Draumaþjófurinn eftir Gunnar Helgason er töluvert frábrugðin þeim bókum sem hann hefur sent frá sér hingað til. Gunni er þekktari fyrir að skrifa sögur sem gerast í raunheimum, samtímasögur af venjulegum en samt óvenjulegum krökkum. Þannig hefur hann slegið í gegn með bókunum um Stellu og Fótboltasögunni miklu. Draumaþjófurinn gerist í hliðarveruleika, þar sem allir aðalleikarar eru rottur.

Draumaþjófurinn fjallar um rotturnar í Hafnarlandi, þar sem Skögultönn er einráð og samfélaginu er rækilega skipt í annars vegar þá sem eiga og hins vegar þá sem ekki eiga. Það eru Safnarar og Étarar og það er dyggð að vera latur og feitur. Sérstaklega fallegt þykir einnig að vera með sérlega smáar framtennur því það ber góðu lífi vitni, enda vita flestir að rottur sem naga mikið fá smærri tennur. Eyrnastór Aðalbarn Gullfalleg Rottudís (Eyrdís) er þegn af stétt Étara og býr einnig við þau forréttindi að vera einkadóttir Skögultannar. Hún er þó ekkert sérstaklega hrifin af hlutskipti sínu og myndi mikið frekar vilja vera Njósnari og það vill hennar besti vinur Halaldur líka, sem er af stétt Safnara. Öll samskipti milli stétta eru bönnuð, en Eyrdís og Halaldur taka áhættuna og halda áfram að vera vinir. Hægt og rólega fer Eyrdís að sjá að samfélag Hafnarrottanna er rotið og atburður á Draumakvöldinu verður til þess að hún missir alla trú á samfélaginu og fer inn í Borgina.

Mismunandi samfélög rotta

Sagan er nokkurs konar þroskasaga Eyrdísar en einnig sterk samfélagsádeila, sem fullorðnir lesendur eiga eflaust eftir að sjá í gegnum söguna. Þannig svipar Skögultönn mikið til Bandaríkjaforseta, stjórnarfar í Hafnarlandi er rammkapítalískt og óttinn við innflytjendur er gríðarlegur. Börn sem lesa bókina eiga eftir að sjá óréttlæti samfélagsins í Hafnarlandi, en ekki endilega ádeiluna.

Eftir því sem Eyrdís kemst lengra að heiman kemst hún í kynni við önnur samfélög af rottum, sem eru töluvert öðruvísi en samfélagið í Hafnarlandi. Hún hittir til dæmis Borgarrotturnar sem lifa þokkalegu lífi, en þó í stöðugum ótta við manneskjurnar. Það er ekki fyrr en hún kemst út fyrir borgina, upp í hlíðar ruslafjallanna sem Eyrdís kemst í paradís. Þar eru gnægtir matar og nóg fyrir alla. Samfélagsrottur á ruslahaugunum gæta hvor að annarri. Þetta er paradís og Eyrdís ákveður að velta móður sinni, Skögultönn, úr sessi og gera byltingu með hjálp nokkurra dyggra stuðningsrotta sinna.

Mannlegar eða dýrslegar rottur?

Rottur eru ekki lystilegustu dýrin sem hægt er að nota í skáldsögu fyrir börn. Rotturnar í Hafnarlandi eru meira að segja svolítið rottulegar. Þær borða myglaðan mat, gramsa í rusli, synda í holræsakerfum og eru almennt ólystugar eins og rottum er lagið. Gunni dansar ögn á línunni með hvort þetta séu mannlegar rottur eða rottulegar rottur. Þær tala en að sama skapi hegða þær sér að miklu leiti eins og rottur. Sjálfri fannst mér þetta skemmtileg tilbreyting frá Disney-dýrunum sem ganga í fötum.

Gunni skrifar alltaf tæpitungulaust og stíllinn er litríkur og líflegur. Draumaþjófurinn er alls engin undantekning. Sagan er hröð og spennandi og ekki síður fyndin.

Teikningar Lindu Ólafsdóttur í bókinni eru bráðskemmtilegar og rotturnar eru rottulegar, en þó með vissum mannlegum einkennum. Hún nær að dansa á línunni eins og Gunni. Það er greinilegt að andi Trump Bandaríkjaforseta hefur svifið yfir þegar Linda teiknaði Skögultönn.

Villandi titill

Titill bókarinnar er mjög grípandi: Draumaþjófurinn. En að sama skapi finnst mér titillinn mjög villandi. Í Hafnarlandi er Draumasmiður, sá sem útdeilir störfum til rottubarna eitt kvöld á ári. Í gamni kalla Eyrdís og Halaldur hann Draumaþjófinn, því hann er líka þekktur fyrir að útdeila rottubörnum óeftirsóknarverðum störfum sem þau þurfa að sinna fyrir lífstíð og þannig brjóta alla þeirra drauma. Þessi sögulína var þó ekki sú sem mest áberandi í sögunni. Vissulega var Draumakvöldið mikið örlagakvöld fyrir söguna, en þó ekki drifkrafturinn í bókinni. Aðalpersóna bókarinnar er Eyrdís og mér finnst að titill bókarinnar hefði mátt endurspegla mun betur hennar örlagasögu.

Þónokkrir þræðir í bókinni voru einnig undarlegir. Til dæmis er rætt um föður Eyrdísar, líkt og lesandi eigi jafnvel eftir að kynnast honum. Sá þráður er svo látinn niður falla. Einnig er samband Eyrdísar og mömmu hennar, Skögultönn mjög undarlegt og eflaust hefði verið heppilegra að láta þær vera frænkur. En kannski er rottum bara alveg sama um afkvæmi sín?

Heilt yfir er sagan spennandi, fyndin og keyrð áfram af vissu. Það er hörð ádeila í bókinni á stjórnmálaástand í heiminum í dag, innflytjendamál, nýtni, réttlæti, neyslu og loftslagsmál. En líklega eiga yngri lesendur ekki eftir að lesa mikið af þessu úr sögunni, heldur fylgjast spenntir með ævintýrum Eyrdísar.

 

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...