Æðisleg kynning á bestu höfundum álfunnar

Við hjá Lestrarklefanum fögnum fjölbreytileikanum í bókmenntum og vorum því spennt þegar Bjartur fór að hefja útgáfu á ritröðinni Smásögur heimsins. Áætlun ritraðarinnar er að kynna úrval smásagna frá öllum heimsálfum fyrir Íslendingum.

Bindin eru fimm talsins: Norður-Ameríka, Rómanska-Ameríka, Asía, Eyjaálfa, Afríka og Evrópa og hóf ég á dögunum lestur á bindinu Afríku.

Eftir að hafa lengi nánast eingöngu lesið íslensk, bandarísk og bresk skáldverk hef ég reynt á seinni árum að lesa skáldverk frá fjölbreyttari löndum. Þegar kemur að afrískum rithöfundum hef ég lesið verk eftir nígeríska höfunda og fjallað um verk þeirra á Lestrarklefanum, t.d. Americanah eftir Chimamanda Ngozi Adichie og Systir mín, raðmorðinginn eftir Oyinkan Braithwaite, en lítið kynnst höfundum frá öðrum löndum í álfunni. Þetta bindi í ritröðinni inniheldur einmitt sögu eftir Adichie auk 18 annarra sagna eftir höfunda frá næstum jafn mörgum löndum.

Bókin er vel uppbyggð, hún hefst með formálum um ritröðina og um bindið og svo fylgja sögurnar en fyrir framan hverja sögu er stutt æviágrip höfundar og upplýsingar sem varpa frekara ljósi á efnistökin. Sögurnar eru í styttri kantinum, um 20 blaðsíður eða styttri, og því er þægilegt að grípa í eina og eina sögu. Þær fjalla um ólík efni allt frá forboðnum ástum til upplifunar af fjölkvæni.

Ég er ennþá að lesa mig í gegnum safnið en bókin er nú þegar búin að kynna mig fyrir fjölda framúrskarandi smásagnahöfunda frá álfunni sem ég hefði líklega ekki annars komist í kynni við; það er jafnt af sögum eftir þekkta smásagnahöfunda 20. aldar sem og minna þekkta höfunda. Mér þótti sagan eftir Sembène frá Senegal Dagarnir hennar þrír einstaklega áhrifamikil en hún segir frá konu sem deilir eiginmanni sínum með þremur öðrum konum og bíður í eftirvæntingu eftir honum til að þau geti átt “sína” þrjá daga saman.

Eins og ég hef nefnt hér áður geta góðar smásögur verið gullri betri: stundum situr meira eftir í manni eftir lestur á einni smásögu en eftir heila skáldsögu. Ég hlakka því til að lesa mig í gegnum restina af smásagnasafninu og komast svo í tæri við fleiri bækur úr seríunni!

 

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...