Versta bókmenntagrein allra tíma

Það er aldrei svona gott veður í skandíkrimmum.

Eitt sinn skrifaði hún Erna pistilinn sem má ekki skrifa hér á Lestrarklefanum, um hvað henni hefði þótt Halldór Laxness óbærilega leiðinlegur þegar hún las hann í menntaskóla. Nú hyggst ég einnig skrifa pistil sem ekki má skrifa, þó af öðrum ástæðum sé. Ég ætla mér nefnilega að reyna að koma í orð þeirri djúpu og hatrömmu andúð sem ég finn fyrir í garð skandinavískra glæpasagna. (Vil ég þó taka fram að mér finnst margar íslenskar glæpasögur miklu skárri en þetta sænska og danska drasl.) Ég mun héreftir kalla þessar bækur skandíkrimma, af því að það er hæfilega bjánalegt nafn fyrir þessa hörmung. Vissulega er þar enginn Laxness á ferð, en þetta er jú sú bókmenntagrein sem er langvinsælust á Íslandi, bæði í bókabúðum og á bókasöfnum. Hver einasta bókaútgáfa á landinu neyðist til að gefa út að minnsta kosti eina seríu í von um að lifa af.

Óbragð í munni (algengt sjúkdómseinkenni af lestri skandíkrimma)

Auðvitað eiga allir rétt á sínum eigin áhugamálum og allar skoðanir gildar um það hvað telst skemmtileg bók. En í þessum pistli verður ekki boðið upp á hófstemmda útlistun á kostum og göllum. Því enga sé ég kostina í þessum bókum og langar bara að úthúða þeim í eitt skipti fyrir öll. Því vil ég vara unnendur skandíkrimmanna við, ekki lesa lengra. Ykkur mun eflaust þykja bæði móðgandi og særandi að hlusta á óhlutdrægar og vísindalega nákvæmar útlistanir mínar á því hversu ömurlegar þessar bækur eru upp til hópa. En sért þú, lesandi góður, sama sinnis, þá skaltu endilega lesa áfram. Þetta á líka við um fólk sem kannski leiðist að lesa en gerir reglulegar atrennur að þeirri dægarastyttingu með því að kaupa sér eina kilju skreytta oflofi og fimm stjörnum, og skrifar svo hin óhjákvæmilegu skandíleiðindi á bóklestur yfirhöfuð. Svo er þessi pistill líka fyrir fólk sem spænir sig í gegnum þrjá skandíkrimma á mánuði, svo hratt að það hefur aldrei staldrað við til að velta fyrir sér af hverju lesturinn valdi því óbragði í munni.

Tilbúið að eitra líf þitt með leiðindum

Ég vil byrja á að taka fram að ég elska glæpasögur. Ég held sérstaklega mikið upp á breskar glæpasögur, en líka glæpasögur sem gerast í fortíðinni eða hafa óvenjulega söguhetju. Í mínum huga eru glæpasögur einhvern veginn erkitýpa skáldsögunnar, kannski af því að ég las svo mikið af Nancy Drew þegar ég var barn. Í þeim gerist eitthvað mjög eftirtektarvert sem strax grípur áhuga lesandans (morð og skelfing), persónurnar eru litríkar og áhugaverðar og svo vinnur söguþráðurinn staðfastlega að því að koma manni á óvart. Hins vegar verður það fljótt vandamál, þegar maður er vaxinn upp úr Nancy Drew, að það þarf æ meira til að koma manni á óvart. Við gerum þess vegna þær kröfur til glæpasagna að þær vinni með gamalkunnugt form, en snúi alltaf örlítið upp á það.

Allt um Sven

Þessi nýjungagirni er líklega það sem olli skelfilegu risi skandíkrimmans á alþjóðlega bókmenntavellinum til að byrja með. „Aha,“ hugsaði einhver breskur útgefandi fyrir 25 árum, „hér er bók um lögreglumann sem heitir Sven og býr í Umeå og er alltaf í vondu skapi. En sniðugt og skemmtilegt! Þar þekkja allir alla, en engu að síður finnst hrottalega útleikið lík í skóginum og í ljós kemur að allur bærinn er gegnrotinn.“ Þetta var kannski ennþá áhugavert og ferskt árið 1998, en núna er þetta orðið ansi þreytt. Þess vegna hafa skandíkrimmahöfundar neyðst til að stíga á bensínið. Þegar einhver er búinn að eigna sér jafnvel minnsta bæinn á Gotlandi, ja þá þarf bara að skrúfa upp í ofbeldinu. Hér er lík með afskorin augnlok sem kúkaði á sig áður en það drapst drottni sínum! Hér er kona sem var nauðgað svona og svona á hverjum degi alla ævi! Hér er barn sem örvænti í myrkrinu og dó svo með miklum kvölum!

