Þjóðernispopúlistinn Friðbergur forseti

„Mér finnst afskaplega jákvæð sú þróun sem hefur orðið varðandi stöðu barna sem samfélagsþegna í dag þó auðvitað megi alltaf gera betur,“ segir Árni Árnason, höfundur bókarinnar Friðbergur forseti. Í bókinni eru tekin fyrir málefni eins og útlendingaótti og brottflutningur barna. „Rödd barna er farin að hafa meira vægi í umræðunni en áður og ég held að það að ræða við börn um alvöru málefni, og hlusta á hvað þau hafa til málanna að leggja, sé öllu samfélaginu hollt. Ég vona að þessi þróun haldi áfram og að skoðanir barna öðlist enn meira vægi í framtíðinni.“

Aðal söguhetjur bókarinnar um Friðberg forseta eru systkinin Ari og Sóley. Skömmu eftir að Friðbergur forseti kemst til valda á Íslandi fara börn að hverfa og svo virðist sem einhver hryðjuverkasamtök standi á bak við það. Systkinin Ari og Sóley kippa sér lítið upp við nýja forsetann en þegar bekkjarfélagar þeirra, Nabil og Iman, er vísað úr landi fyrir það eitt að vera útlendingar þá er þeim nóg boðið. Þannig hefst barátta þeirra systkina og bekkjarfélaga þeirra gegn Friðbergi forseta.

Hvaðan kom innblásturinn að bókinni?

Hann kom í raun í gegnum skemmtileg samtöl við dóttur mína, hana Helenu. Mig langaði til þess að skrifa bók fyrir hana og með hennar aðstoð, bók sem hún hefði gaman af og sem okkur myndi langa til að lesa saman. Ég ákvað strax skrifa söguna inn í samtímann og framtíðina, að láta atburði og persónur taka mið af því sem væri að gerast allt í kringum okkur í dag og gætu mögulega gerst í náinni framtíð. Þarna er komið inn á ýmsa hluti sem krakkar heyra talað um allt í kringum sig á hverjum degi en sem eru kannski ekki ræddir mjög oft beint við þau. Svo kom auðvitað strax upp sú krafa frá Helenu að bókin yrði dálítið fyndin en líka æsispennandi, sem ég held að hafi bara tekist nokkuð vel.

Efni bókarinnar er nokkuð þungt. Finnst þér mikilvægt að börn kynni sér hluti líkt og eru til umfjöllunnar í bókinni?

Ég myndi sjálfur ekki tala um efnið sem þungt, þó þar sé vissulega snert á alvarlegum hlutum. Það er smáræðis pólitík í bókinni sem ég held að sé bara af hinu góða, þar er verið að taka á hlutum sem eru að gerast í kringum okkur í dag og við erum flest sammála um að þurfi að tækla betur. Eins og ég sagði hér að ofan þá heyra börn reglulega um þessa hluti og ég held það sé mjög mikilvægt að þau séu meðvituð um þá og hugsi um þá. Þeirra er framtíðin og það eru þau sem hafa það í hendi sér að gera heiminn að betri stað. Ég tala oft um það þegar ég les fyrir krakka að bókin fjalli að stóru leyti um það að hlusta á hjartað sitt og breyta samkvæmt því sem það segir okkur. Börn geta það en því miður er eins og margir tapi þeim eiginleika þegar þeir eldast. Ég trúi því að með því að fá börn til að hugsa um þessa hluti getum við þjálfað þennan eiginleika enn betur og vonandi gert þeim kleift að taka hann með sér fram á fullorðinsár. Að því sögðu þá er Friðbergur forseti fyrst og fremst grípandi spennusaga með hæfilegri blöndu af húmor og hugljúfum augnablikum.

Hver er Friðbergur forseti?

Ég hef nú alltaf svarað þessari spurningu þannig að hann sé blanda af nokkrum einstaklingum sem við sjáum mikið af í dag. Ég hef til dæmis verður spurður að því hvort fyrirmyndin sé Donald Trump og get alveg svarað því til að það er talsverður Trump í Friðbergi en þar eru líka nokkrir aðrir sem við þekkjum vel. Í grunninn er hann aðili sem hefur notað þjóðernispopúlisma til að höfða til fjöldans og ná völdum, aðferð sem við höfum því miður séð meira af á undanförnum árum í heiminum.

 

Í kaflanum hér að neðan eru systkinin Sóley og Ari stödd á skuggalegum stað í miðri æsilegri baráttu sinni við skuggalega mannræningja.

Í kjallaranum

Klikk heyrðist óþarflega hátt í dyrunum um leið og ég lokaði þeim á eftir mér. Úps, þetta hljómaði eins og þær hefðu verið að læsast á eftir okkur. Ég sneri mér við, tók í hurðarhúninn og því miður hafði ég rétt fyrir mér. Dyrnar voru læstar og það var greinlega ekki hægt að opna þær nema með lykli. Nú var engin leið til baka, við hreinlega yrðum að takast á við það sem var framundan, hversu ógnvænlegt sem það var.

