Broddgöltur með húmor

Ég hef sjaldan beðið með eins mikilli eftirvæntingu eftir ljóðabók eins og ég beið eftir Innræti eftir Arndísi Þórarinsdóttur. Hvers vegna? Jú, við mæðginin höfum skemmt okkur stórvel yfir barnabókunum hennar, Nærbuxnaverksmiðjunni og Nærbuxnanjósnurunum. Ég veit að Arndís hefur frábært vald á tungumálinu, eins og orðaleikirnir í Nærbuxna-bókunum gefa til kynna. Þess vegna var ég spennt að sjá hvað hún hefði fram að færa í ljóðadeildinni. Hún hefur samt áður sannað sig á ljóðavellinum. Arndís hlaut viðurkenningu í samkeppninni um Ljóðstaf Jóns úr Vör árin 2016 og 2019.

Þegar lesandi hefur háleitar hugmyndir um efni bókar, hefur beðið spenntur, þá liggur mikið undir. Það er ótrúlega auðvelt að verða fyrir gríðarlegum vonbrigðum. En til allrar lukku þá brást Arndís mér ekki. Reyndar las ég bókina einu sinni í gegn og byrjaði á henni aftur með það í huga að merkja við ljóðin sem töluðu hvað sterkast til mín, en ég gleymdi mér við endurlesturinn og las hana aftur í gegn. Og svo aftur og aftur.

Móðir talar við móður

Arndís er einlæg í ljóðunum og mér fannst þau bera með sér að á bak við orðin væru ung kona, ung móðir. Fyrir mig var því afskaplega auðvelt að samsvara mig við ljóðin. Það skal þó enginn halda því fram að bókin sé eingöngu fyrir ungar konur, því Arndís fjallar um alls kyns málefni í bókinni. Bókin er full af húmor þótt glitta megi í viðkvæmni og jafnvel ótta inn á milli. Skemmtilegust þóttu mér ljóðin… og nú ætlaði ég að telja upp nokkur ljóð sem mér þótti framúrskarandi skemmtileg en uppgötvaði eftir nokkrar flettingar í bókinni að þau eru of mörg til að geta talið þau upp. Ljóðabókin er öll góð.

Lifrarpylsan

Eitt ljóð talaði þó alveg sérstaklega sterkt til mín og hefur fylgt mér síðustu daga: „Vinnuferð“. Ljóðið byrjar á  því að ljóðmælandi segir frá brjóstamjólkinni í frystinum og frosna bananabrauðinu. Það er máluð upp mynd af hinni kvíðnu móður sem er með brennandi samviskubit yfir að yfirgefa brjóstabarnið. En verður að fara í vinnuferð. Síðustu línur ljóðsins snúa öllu upp í andhverfu sína: „Ég hugsa um brjóstamjólk og bananabrauð / kreppi fingur um sætisarminn / og lofa sjálfri mér / að þetta muni ég aldrei framar gera // Næst þegar ég fer / getur krakkinn drukkið þurrmjólk“. (bls. 48) Allt í einu hrynur móðurleg mýktin og húmorinn fær að taka yfir. Ég hló að minnsta kosti upphátt yfir þessum tveimur síðustu línum.

Hér eftir, þegar ég er að bugast, mun ég eingöngu vitna í Arndísi og ljóðið hennar „Staðan“ og segja: „Það er lifrarpylsa í poka / aftast í ískápnum mínum“ (bls. 42). Í því ljóði nær hún að súmmera upp fáránlegar kröfur sem samfélagið gerir til okkar og hve þreytt við erum öll orðin. „Ég mun sækja þvottinn / ég mun bursta tennur barnanna / og lifrarpylsan mun komast í ruslatunnuna / á endanum // En það er ljóst að þann dag / þarf eitthvað annað / undan að láta“ (bls. 43). Þessu ljóði deildi ég með systur minni.

Það er skemmtilegt að sjá Arndísi nálgast viðfangsefni eins og móðurástina úr öðrum áttum eins og í ljóðinu „Ég tek pláss“, þar sem á sama tíma er ort um það að taka pláss. Það þykir ekki kvenlegt að taka pláss og takirðu pláss eða veldur öðrum angri ber að afsaka það. Ljóðið endar á orðunum: „En þín vegna / er ég þakklát / fyrir  að ég stend álkuleg í gangveginum / í grænmetiskæli stórmarkaðar / þegar ókunnugri konu / liggur á“ (bls. 37)

Ást og húmor

Kápa bókarinnar er mjög vel heppnuð. Kilja með flipum og þegar forsíðuflipanum er flett út sést andlit broddgaltar en broddgöltur leikur einmitt stórt hlutverk í ljóðinu sem birtist á bakhlið bókarinnar (ég hef heldur aldrei séð broddgölt).

Innræti er dásamleg ljóðabók – uppfull af ást, húmor, ótta og smá kvíða. Ég get ómögulega mælt nógsamlega með henni.

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...