Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson var ein af fyrstu bókum skrifuð af Íslendingi í samtimanum sem fjallaði um morðmál. Bókin hefur því stundum verið kölluð fyrsta íslenska glæpasagan. Sögusvið bókarinnar er eitt af þekktustu morðmálum Íslandssögunnar, Sjöundármorðin, kennd við samnefndan bæ á Rauðasandi á Vestjörðum sem áttu sér stað í upphafi 19. aldar.

Íslenskt samfélag á 19. öld

Bókin hefst á því að Eyjólfur Kolbeinsson kapellán (eins konar aðstoðarprestur) við Saurbæjarkirkju í Rauðasandssókn rifjar upp atburði frá því fimmtán árum áður þegar hann komst fyrst í kynni við Bjarna Bjarnason sem bjó á Sjöundá. Atburðirnar fylgja að mestu leyti sögu þeirra Bjarna og Steinunnar Sveinsdóttur eins og hún birtist í heimildum, að því er fram kemur í formála bókarinnar. Bjarni bjó á Sjöundá ásamt Guðrúnu Egilsdóttur konu sinni og börnum þeirra en Steinunn og Jón Þorgrímsson , maður hennar, leigðu hluta jarðarinnar. Árið 1802 létust bæði Guðrún og Jón. Hún lést að því er talið var úr langvarandi veikindum en hann hvarf og talið var að hann hafði farið sér að voða. Fljótlega fóru grunsemdir að vakna um að Bjarni og Steinunn hefðu fellt hugi saman og loks myrt maka sína. Þau játaðu það síðar fyrir rétti og voru dæmd til dauða. Svartfugl er því frábrugðin hefðbundnum glæpasögum sem snúast um það að ljóstra upp hver framdi glæpinn. Hún snýst frekar um persónurnar, aðstæðurnar og að draga upp samfélagsmynd af íslensku samfélagi í upphafi 19. aldar.
Sem mikil áhugamanneskja um glæpasögur sem þekkir vel til á söguslóðum lá það beint við að lesa þetta merkilega skáldverk. Þetta er fyrsta bókin sem ég les eftir Gunnar Gunnarsson, eitt frægasta skáld Íslands sem tilnefndur var fjórum sinnum til Nóbelsverðlauna. Það sem sat helst eftir í mér varðandi ritstíl hans var það hve bókin var skrifuð á einstaklega fallegu máli. Það merkilega varðandi skáldverk Gunnars er að hann skrifaði á dönsku; Gunnar var fæddur á Íslandi en fluttist til Danmerkur 18 ára gamall og hóf ritferil sinn þar. Hann varð metsöluhöfundur í Danmörku þar sem hann gaf út bækur á dönsku. Þannig kom Svartfugl fyrst út í Danmörku á dönsku árið 1929, hún var síðar þýdd á íslensku af Magnúsi Ásgeirssyni árið 1938 en loks kom hún út í þýðingu höfundar árið 1971. Bókin sem ég las kom út árið 2009 og styðst við íslenskan texta Gunnars .

Heilt yfir þótti mér bókin vera  gott skáldverk.

Sú staðreynd að bók sem var skrifuð á þriðja áratug síðustu aldar um atburði sem gerðust rúmum hundrað árum fyrr sé ennþá auðlesin er mikið afrek.

Stórverk íslenskra glæpasagna

Textinn er nútímalegur fyrir sinn útgáfutíma og nálgast rithöfundurinn viðfangsefnið á klókan hátt með því að nýta sér Eyjólf sem var raunveruleg persóna frá þessum slóðum sem sögumann. Ég tek undir það sem kemur fram í afar fróðlegum formála bókarinnar að “dramatísk saga og harmrænir atburðir ein og sér sé engin trygging fyrir því að skáldsaga sé vel heppnuð. Það geti ekki hver sem er tekið stórbrotna örlagasögu eins og sögu Steinunnar og Bjarna og gert úr magnað skáldverk,” (bls. 15-16); Gunnar var einstakur penni sem tekst að skapa magnaða stemningu og persónulýsingar og jafnvel samúð fyrir morðingjunum. Sem nútímalesandi er mín helsta gagnrýni á bókina að mér þóttu kaflarnir um réttarhöldin verða heldur langdregnir. Langur hluti bókarinnar fjallar um réttarhöldin og er Eyjólfur þar í lykilhlutverki að tala við bæði Bjarna og Steinunni og að reyna að varpa ljósi hvað hafi raunverulega gerst. Mér þótti þessi hluti bókarinnar síðri en hinir en gæti það stafað af litlum áhuga mínum á frásögnum úr réttarhöldum og því ekki víst að þetta gildi um alla lesendur. Rithöfundi tekst engu að síður að koma fyrir bæði kímni í þessum köflum, sem og sorg, yfir þessum hræðilegu atburðum og stendur sá hluti réttarhaldanna þegar morðingjarnir koma fyrir upp úr meðal bestu hluta bókarinnar. Ef eitthvað er hefði ég viljað fá lengri eftirmála í bókina.

Svartfugl er hiklaust ein af stórverkum íslenskra glæpasagna sem vert er að kynna sér. Fyrir þá sem sjaldan lesa sögulegar skáldsögur býður bókin upp á tækifæri til að lesa um veruleika fólks á Íslandi á nítjándu öld á afar aðgengilegan hátt.

 

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...