Við vorum stödd á dimmum gangi. Það var skrýtin lykt þarna inni, dálítið lík lyktinni sem kom stundum upp úr nestisboxinu mínu þegar ég gleymdi því, með afgöngum, í skólatöskunni yfir heila helgi. Nema þessi lykt var enn sterkari, meira eins og ég hefði gleymt boxinu í töskunni allt jólafríið.

„Ojbarasta,“ sagði Ari óþarflega hátt og nefmæltur af því hann hélt fyrir nefið.

„Uss, ekki hafa hátt,“ hvíslaði ég til baka á meðan ég reyndi að átta mig á aðstæðum. Það var slökkvari við dyrnar en þegar ég ýtti á hann gerðist ekkert, við yrðum að athafna okkur í myrkrinu. Smám saman fóru augun að venjast ljósleysinu og ég fór að greina útlínur í umhverfinu. Þetta var dimmur og þröngur gangur. Það var lágt til lofts og neðan úr loftinu héngu einhver rör, örugglega heitavatnsrör eins og voru í kjallaranum heima. Þarna inni var grafarþögn, fyrir utan lítið bank, eða meira svona tikk hljóð, sem heyrðist reglulega frá rörunum. „Tikk… tikk… tikk…“ heyrðist frá þeim og ég fann hvernig gæsahúðin hríslaðist um mig við þetta hljóð sem vanalega hefði hljómað mjög meinlaust en var dálítið draugalegt svona í myrkrinu og þögninni. Á veggjunum var ekkert en þegar ég leit inn ganginn fannst mér eins og ég sæi móta fyrir hurð við enda hans. Við yrðum að fikra okkur inn ganginn að hurðinni, vona að hún væri opin og að handan hennar leyndist ekkert hræðilegt.

„Sóley, ég er hræddur,“ hvíslaði Ari og greip fast í höndina á mér.

„Þetta er allt í lagi,“ hvíslaði ég til baka. „Við skulum athuga hvort við komumst ekki út um hurðina þarna við endann á ganginum. Haltu fast í höndina á mér og löbbum bara hægt og rólega yfir að hurðinni, ókei?“ sagði ég og reyndi að láta Ara ekki heyra hvað ég sjálf var orðin smeyk.

„Allt í lagi,“ sagði Ari og ég heyrði að hann var mjög nálægt því að fara að gráta. Af hverju í ósköpunum hafði ég farið að drösla honum með mér inn um þessar dyr? Við hefðum átt að taka sénsinn og halda út í óvissuna og ná þá mögulega að sækja hjálp en það var víst orðið of seint að hugsa um það. Nú yrðum við að sjá hvað beið okkar.

Við gengum varlega af stað út ganginn. Ég stoppaði eftir hvert skref og lagði við hlustir en heyrði ekkert nema bankið í rörunum í loftinu. Það er að segja þangað til við vorum næstum alveg komin að hurðinni sem leit út fyrir að vera mjög rammgerð og þung. Þá fannst mér eins og ég heyrði smá snökt berast í gegnum hurðina. Ég stoppaði aftur og sussaði á Ara greyið sem ríghélt ennþá í höndina á mér.

„Uss, heyrir þú þetta líka?“ hvíslaði ég að honum.

„Nei, ég heyri ekki neitt,“ hvíslaði hann til baka.

Ég hlustaði aftur og heyrði þá ekkert, líklega ímyndunaraflið að spila með mig.

„Við skulum athuga hvort við getum opnað hurðina,“ sagði ég um leið og ég tók varlega í hurðarhúninn. En sama hvað ég reyndi að toga þá gerðist ekkert, dyrnar voru harðlæstar.

Hjartað í mér sökk og ekki í fyrsta skipti þennan örlagaríka dag leið mér eins og allt væri vonlaust. Mér leið eins og heimurinn myndi hrynja á hverri stundu. Ég var handviss um að við yrðum föst þarna inni í marga daga og enginn myndi finna okkur, allavega ekki fyrr en það væri orðið allt of seint og við örugglega dáin úr næringarskorti. Ég var að nálgast örvæntingu og íhugaði að berja af öllum kröftum á hurðina og öskra á hjálp en það var eitthvað sem stoppaði mig. Ég vissi að ef hrottarnir heyrðu til okkar þá væri öll von endanlega úti.

„Sóley, geturðu ekki opnað hurðina? Mig langar í alvörunni heim,“ sagði Ari þá hálf kjökrandi og það kippti mér í smástund úr örvæntingarástandinu.

Ég varð að reyna að halda ró minni og hugsa skýrt því Ari mátti alls ekki finna að ég væri að fara á taugum, þá myndi hann líklegast fríka út. Rökrétt hugsun var líka sennilega eini möguleikinn okkar á að finna leið út úr þessari stöðu sem við vorum komin í. Ókei, fyrsta skref: Anda rólega. Annað skref: Róa Ara. Þriðja skref: Hugsa hvað í ósköpunum við gætum gert til að losna út af þessum gangi án þess að framkalla of mikinn hávaða þannig að þeir sem voru uppi heyrðu í okkur. Þegar ég var búin að ná stjórn á andardrættinum fór ég beint yfir í annað skref.

