Bókamerkið: Nýlegar íslenskar skáldsögur

Hér má sjá streymið í heild sinni

 

Fyrsti þáttur Bókamerkisins, nýs bókmenntaþáttar og samstarfsverkefni Lestrarklefans og Bókasafns Garðabæjar, fór í loftið föstudaginn 17. apríl kl. 13:00 í beinu streymi. Díana Sjöfn Jóhannsdóttir penni hjá Lestrarklefanum og viðburðastjóri bókasafnsins, stjórnaði umræðum í fyrsta þættinum. Hún fékk til sín góða gesti; rithöfundinn Pedro Gunnlaug Garcia og Sjöfn Hauksdóttur, ljóðskáld og penna hjá Lestrarklefanum.

 

Kostir og gallar flóðsins

Við lok þáttarins sköpuðust líflegar umræður um íslenska útgáfu og fyrirbærið sem jólabókaflóðið er. Þá sé umræða um bækur nær eingöngu takmörkuð við tvo mánuði, nóvember og desember. Þar fyrir utan sé umræða og mæting á opna upplestra mjög lítil yfir árið. Pedro Gunnlaugur segir að það séu kostir og gallar við jólabókaflóðið og allt sem því fylgir. „Kosturinn er sá að það skapast allt í einu svona þversamfélagslegur áhugi á bókum og fólk er að lesa bækur bara til þess að geta talað um bækur. Fólk sem er ekkert að tala um bókmenntir almennt, bara vill vera með í þessum leik. Það er rosa gaman að mæla með og tuða. En það eru alls konar bækur sem týnast og drukkna út af offramboði og þær fá ekkert allar það pláss sem þær verðskulda.”

Einnig ræddu Díana, Sjöfn og Pedro um verðlag íslenskra bóka sem þau voru öll sammála um að væri of hátt fyrir hinn almenna neytanda. Bækur væru munaðarvara eða skítaredding í jólagjafainnkaupum.

Helsta áhersla samræðanna var þó bækur. Þátturinn hófst á því að rætt var um það gífurlega magn skáldsagna sem kom út í síðasta jólabókaflóði. Viðmælendurnir völdu sér þrjú nýleg skáldverk sem þau fjölluðu sérstaklega um.

Vetrargulrætur

Bæði Sjöfn og Pedro völdu að ræða um Vetrargulrætur eftir Rögnu Sigurðardóttur, en Sæunn skrifaði glæsilegan dóm um smásagnasafnið fyrir Lestarklefann. Sjöfn sagði að henni fyndist eins og sögurnar tengdust, „allir eru með einhvern draum og það er eins og þeir stækka eftir að nútíðin nálgast.“ Bæði voru einstaklega ánægð með smásagnasafnið. „Þessi bók átti að fá öll verðlaunin,“ sagði Pedró.

Síðan veltu þau upp spurningum varðandi stöðu smásagnasafna á Íslandi. „Eru þetta fordómar gagnvart smásögum að hún hafi ekki verið gefið út innbundin og ekki gefið veglegri sess?“ spurði Pedro. „Af því mér finnst hún mun ágætari en vel flest sem kom út síðustu jól.“

 

Svínshöfuð eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur

Sjöfn hámlas Svínshöfuð daginn fyrir viðtalið og varð mjög hrifin „[Sögusviðið] er svo fjarri lífinu núna, en eitthvað svo nálægt,“  sagði Sjöfn. Sögusviðið í upphafi bókarinnar er í Breiðafirði. Bókin er í þremur hlutum sem hefur hver sinn sögumann. „Svo er skipt um sögumann og það kemur alltaf óvart í bókum þegar það gerist. En það var mjög skemmtilegt.“ Sjöfn og Díana voru sammála um að bókin kæmi lesandanum stöðugt að óvörum.

 

 

Staða pundsins eftir Braga Ólafsson

Pedró dró svo fram Stöðu pundsins sem fékk tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. „Það sem laðar mig að þessari bók er samkenndin sem hann nær að töfrar fram með persónunum, sem eru tvær – eiginkona manns sem hefur fyrirfarið sér og sonur þeirra. Þau standa eftir fráfall hans og þá tekur við visst frelsi sem kemur eftir sorgina. Þau eru að verða aftur aðalpersónur í sínu lífi því karlinn var fyrirferðarsamur og plássfrekur og þau voru í skugganum af honum.“ Hann segir sögumannsröddina vera fallega skrifaða og söguheiminn raunverulegan en bókin á að gerast í Reykjavík um 1977. Hann segir að lesandinn þurfi að rýna djúpt í textann til að átta sig á innihaldi sögunnar, sem hann telur mjög djarft af höfundinum.

 

Aðferðir til að lifa af eftir Guðrúnu Evu Mínevrudóttur

Sjöfn hefði viljað að bókin væri lengri en það hafa margir sagt um nýjustu skáldsgöu Guðrúnar Evu, Aðferðir til að lifa af. Henni fannst persónusköpunin einstaklega vel heppnuð og að bókin væri ekki með eiginlegan söguþráð heldur um „áhugaverð líf sem fléttast saman.“ Þá finnst henni samband Arons Snæs og Borghildar einstaklega „áhugavert og sérstakt“.

 

 

 

Ós pressan

Pedro kippti með sér tímartinu Ós pressan sem kom út í janúar á þessu ári. „Ós er grasrótasamtök sem voru stofnuð af hópi fjölþjóðlegra skáldkvenna,“ útskýrði Pedró. Í tímaritinu eru textar eftir höfunda sem búa á Íslandi, bæði aðfluttum og innfæddum. Textarnir er eru ekki endilega á íslensku. Í tímaritinu fá raddir rými sem heyrast endilega ekki mikið. „Það er ekki mikið um útlensk nöfn í íslenskubókmenntalífi,“ segir Pedro. „Maður myndi vilja sjá fleiri koma inn á senuna, ekki bara sem einhverja jaðarfíguru, heldur inn á meginsviðið og með aðra vinkla. Ég bíð spenntur eftir einhverri bombu þaðan.“

 

Þættirnir verða næstu föstudaga kl. 13 og eru ætlaðir til að stytta stundir í samkomubanni. Næsti þáttur mun fjalla um ljóðabækur og mun Rebekka Sif Stefánsdóttir, bókmenntafræðingur, ritlistarnemi og penni hjá Lestrarklefanum, stjórna umræðum.

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...