Bókarökræður – hin hliðin af bókalestrinum.

Hluti af leshópnum Köttur út í mýri.

Lestur bóka er einstök upplifun, getur verið góð eða slæm eða hreinlega tómleg. Sumar bækur eru þannig að lestur þeirra er einfaldlega ekki nóg. Fyrir mörgum árum kynntist ég hinni hliðinni á lestri bóka. Þá var mér boðið í leshóp. Ég bjó þá á þeim undursamlega stað Eyrarbakka en þar kúrir meðal annars eina konubókasafn okkar Íslendinga. Bókasafn með eingöngu bókum eftir íslenskar konur. Hversu frábært er það eiginlega? Þó ég hafi ekki ætlað að skrifa um Konubókastofu í þessum pistli þá tengist konubókasafnið þessu óbeint þar sem forstöðukonan og stofnandinn, Anna Jónsdóttir, bauð mér í leshóp. Það var þá sem ég kynntist hinni hliðinni á lestri bóka sem síðan þá hefur verið hin hliðin á sama peningnum. Síðan eru liðin mörg ár og ég komin í nýjan leshóp, í öðru sjávarplássi í öðrum landsfjórðungi. En það er nú önnur saga.

Við erum alls fimmtán í leshópnum Köttur út í mýri. Við hittumst einu sinni í mánuði á kaffihúsi, ræðum bókina sem var lesin og ákveðum næstu bók. Bækurnar skiptumst við á að velja. Eina reglan er að við lesum ekki ævisögur.

Þegar maður hefur einu sinni komist upp á lag með að hitta einhvern sem hefur lesið sömu bókina og ræða hana í þaula er ekki aftur snúið. Bækurnar fara að ólga innan í manni, þær reyna að brjóta sér leið út og stundum er erfitt að bíða fram að fundi ef maður rekst á meðlim hópsins á kassa í Kaupfélaginu.

Stundum les ég bók sem er ekki valin í hópnum en hún ólgar og suðar í brjóstinu og þráir umræðuna og hinn stóra dóm svo að á endanum fæ ég einhvern til að lesa svo hún fái útrás og nái að sigla sinn sjó.

Farandgripur sem gefinn var grunnskóla Grundarfjarðar til afhendingar á hverju ári þeim bekk sem skarar framúr í lestri.

Sumum bókum getum við í hópum ekki gleymt, sumar bækur eru gleymdar áður en þær eru lesnar. En þær bestu eiga það flestar sameiginlegt að þær hefðu ekki verið valdar af lesandanum ef einhver annar hefði ekki valið þær fyrir hann. Með þessu á ég við að þær bækur sem sitja mest í mér eru þær bækur sem ég hefði fúlsað við að taka á bókasafninu.  Að vera í leshóp með góðu fólki er ótrúlega gefandi og skemmtilegt. Og við sem erum þessi hópur, Köttur út í mýri, við höfum margt til málanna að leggja í okkar nærumhverfi. Við stöndum að bókamarkaði á sumrin, eflum lestrarátök barnanna í plássinu, erum með jólabókakynningar í desember og troðum bókum að,  hvar sem við getum.  Og okkar er litla bókasafnið sem kúrir á ljósastaurnum í þorpinu. Það er skráð á alheimskort Little free library. Pínulítill depill, staðsettur í Grundarfirði, Íslandi á hinu stóra alheimskorti.

 

 

Leshópar er magnað fyrirbæri.   Á tæpum fjórum árum höfum við lesið tæplega 40 bækur. Ég bað meðlimi hópsins og nefna þær bækur sem stóðu upp úr á þessum árum:

Hið heilaga orð eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur (sú sem fékk flest atkvæði í vinsældakosningunni)

Heimsins besti bæreftir Arto Paasilinna

Hestvík eftir Gerði Kristnýju

Homo Sapina eftir Niviaq Korneliussen

Falsarinn eftir Björn Th. Björnsson

Hús tveggja fjölskyldna eftir Lynda Cohen Loigman

Vatn handa fílum eftir Söru Gruen

Lolita eftir Vladimir Nabokov (sú sem olli mesta fjaðrafokinu).

Einnig verð ég að nefna Elínu, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur sem að mínu mati fékk athyglisverðustu umræðuna í hópnum.

Gangið í leshóp og ef enginn slíkur er í kringum ykkur, stofnið einn slíkan. Það gerði ég og sé svo sannarlega ekki eftir því.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...