„Ari, við skulum setjast og hvíla okkur smá. Ég þarf bara aðeins að hugsa hvernig best er að opna hurðina og svo höldum við áfram. Mig langar að leggja fyrir þig smá þraut á meðan við bíðum?“ spurði ég og reyndi mitt besta til að hljóma glaðlega.

„Hvernig þraut?“ sagði hann, enn með grátstafinn í kverkunum.

„Þú átt að hugsa upp öll dýr sem þú þekkir og byrja á stafnum s. Heldurðu að þú getir gert það?“

„Já, auðvitað,“ sagði hann og ég heyrði að það lifnaði strax aðeins yfir honum. Hann elskaði svona verkefni og nú fengi ég smá næði til að hugsa.

Það var motta á gólfinu við dyrnar og við settumst á hana. Ari var strax farinn að leysa verkefnið og ég heyrði hann muldra í hálfum hljóðum hinar ýmsu dýrategundir. Ég setti heilann á yfirsnúning, nú varð ég að ná að einbeita mér. Það var alveg ljóst að við myndum aldrei ná að brjótast í gegnum hurðina með því að nota kraftana en var einhver leið til að hugsa sig í gegn? Ég hugsaði svo stíft að ef það hefði verið ljós á ganginum hefði líklega sést reykur stíga upp frá hausnum á mér. Bankið í rörunum var líka alveg hætt að trufla mig, svo niðursokkin var ég.

Stóra vandamálið var samt að það var ekkert á þessum gangi sem gæti komið okkur að gagni, hann var alveg tómur. Ef við hefðum haft einhver verkfæri, skrúfjárn eða eitthvað þá hefði kannski verið einhver möguleiki. Því meira sem ég hugsaði, því líklegra fannst mér að niðurstaðan yrði bara að öskra af öllum lífs- og sálarkröftum og taka því sem að höndum bæri þegar mennirnir sæktu okkur. Líklega yrðum við lokuð einhvers staðar inni með hinum krökkunum eða hreinlega bara látin dúsa áfram í þessari prísund sem við vorum nú þegar föst í. Ég fann vonleysið hellast yfir mig aftur þó ég gerði allt til að berjast á móti því.

„Viltu heyra dýrin sem ég er búinn að finna Sóley?“ hvíslaði Ari skyndilega og ég hrökk upp úr hugsunum mínum.

„Já, endilega,“ sagði ég og reyndi að hljóma svakalega spennt.

„Selur, svanur, sæljón eins og við sáum á Spáni í fyrra, snákur, skjaldbaka, sæhestur, snæugla og sporðdreki sem er dálítið ógeðslegur. Getum við samt farið að koma núna?“ spurði hann og var farinn að ókyrrast.

„Já, ég þarf bara að hugsa aðeins meira. Þetta var mjög flott hjá þér, heldurðu að þú getir fundið einhver fleiri dýr?“

„Ég nenni ekki að finna fleiri. Förum bara út núna,“ sagði hann og ég heyrði að það var stutt í að hann byrjaði að kjökra aftur.

„Æ, ég veit bara ekki alveg hvernig við eigum að opna hurðina en hafðu ekki áhyggjur, við finnum örugglega einhverja leið,“ sagði ég og reyndi að láta hann ekki heyra að ég væri við það að missa alla von um að sleppa út.

„Af hverju opnum við ekki bara með lykli?“ sagði hann þá.

Skyndilega var eins og eldingu hefði lostið niður í hausinn á mér. Lykill! Kannski var aukalykill þarna einhvers staðar, svona eins og menn geyma oft úti undir blómapottum eða einhverju. En hvar gæti hann verið hér? Ég leit í kringum mig og sá engan stað sem kom til greina. Ef það var aukalykill geymdur einhvers staðar þá var það líklega fyrir utan ytri dyrnar. Um leið og ég færði mig til að standa á fætur og leita af mér allan grun þá strukust buxurnar mínar við mottuna. Mottan, auðvitað!

Ég spratt á fætur og bað Ara um að færa sig, lyfti mottunni og viti menn, þarna lá gamall og ryðgaður lykill.

„Ari, þú ert snillingur,“ sagði ég og kyssti hann á ennið.

„Er þetta lykillinn að hurðinni?“ spurði Ari og ég heyrði von í litlu röddinni.

„Ég vona það,“ svaraði ég um leið og ég reyndi að hemja spenninginn því ég átti enn eftir að prófa hvort hann passaði.

Ég tók lykilinn upp og stakk honum í skráargatið. Það var stíft að stinga honum í gatið, líklega vegna ryðsins, en mér fannst eins og hann passaði. Við héldum niðri í okkur andanum um leið og ég sneri lyklinum og viti menn, það heyrðist lágur smellur og lásinn opnaðist. Ég opnaði hurðina ofurvarlega og gægðist inn í næsta herbergi. Við mér blasti ótrúleg sjón, svo ótrúleg að ég þurfti að blikka tvisvar til að vera viss um að ég væri ekki að sjá ofsjónir.

 

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...