Rithornið: Ljóð að yfirlögðu ráði

IKEA (eða hugmyndir mínar um framhaldslíf)

ávextirnir í skálinni eru

úr frauðplasti

bækurnar í hillunum innantómir

kilir

tunglið á glugganum er klukka

útskorin úr sænskum rekavið –

 

hún tifar hærra en þotuhreyfill við

flugtak

 

sverð demóklesar sveiflast yfir

svefnsófanum

og samtímis í speglum á öllum

veggjum

 

(þeir stækka rýmið sjáðu til

gera það

óendanlegt)

 

ótrúlegt hve margir grafreitir

rúmast

á ekki fleiri fermetrum

 

[hr gap=”30″]

 

Kæruleysi

Áður en ballið var búið lágu tugir í valnum. Ótal aðrir voru sárir og byggingin var talin svo gott sem ónýt. Í þvögunni sem myndaðist hafði ýmislegt misjafnt átt sér stað. Menn höfðu farið frjálslega með staðreyndir, konur höfðu troðið börn sín undir, vímuefni verið höfð nokkuð frjálslega við höndina, nauðsynjavörur orðið ófáanlegar og gengið kaupum og sölum fyrir svimandi upphæðir á svartamarkaðnum, vafasamir menn höfðu ratað í valdastöður og framið glæpi svo hrikalega að þeir verða aldrei tilgreindir á prenti; feður höfðu seld dætur sínar í kynlífsþrælkun til hæstbjóðanda, ótal börn höfðu fæðst utan hjónabands, og lá grunur fyrir um að sum þeirra væru afsprengi sifjaspells. Þetta var bölvað kæruleysi sem olli, sagði yfirmaður rannsóknardeildar síðar á fréttamannafundi. Bölvað kæruleysi, en það var aldrei gefin út nein kæra.

 

[hr gap=”30″]

 

Ægir Þór (1988) er menntaður í heimspeki, sagnfræði og ritlist. Hann hefur gefið út sex ljóðabækur, ásamt því að birta ljóð, ljóðþýðingar og smásögur í Stínu, Ós pressunni, Skandala (sem hann ritstýrir) og Tímariti Máls & menningar. Í apríl kemur hún hans sjöunda bók, Ljóð að yfirlögðu ráði, en þar má finna eftirfarandi ljóð.

 

Lestu þetta næst

Að rækta garðinn sinn

Að rækta garðinn sinn

Nýverið kom út íslensk þýðing Kristínar Jónsdóttur á skáldsögunni Vatn á blómin eftir franska...

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...