Játningar af ljóðaótta

Jónas Hallgrímsson talar ekki beint inn í hjarta nútímabarns með ljóðum sínum og kvæðum.

Ég man eftir að hafa lesið ljóð í skóla; vísur eftir þjóðskáldin um íslenska náttúru, hugrekki og buxur, vesti, brók og skó. Mér fannst þetta ekki skemmtilegt. Í raun fannst mér þetta mjög leiðinlegt. Ég komst í gegnum íslenskuprófin með því að söngla vísurnar í hálfu hljóði fyrir kennarann við kennaraborðið, því mér var það lífsins ómögulegt að leggja þær á minnið án söngsins (þau ljóð sem ekki áttu lag fengu frumsamið lag frá mér). Ég ákvað skömmu eftir grunnskólagönguna að ljóð væru ekki mitt forte, þau væru leiðinleg og þau skyldi ég ekki lesa framar. Það hjálpaði ekki heldur að í framhaldsskóla fékk ég íslenskukennara sem tautaði ljóðin í hálfum hljóðum og flissaði með sjálfum sér (ekki mjög smart þegar maður er að deyja úr kúlheitum sjálfur).

En að taka ákvörðunin um að líka ekki við ljóð var ekki léttvæg á þessum árum. Ákvarðanir á unglingsárum voru meitlaðar í stein! Maður vék ekki frá gildum sínum – sama hvað. Aldrei! Þess vegna las ég ekki ljóð. Skyldi aldrei gera það! Og þessi einarða þrjóska leiddi til ótta. Því að sjálfsögðu lærði ég þá ekki almennilega að lesa ljóð, skilja þau, hvað þá skrifa þau.

Eflaust eru margir þrjóskuhundar eins og ég þarna úti. Fólk sem hefur ákveðið á einhverjum tímapunkti að líka ekki við ljóð og aldrei gefið þeim almennilegt tækifæri.

Ljóð hafa á sér það orð að vera flókin og sumir ganga svo langt að kalla þau tilgerðarlegt menntasnobb og yfirborðskenndan orðaflaum. Eflaust eru sum ljóð það, en alls ekki öll. Sum ljóð eru torræð – eins og góð krossgáta. Hvert orð hefur vægi. Hver lína er mikilvæg. Hvert einasta ósagða orð segir stundum meira en orðin á blaðinu.

Smáa letrið eftir Lindu Vilhjálmsdóttur er bæði viðkvæm og sterk í senn og kenndi mér kraft ljóðanna.

Ég var full af ljóðaótta og forðaðist að lesa ljóð. Þannig virkar nefnilega ljóðaóttinn. Svo fussaði ég við hvern sem heyra vildi að nei, ég læsi sko ekki ljóð. Þau væru bara kjánaleg! Innst inni vissi ég samt að þetta væri bara minn eigin ljóðaótti sem væri að tala. Óttinn talaði niður ljóðin, ekki ég. Ég var bara málpípa hræðslunnar.

En svo sleppti óttanum einn daginn. Ef til vill má þar þakka fyrir þroska og fleiri árum. Þrjóskan hætti að keyra mig áfram og ég las ljóðabók. Las hana eiginlega óvart – ætlaði ekkert að lesa hana alla. Rak augun í hana í bókabúð og las hana alla standandi í búðinni. Ég keypti hana (Smáa letrið eftir Lindu Vilhjálmsdóttur). Las hana svo aftur heima. Þetta var viss uppgötvun fyrir manneskju sem hafði lengi útilokað ljóðabækur, að finna út að ljóð eru ekki bara ættjarðar og landslagsljóð. En þannig getur fáfræðin verið og batnandi mönnum er best að lifa, er sagt.

Ljóð Sverris Norland eru innileg, einföld og flókin og hrikalega skemmtileg. Þau sökktu mér dýpra í ljóðheima.

Ljóðin eru nefnilega alls konar. Þú þarft bara að finna rétta gerð af ljóðum, ljóðskáld sem talar til þín, það sem þú fílar. Ég komst til dæmis að því að það er mun auðveldara að lesa ljóð þar sem ljóðmælandinn á eitthvað sameiginlegt með mér. Eða skrifar um hluti sem ég hef upplifað. Þannig eigum við ljóðmælandi í samtali, flissum saman að einhverju spaugilegu sem bara við vitum hvað er (og skyndilega skil ég gamla íslenskukennarann minn!). Tungumálið fær að mínu mati hvergi að njóta sín eins vel og í góðu ljóði. Til dæmis þegar eitt lúmskt orð breytir merkingu alls ljóðsins og umturnar öllu.

Það besta við ljóðin er að þau eru stutt. Ljóðabækur eru flestar stuttar (nema risastóru ljóðasöfnin) og það er til ógrynni af góðum íslenskum ljóðskáldum og frábærum þýðingum. Það er alltaf hægt að auðga huga og anda með því að glugga í eina ljóðabók og lesa eitt ljóð. Það tekur ekki langan tíma, skilur mikið eftir sig og þú hefur lesið eitthvað (því þú ætlaðir alltaf að lesa meira, er það ekki?).

 

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...