„Æi, ég er ekki nógu dugleg að lesa lengur.“ Þetta er setning sem virðist stöðugt óma í kringum mig, eða er það kannski ég sem er alltaf að hugsa þetta með sjálfri mér? Kannast lesendur við þessa tilfinningu, sektarkennd yfir ónógum lestri? Sem er þó eitthvað svo öfugsnúin tilfinning, að skammast sín fyrir að gera ekki nóg af einhverju sem manni þykir ánægjulegt. Svolítið eins og að ganga um dæsandi yfir því að hafa ekki borðað nógu mikið belgískt súkkulaði í vikunni.

En þessi orðræða er einhvern veginn út um allt, við vitum að við eyðum of miklum tíma í að skrolla á netinu og of litlum með nefið ofan í bók. Við vitum ósköp vel að allt skrollið er ekki gott fyrir okkur, og svo koma auðvitað áhyggjurnar af læsi barna og unglinga og framtíð íslenskunnar og allur sá hausverkur. Það eru svo mörg atriði í nútímanum og nánustu framtíð sem valda óvissu og óöryggi, sem gerir okkar prívat og persónulega áfellisdóm: „ég er ekki nógu dugleg að lesa“ bæði þungbæran og kvíðvænlegan. Lestur er ekki lengur belgískt súkkulaði, heldur líkamsrækt. Eitthvað sem við vitum að er okkur hollt og verður alls ekki svo slæmt þegar við byrjum, nema bara við nennum ekki. Nema með herkjum og átökum. Eða þá eins og tiltekt. (Ég veit alveg að mér mun líða miklu betur heima hjá mér ef það er ekki allt á kafi í drasli. Samt fresta ég hverri tiltekt svo lengi að ég hef á endanum engst yfir tilhugsuninni jafn lengi og það hefði tekið mig að þrífa bara smávegis.)

Málið er bara að bækur eiga þetta alls ekki skilið. Lestur á að vera ástæða þess að maður svíkst um að fara á æfingu og hunsar rykhnoðrana í hornunum, ekki vera neðst á listanum yfir skynsamlega hluti sem maður nennir ekki að gera. Hvernig gerðist þetta eiginlega? Ef til vill liggur rót vandans í orðspori lesturs sem gáfulegrar iðju. Flest finnum við það strax að lestur hefur jákvæð áhrif á hugann, og ekki bætir úr skák að það er alltaf verið að gera einhverjar rannsóknir sem sanna hið sama og útlista hvernig lestur hefur þroskandi áhrif á alls konar hluti, allt frá samkennd til rökhugsunar.

Ég held að við verðum stundum bara að hrista þetta af okkur og muna það að lestur er líka óttalegur kjánaskapur. Mjög margar bækur eru jú blátt áfram heimskulegar. Í bókmenntum er alveg sama breiddin frá slæmu efni yfir í gott og í til dæmis sjónvarpi. En ekki göngum við um með sútarsvip af því að „æ, ég er ekki nógu dugleg að horfa á sjónvarpið.“ Kannski er bara kominn tími til að við förum aftur að nöldra í lesandi fólki um að ekki verði nú bókvitið í askana látið? (Af því að, án djóks, það verður ekki í askana látið. Ég bý yfir feiknarlega miklu bókviti, og þó mig hafi nú sem betur fer aldrei skort mat eða brýnustu nauðsynjar, þá get ég ekki heldur sagt að ég hafi þénað mikið á öllum mínum bóklærdómi um ævina.)

Ég þekki þá tilfinningu að vera örþreytt, bæði andlega og líkamlega (og járnskortslega). Þá er það síðasta sem mig langar að gera að opna bók. Af því að bók kallar á einbeitingu, samlíðan og hluttekningu með einhverjum ímynduðum sögupersónum, sem yfirleitt gera ekki annað en koma sér í vandræði og erfiðar aðstæður. En bókin er samt athvarf. Þegar okkur líður svona, þá þurfum við bara að finna réttu bókina. Kannski er það Rauða serían. Kannski er það eldgömul spennusaga eftir Hammond Innes. Kannski er það Enid Blyton. Undir þessum kringumstæðum leita ég oft í bækur sem ég hef lesið áður, eða seríur þar sem ég veit við hverju er að búast af hverri bók.

Auðvitað er ekkert af þessu nógu gott fyrir innri röddina sem er alltaf að segja mér að ég sé ekki nógu dugleg. Til að geðjast henni þyrfti ég að lesa eitthvað vandað, ferskt og krefjandi. En þá þarf bara að slökkva á henni, því hún er ekki að hjálpa neinum. Við eigum letilesturinn skilið og hann hjálpar okkur. Því eftir að hafa lesið sjöundu bókina í klisjukenndu spennusagnaröðinni, þá erum við ekki lengur þreytt. Okkur er farið að leiðast. Og við viljum lesa eitthvað nýtt.

Lestu þetta næst

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...

Ógöngurnar í göngunum

Ógöngurnar í göngunum

Í byrjun febrúar frumsýndi leikhópurinn Verkfræðingarnir leikverkið Vaðlaheiðargöng á Nýja sviði...