Bókamerkið: Barnabækur

Í þriðja þætti Bókamerkisins, streymisþátt Bókasafns Garðabæjar í samstarfi við Lestrarklefann, var rætt um barnabækur. Kristín Ragna Gunnarsdóttir, rit- og myndhöfundur, og Marta Hlín Magnadóttir, ritstjóri hjá Bókabeitunni, komu í settið og ræddu við Katrínu Lilju, ritstjóra Lestrarklefans. Helst var rætt um myndabækur fyrir yngstu börnin í þættinum, mátt myndskreytinga og hve vel Ísland býr að góðum myndhöfundum. Myndabækur eru frábær leið til að ná til barna sem eru að byrja að lesa. „Fyrir börn sem eru að byrja að lesa þá eru myndirnar eyjur og þau sigla í gegnum textann, en geta alltaf staldrað við á eyjunum sem eru myndirnar. Þær brjóta textann upp, þær hjálpa þér að skilja það sem þau eru að lesa og svo er það líka þessi tilhlökkun hvenær þú rekst aftur á mynd og þar geturðu dokað við,“ segir Kristín Ragna í þættinum. Þá kemur einnig fram að börn í dag eru mikið betri í myndlæsi en eldri kynslóðir og því er allt eins líklegt að vel myndskreyttar bækur njóti fremur vinsælda meðal lesenda, yngri og eldri, í framtíðinni.

Marta Hlín kom með sjónarhorn útgefandans og ritstjórans inn í spjallið. Hún talaði til dæmis um það hve erfitt það sé að gefa út barnabókaseríur á Íslandi, ekki síst þar sem sala á fyrstu bókinni endurspegli alls ekki sölu á síðustu bókinni í seríunni. Útgefendur endi því oft á að borga með útgáfu síðustu bókarinnar. Það þýði þó ekki minni lesningu á bókunum, því útlán á bókasöfnum aukist í samhengi við minnkaða sölu.

Vigdís til næstu kynslóðar

Kristín Ragna byrjaði á að draga upp bókina Vigdísi – bókin um fyrsta konuforsetann eftir Rán Flygenring. Í bókinni segja myndirnar miklu dýpir sögu en textinn gerir. Til dæmis tala hlutirnir inni hjá Vígdísi og segja sína eigin sögu. „Það er þessi barnslega rödd sem fær að ráða ríkjum.“

 

Rólegu bækurnar

Marta Hlín tók upp bókina  eftir Evu Rún Þorgeirsdóttur með myndum eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur. Bókin er hugleiðslubók fyrir bæði börn og fullorðna, þar sem lesendum er kennt á líkama og huga. Texti og myndir eru nær alveg samtvinnaðar. „Þessi bók kemur eiginlega út á hárréttum tíma,“ segir Marta Hlín enda mikil þörf fyrir núvitund í dag.

Kristín Ragna mælti líka með Agli spámanni eftir Lani Yamamoti. Hún er álíka lágstemmd og . „Myndirnar kalla á að lesandinn lesi í þær.“ Hún tekur dæmi um mynd af dæmum á töflu og öðrum smáatriðum sem lesandinn sér kannski ekki við fyrsta lestur. „Þetta er bók sem sækir á og maður verður að lesa hana aftur og aftur.“

Litríku bækurnar

Bókabeitan hóf útgáfu á bókunum um Sombínu síðasta nóvember. Bækurnar eru mikið myndskreyttar, í sterkum litum með ótal smáatriðum. Hún segir örlítið frá fyrstu kynnum sínum af Sombínu. Á frummálinu, ítölsku, hafa þegar komið út fjórar bækur um Sombínu. Af þeim hafa tvær nú þegar verið þýddar yfir á íslensku. „Það eru stórar myndir og húmor. Þessi bók er bara dásamleg,“ segir Marta Hlín um bókina.

Kristín Ragna sendi frá sér bókina Nornasaga: Hrekkjavaka fyrir jólin. Bækurnar hafa vakið athygli fyrir fallegar myndskreytingar sem og grípandi söguþráð. „Þegar ég fór að skrifa Nornasögu fékk ég leyfi til að hafa hana í lit, og það var alveg svona áskorun. Og ég velti því alveg heilmikið fyrir mér hvað ég ætti þá að gera. Hvert ætla ég að fara með þessa bók?“ Kristín Ragna segir að í fyrri verkefnum hafi hún notað dökka grunna og klippimyndir. „Í þessu verkefni langaði mig að fara aðra leið og nota skæra liti.“ Hún segir hvert og eitt nýtt verkefni vera áskorun og að hún reyni alltaf að fara nýja leið í hvert sinn. Nornasaga mun verða þríleikur og Kristín Ragna hefur þegar hafist handa við aðra bókina.

Bókaseríurnar

Kepler62 serían er dæmi um seríu sem kom út í heild. Sex bóka vísindaskáldsaga, vel myndskreytt, dularfull og hörkuspennandi.

