Laugardagskvöld og ég fer á leiksýningu í þjóðleikhúsinu, hádegi á sunnudegi og ég er aftur stödd á leiksýningu. Tveir dagar í röð!  Þetta hlýtur að teljast met. Í þetta skiptið í Þjóðleikhúsi Englands, klædd í joggingbuxur, sloppinn minn og svona mjúka sokka úr gerviefni með upphitaða mini-pítsu á diski. 

Leikhústöfrarnir

Það er eitthvað virkilega sérstakt við það að fara út úr húsi og eiga bókað sæti í leikhús. Það er tilhlökkun og ákveðin spenna við að sjá eitthvað verða til fyrir augum manns. Listræn tjáning, aldrei eins í hvert skipti. Að heyra aðra hlæja með sér. Að  verða fyrir uppljómun eða finna fyrir spenning í kór. Það er ákveðin stemming. Og þá á ég ekki bara við einhver snobb stemming við að klæða sig upp og þykjast vera rosa menningarlegur. Meira svona, það er allt lifandi. 

Upprunalega planið mitt með komu minn á Lestrarklefann var einmitt þetta, að miðla töfrum leikhússins. Fá jafnvel frítt á sýningar í leiðinni. Ég elska leikhús. En þessi sníkjudýraplön mín snarbreyttust með ástandinu. Samkomubann skall á og skyndilega þurfti að loka öllu. Breyta áherslum, finna nýjar leiðir til miðlunar. Í raun þurfti samt ekkert að finna nýjar leiðir heldur bara nýta enn frekar þessar sem við höfum nú þegar þróað. 

Í hjarta Hróa Hattar, betri á sviði eða í streymi?

Leikhús út um allan heim, þar á meðal tvö af okkar stærstu íslensku leikhúsum, eru núna að bjóða upp á alls kyns streymi af list og sýningum fyrir hvern sem er til að njóta heima við. Í þessu felast mjög margir kostir. Þeir allra helstu eru þeir að þetta er opið fyrir alla óháð efnahag, streymi af leiksýningum heldur menningarlífinu gangandi á þessum tímum og þetta vekur (vonandi) áframhaldandi áhuga og jafnvel nýjan áhuga á leikhúsinu fyrir framtíðina. 

Á laugardagskvöldi horfði ég á Í hjarta Hróa Hattar, sýningu þjóðleikhússins og Vesturport frá árinu 2015 sem ég hafði reyndar séð einnig á sviði á sínum tíma. Það var gaman að gera samanburðinn á því að upplifa sýningu á sviði og síðan horfa á hana í sjónvarpinu. Að horfa á hana heima hafði vissulega þann kost að geta flatmagað að vild í sófanum og komið mér eins þæginlega fyrir og mér var unnt. Hinsvegar er það hollt fyrir hvern mann að njóta afþreyingar einnig með öðrum og skikkanlega uppréttur svona endrum og eins. En við tölum ekki um það. Núna skal einbeita sér að því að njóta heima án samviskubits. Ég elska nánast allt sem Vesturport gerir, sérstaklega á sviði leikhúsa. Allar sýningar sem ég hef farið á með þessum leikhóp eru virkilega vel gerðar og ég hef oftast farið út úr leikhúsinu gapandi. Það hvernig þau nýta sviðið er eitt af einkennismerkjum þeirra. Þá meina ég alveg allt sviðið upp og niður. Úr lofti og frá hliðum. Þau hafa jafnvel nýtt sér svæðið fyrir ofan áhorfendur, bara svona því afhverju ekki? Í hjarta Hróa Hattar er mjög lágstemmd miðað við þeirra venjulegu uppfærslur en mjög falleg og skemmtileg. Nýtt tvist á annars sígilda sögu. Sigurður Þór í hlutverki Jóhanns prins stóð upp úr að mínu mati, þessi illi taugaveiklaði hlátur er bara of góður. Tónlist Sölku Sólar gerir síðan virkilega mikið fyrir heildarverkið.

