. Ef hann – eða einhver Njósnari – fyndi Eyrnastóra Aðalbarn Gullfallega Rottudís átti hann að láta vita. En hún var ekki eins og hún var áður en hún hvarf. Hún var með ljótt skarð í öðru eyranu og eignlega engan hala.

Hún var komin næstum alveg að honum þegar hún heyrði einhvern kalla rétt hjá. Orðin bergmáluðu á milli gámanna og húsanna um allt Hafnarland. Þetta voru orð sem sendu hroll niður bakið á Eyrdísi jafnvel þó að röddin væri mjúk og lokkandi. Hárin risu á líkama hennar þegar hún heyrði Ljúf kalla:

„Krakkaaar … maaatur!“

Léttfeti heyrði þetta líka og það var eins og hann vaknaði af dvala.

„Eyrnastór, ert þetta þú?“ spurði hann eins og auli.

„Já, ert þú ekki Léttfeti? Vinur Halaldar?“ spurði Eyrdís á móti. Hvert bein í líkama hennar öskraði á hana að koma sér í skugga en hún stóð kyrr, sannfærð um að hún gæti talað Léttfeta til.

„Jú,“ svaraði Léttfeti og áður en Eyrdís gat sagt nokkuð meira bætti hann við hvíslandi: „Fyrirgefðu.“

„Ha?“ Eyrdís vissi ekki hverju hann var að biðjast afsökunar á svo þetta sló hana út af laginu.

„TAKTU HANA!“ öskraði Léttfeti þá, Eyrdísi til skelfingar. Hún snarsneri sér við en hljóp þá beint inn í …

(þú verður að lesa bókina til að vita inn í hvað Eyrdís hljóp. 🙂

 

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...