Auðvitað gerast slíkir hlutir og verri en það. Því er ekkert að því að skrifa um þá og lesa, þó ég geti ómögulega skilið þessa miklu og óhóflegu fíkn höfunda og lesenda í limlesta kvenlíkama. En ofbeldið þarf að þjóna einhverjum tilgangi, og skandíkrimmarnir eru ekkert nema ofbeldið, smurt með þunnu lagi af sósíalrealisma. Því hvað gæti nú mögulega verið leiðinlegra en nákvæmar lýsingar á gengdarlausu ofbeldi? Jú, endurskoðandi með kransæðastíflu. Af hverju er endurskoðandinn svona rosalega vondur? Æ þú veist, hann átti alveg hræðilega æsku. „Jidúddamía það sem samfélagið í Umeå var lokað og forpokað á sjöunda áratugnum! Já, ég á ekki til orð, auðvitað þróaði drengurinn með sér ranghugmyndir um konur.“ Höfundur skandíkrimmans þarf alltaf að troða að djúphugsuðum samfélagsskilningi sínum á málefnum innflytjenda og heimilisofbeldis og guð má vita hverju fleira.

Alltumlykjandi fáránleiki

Já, segðu mér allt um skilnaðarmál þessa manns.

Þó að skandíkrimminn byggist á þessari ógeðfelldu blöndu ofbeldis, yfirborðsmennsku og almennra leiðinda, þá er það ekki neitt af þessu þrennu sem kveikir löngun mína til að grýta hverri kiljunni á fætur annarri fast í botninn á ruslafötu. Nei, það er fáránleikinn. Og plottleysið. Tvistið í söguþræðinum byggir alltaf á einhverju yfirmáta skrítnu, langsóttu, ómögulegu og út úr kú. Og bókmenntagrein sem gerir sig út fyrir að vera voða röff og realístísk getur ekki leyft sér þann yfirgengilega fáránleika sem kemur í ljós undir lok hverrar bókar. (Jú sjáðu til, það var krúttlegi þroskahamlaði maðurinn sem var raðnauðgarinn og mannræninginn. Hann hafði enga stjórn á kynhvöt sinni, milli þess sem hann rakaði lauf og veifaði brosandi til vegfarenda.) Þegar höfundur er búinn að mála sig út í horn með endalausu ofbeldi, þá er sjaldnast nein lausn á „gátunni“ önnur en sú að morðinginn hafi verið klikkað skrímsli. Og í því skrímsli afhjúpast oftar en ekki það sem liggur undir umburðarlyndinu og víðsýninni sem höfundur og lesandi hafa breitt yfir sig við lestur bókarinnar fram að því.

Af hverju lesum við þetta?

Kannski heldur einhver að ég hafi ekki lesið nóg af skandíkrimmum til að afskrifa þá svona með öllu. Vissulega les ég sjaldan marga á ári, en einhvern veginn gerist það alltaf að ég læt freistast aftur, í von um að lesa góða glæpasögu en ekki einhverja endemis þvælu. Ég verð alltaf fyrir vonbrigðum. Að vísu las ég einu sinni mjög skemmtilega bók eftir Jo Nesbø sem hét Meira blóð. Hún var samt ekki hluti af hinni vinsælu Harry Hole seríu sem ég hef því enn ekki kynnt mér, heldur stök söguleg skáldsaga um mann á flótta frá undirheimum Oslóar. Kannski hef ég bara ekki lesið réttu skandíkrimmana, kann einhver að fullyrða. En nei, bækurnar sem ég las og man enn alltof vel eftir fá lofsamlegar umsagnir og helling af lækum í þeim ágæta fb-hópi Bókagull. Af einhverjum ástæðum bara elskar fólk þessar bækur. Er það af því að það er þegar búið að segja íslenskum lesendum að þetta sé skemmtilegt, og það sér enginn að keisarinn er ekki í neinum fötum? Eða bera svona óhugnalega margir Íslendingar með sér leynda drauma um að myrða gömul skólasystkini sín á útivistarsvæðum?

Og það sem meira er, mun þetta fólk núna myrða mig? Ég bara bið ykkur, ekki pynta mig í mikið meira en þrjá tíma. Mér þykir tilhugsunin ákaflega óþægileg.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...