Í leit að engri merkingu

Skjáskot eftir Berg Ebba kom út þann 11. september síðastliðinn og það var með nokkurri eftirvæntingu sem ég hóf lestur. Ég er nefnilega mjög hrifinn af Bergi Ebba. Jafnvel aðdáandi. Mér finnst hann fyndinn uppistandari, fyrirtaks álitsgjafi í einhverjum menningartengdum þætti á RÚV, mér finnst hann sérstaklega skemmtilegur tónlistar- og stemningsrýnir í hlaðvarpinu Fílalag og að lokum finnst mér hann góður penni. Ég hafði lesið fyrri bók hans Stofuhita sem kom út árið 2017 og fannst hún vel skrifuð og skemmtileg greining á nútímasamfélagi. Undirtitill Stofuhita var Ritgerð um samtímann en þó svo að sú bók hafi verið mjög skemmtileg aflestrar fannst mér nokkuð erfitt að koma auga á einn rauðan þráð gegnum verkið, það var farið um ansi víðan völl. Ég vildi rétt koma þessum fyrirvara á framfæri svo lesendur geti lesið það sem á eftir fylgir með þeim formerkjum.

Milli rýma

Skjáskot er því önnur bók Bergs Ebba sem á að vera einhvers konar greining á nútímanum eða spá um framtíðina. Og hér tekst honum nokkuð vel upp. Í verkinu skiptast á ýmsar sögur og hugleiðingar um samtímann. Fjallað er um það hvernig tækniþróun síðustu áratuga hefur skilið mannskepnuna eftir í einskonar tómarúmi, mitt á milli hins stafræna heims og hins efnislega heims. Bergur Ebbi talar um þau sálrænu áhrif sem þetta hefur á okkur og nær vel að tíunda hvernig tæknin hefur þróast mun hraðar en allt regluverk (formlegt og óformlegt) sem við hana á. Sem dæmi nefnir hann að leikreglur og ábyrgð í hinum stafræna heimi eru mun óljósari en í kjötheimum.

„Ef bifreið er ekið yfir manneskju er ekki hægt að bera fyrir sig að eitthvað hafi verið tekið úr samhengi. Bifreiðinni er, ennþá að minnsta kosti, stýrt af fólki sem ber fulla ábyrgð á valdinu sem því fylgir. Þannig er snjallsíminn ekki enn.“

Bergur Ebbi nær í þessari bók að fjalla um flókin og torveld málefni á skemmtilegan og skýran hátt. Ég skemmti mér konunglega yfir bókinni en hún vakti mig líka til umhugsunar og velti upp nýjum flötum á ýmsum málum sem mér hafði ekki dottið í hug. Meðal annars er fjallað um þá gríðarlegu gagnasöfnun sem á sér stað og hvernig öll þessi gagnasöfnun gefur gervigreindinni kleift að sjá merkingu – Í bókstaflega öllu. Þannig er fátt eða ekkert til í dag sem er merkingarlaust að mati höfundar.

Stíllinn er nokkuð blátt áfram. Hér er ekki notast við formlegt málsnið. Notað er það sem kalla má hámenntað hlaðvarpsmálfar sem liggur auðvitað vel fyrir höfundi. Með því að hafa stílinn ekki uppskrúfaðann og hátíðlegan verður verkið mun aðgengilegra og þægilegra aflestrar. Mér þykir Bergi Ebba hafa tekist mjög vel upp með þessa bók og finnst hún fremur standa undir titlinum Ritgerð um samtímann heldur en síðasta bók hans. Umfjöllunarefnið er afmarkað og þó farið sé um víðan völl er ávallt rauður þráður í frásögninni þó lesandi komi kannski ekki strax auga á hann. Í hnotskurn er bókin þægileg í lestri, hnyttin og fær mann til að sjá hluti í nýju ljósi.

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...