Einmanalegt hláturskast

Ég sá síðan á netinu, einhver síða eða auglýsing að gauka að mér að National Theater í London sé með leiksýningar á Youtube rás sinni. Það sem vakti mesta athygli mína við það var að þau eru með upptöku af One Man, Two Guvnors. Áhugi minn á þessari sýningu er aðallega vegna mannsins sem leikur aðalhlutverkið, James Corden. Ég ákvað því að koma mér virkilega vel fyrir og vera algjör haugur og klessa upp í sófa á sunnudegi, í samkomubanni og  vondu veðri og njóta. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum.

Ég vissi í raun ekkert um hvað sýningin fjallaði, en ég vil benda á að oft er bara betra að vita sem minnst áður en maður fer á leiksýningar eða í kvikmyndahús. Þetta er farsi og virkilega góður farsi, hann ýtir alveg á það að vera oft óviðeigandi og óþæginlegur. Sem er einmitt það sem góður farsi á að gera að mínu mati Ég lá í hláturskasti heima hjá mér. Með öðrum orðum, ég skemmti mér vel. Eina sem ég get sett út á það er að ég var ein í þessu hláturskasti. Maður uppgötvar það hvað það er virkilega gott að hlæja með öðrum í kór. En ef ykkur vantar hlé frá Netflix, þið eruð búin með Tiger King seríuna og vantar smá hláturskast í lífið þá mæli ég innilega með James Corden í þessum farsa en hann fékk einmitt Tony verðlaunin fyrir hlutverk sitt í þessu verki. Kannski ekki að undra enda er svo svakalega orka í þessum manni að hún var áþreifanleg í gegnum skjáinn og heim.

Endalaust úrval

Það er í raun mjög margt í boði núna. Svona áminning fyrir þá sem hafa  búið í helli (við öll samt) og einhverra hluta vegna ekki tekið eftir því. Flest fyrirtæki og stofnanir keppast við að bjóða upp á eitthvað í þessu vertu-heima- ástandi. Ég meina, við elskum alveg að vera heima og gera ekki neitt, en þegar einhver segir okkur að gera það?? Ó nei takk!!

Þjóðleikhúsið býður upp á alls kyns spennandi dagskrá fyrir alla aldurshópa. Leikhúsveislu í stofunni hverja helgi í samstafi við RÚV,  Ljóð fyrir þjóð þar sem leikarar skiptast á að flytja ljóð til þín á einlægan hátt,  skemmtiþáttinn Stúdíó Kristall og Einleikarinn.

Borgarleikhúsið er í beinu streymi frá Youtube rás sinni og visir.is en þar er allur skarinn af efni í boði. Leikhúsið hefur meðal annars boðið upp á tónleika, leikara í Dungeons and Dragons, leiksýningar fyrir börn og fullorðna, listamannaspjall og upptökur á bak við tjöldin. 

Ég vil einnig minnast á tónleikahúsið Hörpu og tónleikaröð þeirra Heima í Hörpu sem er alltaf í beinu streymi klukkan 11:00 á hverjum degi. Einnig er hægt að nálgast tónleikana á Youtube síðu Hörpu. Þar vinna saman Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslenska Óperan og Harpa við að færa ljúfa tóna heim í stofu. 

Ég hef nú þegar talað um Þjóðleikhúsið  í London, en hægt er að nálgast margar sýningar þeirra á Youtube síðu þeirra, en ný sýning kemur á hverjum fimmtudegi. Nú má meðal annars horfa á Jane Eyre og One Man, Two Guvnors. 

Hverfum ekki á bak við skjáinn

Mörg leikhús og menningarstofnanir biðja um styrk á þessum tímum vegna ástandsins, önnur biðja einstaklinga um að muna eftir sér þegar þessu yfir lýkur.  Vilja minna á sig. Margir óttast að þessir tímar breyti því hvernig við neytum afþreyingar til frambúðar. Að við munum hverfa öll á bak við skjáinn og koma aldrei aftur undan honum. Ég veit allavega að ég sjálf hlakka alveg gríðarlega mikið til þegar ég kemst aftur í leikhús, uppáklædd og að hlæja eða hneykslast með ykkur hinum. Á meðan er gott að muna að njóta fjölbreyttrar afþreyingar heima.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...