Agatha Christie fyrir byrjendur

Agöthu Christie, drottningu glæpasagna, þarf vart að kynna. Hún er ekki bara mest seldi glæpasagnahöfundur allra tíma heldur mest seldi skáldsagnahöfundur allra tíma samkvæmt Heimsmetabók Guinness. Bækur hennar hafa selst í yfir tveimur milljörðum eintaka og talið er að verk hennar séu mest seldu verk í heimi utan verka Shakespeare og Biblíunnar. Flestir glæpasagnahöfundar hafa lesið verk hennar og margir eru undir áhrifum hennar í skrifum sínum. Ragnar Jónasson rithöfundar fékkst til að mynda við þýðingar á verkum hennar áður en hann hóf að skrifa sínar eigin glæpasögur.
Þegar rithöfundur er svona vel þekktur og hefur skilið eftir sig 66 glæpasögur, 14 smásagnasöfn og fjölda leikrita er erfitt að vita hvar maður á að byrja til að kynna sér Christie og verk hennar en þessum pistli er ætlað að aðstoða áhugasama við það. Ég fer ekkert leynt með það að ásamt öðrum meðlimum Lestrarklefans elska ég og dái Agöthu Christie og hennar verk og vonast til að sem flestir haldi áfram að kynnast henni og dásamlegum persónum hennar.

Hver var frú Christie?

Agatha Christie fæddist árið 1890 í Torquay í Devon í suður Englandi. Fjölskyldan hennar lifði við þægilegar aðstæður og átti hún að eigin sögn góða æsku umkringd sterkum kvenfyrirmyndum. Það sem hafði líklega mest áhrif á hana við upphaf glæpasagna ferilsins var að hún starfaði sem hjúkrunarkona í fyrri heimsstyrjöld og lærði þar ýmislegt um eitur sem síðar komu oft fyrir í morðum í bókum hennar. Fyrsta bók hennar The Mysterious Affair at Styles kom út árið 1920 og kom þar fyrir litli, klóki, belgíski rannsóknarlögreglumaðurinn fyrrverandi Hercule Poirot.
Agatha Christie var tvígift. Eftir að fyrri eiginmaður hennar Archibald Christie skildi við hana hvarf hún í heila viku og rataði leitin af henni á forsíður helstu dagblaða í Bretlandi á þessum tíma. Hún tjáði sig aldrei um þessa viku sem hún var í felum á hóteli. Eftir mikla ástarsorg fann Christie þó ástina á ný að þessu sinni í Sir Max Mallowan sem var fornleifafræðingur. Hún ferðaðist með honum víða um Mið-Austurlönd í uppgrefti og notaði marga staði sem þau heimsóttu sem sögusvið skáldsagna sinna. Agatha Christie lest árið 1976, 85 ára að aldri. Hún skildi eftir sig eiginmann, dóttur og barnabarn.

Poirot, Marple og allir hinir

Bækur Christie má skipta upp eftir því hvort þær fjalla um Poirot, Miss Marple, eða aðra.
Hercule Poirot er líklega þekktastur allra persóna hennar enda kom hann fyrir í fyrstu bókinni hennar og 32 öðrum, yfir 50 smásögum og tveimur leikritum. Margir kannast ef til vill við hann úr sjónvarpsþáttunum þar sem David Suchet lék hann á óaðfinnanlegan hátt frá 1989 til 2013 (sjá mynd t.v.), en RÚV endursýndir þessa frábæru þætti enn. Poirot er belgískur fyrrum rannsóknarlögreglumaður sem er lagstur í helgan stein í London. Þrátt fyrir að vera hættur að vinna virðist hann rekast á ráðgátur og morð hvert sem hann fer og vill auðvitað ólmur leysa þær. Hann á það til að safna öllum grunuðum í lok bókarinnar saman í herbergi og útskýra hvernig morð átti sér stað. Þrátt fyrir mikla aðdáun lesenda Christie á litla belgíska kallinum með yfirvaraskeggið var hún sjálf orðin hundleið á honum og lét hann deyja í bókinni Curtain sem kom út árið 1975. Þetta er ansi sérstakt í heimi glæpasagna og mörgum varð svo um að dagblaðið New York Times birti um hann minningargrein. Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem blaðið gerði þetta fyrir skáldsagnapersónu.
Hin klúra heldri kona Miss Jane Marple er líklega sú persóna Christie sem kemst næst frægð Poirot. Hún kemur fyrir í 12 bókum og nokkrum smásagnasöfnum, fyrst birtist hún í Murder at the Vicarage árið 1930. Hún býr ein í litla þorpinu St. Mary Mead á Englandi. Ólíkt Poirot hefur hún ekki fengist við lögreglustörf en sökum gáfna hennar veitir hún oft lögreglumönnum ómissandi aðstoð til að leysa morð. Oft vanmeta persónur hana sem áhuga rannsóknarlögreglukonu sökum aldurs  og stöðu en hún nær að tengja minnstu vísbendingar saman og leysa flókin morð. Þættir ITV um hana má hæglega að mæla með en þar finnst mér Geraldine McEwan leika hlutverkið best allra sem hafa tekið það að sér (sjá mynd t.h.).
Flestar aðrar bækur eftir Christie fjalla um einstaka aðalpersónur en meðal undantekninga á því er tvíeykið Tommy og Tuppence sem koma fyrir í fimm bókum. Ég hef lítið lesið af þeim bókum en þær hafa notið vinsælda meðal margra aðdáenda Christie.

Bestu bækurnar

Ef lesendur eru farnir að klóra sér í hausnum eftir þessa löngu yfirferð á verkum Christie er best að fara að kynna hennar bestu verk. Það mun aldrei einn greinarhöfundur geta fullyrt hverjar bestu bækur frú Christie eru enda fer það allt eftir smekk og áhugasviðum. En hér má finna lista eftir bækur sem mér og mörgum öðrum finnst standa upp úr meðal verka hennar.

Með Poirot

  • The Mysterious Affair at Styles – Það er alltaf gott að byrja á fyrstu bókunum í bókaseríu og er serían um Poirot þar engin undantekning.
  • The Murder of Roger Ackroyd – Hefur verið nefnd besta glæpasaga allra tíma.
  • Murder on the Orient Express – Þessa bók þarf vart að kynna en hún er með einhverjum óvæntasta endi í glæpasögu sem hugsast getur.
  • Five Little Pigs – Dóttir konu sem lést eftir að hafa verið send í lífstíðarfangelsi fyrir morðið á eiginmanni sínum biður Poirot um að endurskoða málið.

Með Miss Marple

Aðrar bækur

  • And Then There Were None – Tíu manns sem þekkjast ekki er boðið á eyju og eru svo myrtir hver á eftir öðrum.
  • Witness for the Prosecution – Tæknilega séð leikrit en engu að síður frábært, ég hef séð það á sviði og samnefnda kvikmynd og mæli með að lesa og sjá sem flestar útfærslur af því.

Gleðilegan Agöthu Christe lestur!

 

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...