Krakkar eiga það til að sækjast eftir fleiri bókum um sömu sögupersónur. En það er ekki alltaf auðvelt fyrir bókaútgefendur að verða að þeim óskum, sérstaklega þar sem oft eru eingöngu fyrstu bækurnar keyptar en seinni bækur leigðar á bókasafninu. Marta Hlín tekur dæmi um Rökkurhæðir eftir hana sjálfa og Birgittu Elínu Hassell, sería sem var gríðarlega vinsæl þegar hún kom fyrst út. Fyrstu tvær bækurnar seldust mjög vel en síðan fór sala á bókunum að dala. Þar sem Marta Hlín og Birgitta Elín voru bæði útgefendur bókanna og höfundar höfðu þær góða innsýn í sölutölurnar. „Maður gat séð sölutölur og útlánatölur bókasafna og þær héldust ekki í hendur.“ Þannig fór útlánum fjölgandi eftir því sem sölutölur urðu lægri. „Þannig að bækurnar voru vel lesnar, sem er auðvitað frábært. En síðustu bækurnar stóðu bara engan veginn undir sér. Einhver útgáfa hefði verið löngu búin að henda okkur út,“ segir hún kímin. Þó lumar Bókabeitan á seríum sem voru ekki gefnar út í heild og nefnir Marta Hlín bókaseríuna um Grimms-systur. Fyrstu tvær bækurnar seldust mjög illa „og þetta eru níu bækur svo hún fékk bara að fjúka.“

Bækur með boðskap og klassíkin

En barnabækur eru ekki bara afþreying. Kristín Ragna dró upp tvær bækur sem geta hjálpað börnum að eiga við tilfinningar eða áhyggjur. Það eru Gréta og risarnir sem er bók innblásin af baráttu Grétu Thunberg, þar sem myndmálið sýnir hvernig rödd barnanna getur breytt heiminum til hins betra. Seinni bókin er klassíkin Þar sem óhemjurnar eru eftir Maurice Sendak sem kom nýlega út í fyrsta skipti á Íslandi í íslenskri þýðingu Sverris Norland. „Þarna er verið að taka á þessum tilfinningum sem bærast innra með okkur og innra með börnum líka og þau ráða ekki við þessar tilfinningar. Þær eru óþægilegar, þau vita ekki hvað þau eiga að gera við þær. Í þessari bók er þetta tekið alla leið og þetta er gert á svo listilegann hátt.“ Hún bendir á hvernig ærslagangurinn (myndirnar) fær hægt og rólega að taka yfir alla blaðsíðuna á kostnað textans. „Þetta er mjög gott dæmi um mátt barnabóka.“

Myndskreytt fyrir eldri lesendur

Kristín Ragna bendir á að á málþingi sem haldið var fyrir skömmu hafi verið talað um að skortur væri á myndabókum fyrir yngstu börnin. Hana langaði þó að benda á hversu fjölbreytt útgáfan væri þó og hve hæfileikaríka myndhöfunda Ísland hefur. „Það er eins og þessi hérna bók,“ segir Marta Hlín og heldur uppi bókinni Sagan af Sipp, Sippsippanipp og Sippsippanippsippsúrumsipp eftir Blævi Guðmundsdóttur. Blær teiknar og skrifar bókina sem er bráðfyndin aðlögun á gömlu ævintýri. Þannig kamelljón, myndhöfundur og rithöfundur í sömu manneskjunni, eru nokkuð sýnileg í íslenskri barnabókaútgáfu. „Það eru miklu styttri boðleiðir í öllu,“ segir Marta Hlín og bætir við að það auðveldi starf ritstjórnarns mjög.

Í sögunni upp Sipp og systur hennar eru blaðsíðurnar fullar af skemmtilegum smáastriðum.

Útgáfa á myndabókum fyrir eldri börn er að færast í aukana. Marta Hlín tekur dæmi um bækur sem eru myndskreyttar og hafa verið gefnar út nýlega. Til dæmis  Álfarannsóknin eftir Benný Sif Ísleifsdóttur, Nærbuxnabækur Arndísar Þórarinsdóttur og Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur. En í öðrum löndum sé maður mikið myndskreyttari bækur fyrir eldri lesendur. „Börn í dag hafa mikla þjálfun í myndlæsi, alveg frá blautu barnsbeini eru þau að horfa á ógrynni af teiknimyndum. Þau eru orðin vön myndefni á annann hátt en kannski eldri kynslóðir. Þau eru bara að kalla eftir þessu,” segir Kristín Ragna. Marta Hlín er því sammála.

Mögulega hefði verið hægt að halda áfram spjallinu fram á rauða nótt. En í lokin sagði Kristín Ragna frá leyniverkefninu sem hún vinnur að þessa dagana, myndabók fyrir yngstu kynslóðina um Njálu. Marta Hlín segir að lesendur megi búast við nægu efni frá Bókabeitunni á næstunni „til dæmis fá áskrifendur Ljósaseríunnar nýja bók fljótlega. Sú er eftir Hjalta Halldórsson. Svo er Bergrún Íris að fara að senda frá sér Kennarinn sem hvarf sporlaust.” Það er því til ýmiss að hlakka.

Næsti þáttur Bókamerksins verður föstudaginn 8. maí. Sjöfn Hauksdóttir ræðir um glæpasögur við Evu Björgu Ægisdóttur, höfund  bókanna Marrið í stiganum og Stelpur sem ljúga, og Sæunni Gísladóttur, sérlega áhugakonu um glæpasögur.

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...