„Í leit að orðum“

Jón Kalman Stefánsson er vel kunnur lesendum sem skáldsagnahöfundur en ekki margir vita að hann hóf ferilinn sinn sem ljóðskáld. Á árunum 1988-1994 komu út þrjár ljóðabækur eftir hann, Með byssuleyfi á eilífðina (1988), Úr þotuhreyflum guða (1989) og Hún spurði hvað ég tæki með mér á eyðieyju (1993). Fyrstu tvær voru sjálfútgefnar en sú þriðja kom út hjá Forlaginu. Hönnun og áferð bókarinnar er einstaklega falleg, þetta er mjög eigulegur gripur og falleg tækifærisgjöf. Hönnun og umbrot var í höndum Elinar Mejergren.

Einhverjar breytingar hafa orðið á ljóðabókunum í þessu safnriti en í formála segir Jón Kalman: „Fáein ljóð hafa verið felld út, minniháttar breytingar gerðar á örfáum stöðum, að öðru leyti birtast þau hér óbreytt.“ Í lok bókar eru svo sjö ljóð sem eru frá svipuðum tíma og síðasta ljóðabókin, en komu aldrei út á prenti fyrr en nú. Svo skemmtilega vill til að síðasta ljóð bókarinnar varð kveikjan að fyrstu skáldsögu Jóns Kalmans, Skurðir í rigningu, en hún kom út árið 1996 hjá Bjarti.

Áhugi kveiktur

Ég viðurkenni að ég var mjög spennt að lesa ljóð Jóns Kalmans þar sem ég man enn eftir að hafa tekið upp fyrstu bókina eftir hann þegar ég var fimmtán ára, Ýmislegt um risafurur og tímann (2001). Þá var hún tekin fyrir í fyrsta íslenskuáfanganum í menntaskóla, ÍSL103. Ég var mjög hrifin af þeirri bók þó að margir samnemendur mínir botnuðu ekkert í henni. Eftir það las ég Himnaríki og helvíti og skrifaði um hana mína fyrstu bókmenntaritgerð. Fyrir hana fékk ég prýðiseinkunn og var þessi bókmenntlega íslenskukennsla mjög mótandi fyrir mig og kveikti meðal annars áhugann á bókmenntafræði. Eftir það greip ég alltaf eina og eina skáldsögu eftir Jón Kalman á árlegu bókamörkuðunum og á nú allar af eldri bókunum hans. Eftir menntaskóla missti ég tenginguna við skáldskap Jón Kalmans en Sögu Ástu (2017) gleypti ég í mig á nokkrum dögum vorið 2018.

Gersemar og vonbrigði, fegurð og ljótleiki

Í ljóðasafninu má sjá vinnslu á svipuðum minnum og táknum sem Jón Kalman vann svo með síðar í skáldsögunum sínum. Það er fegurð og ljótleiki til skiptis í bókunum. Það sem allar þrjár ljóðabækurnar eiga sameiginlegt er að þær upphefja dægurmenningu, hversdagsleikann og tengja hann við hið skáldlega, eilífðina, myndrænuna og jafnvel súrrealismann. Þessi minni má mörg sjá í ljóðinu „Ljósið“. Í fyrsta erindi er varpað upp dramatískri mynd af manni í leit að svari, í eyðimörk, uppi í fjöllum og í gegnum hugleiðslu. Í seinna erindinu birtist svo ádeilan á hinn vestræna mann sem sem situr í allsnægtum með samviskunni sinni og finnur ljósið í ísskápnum.

 

Ljósið

eftir að hafa farið eyðimerkur
og hugleitt í kæfandi hitanum
Eftir að hafa klifið fjöll
og hugleitt klæðalítill í nepjunni
hef ég loksins fundið svarið:

Þegar að þér þyrpast myndir
af hungurdauðum börnum og
söndugum gresjum þriðja heimsins,
þá statt þú upp með samvisku þinni
opnaðu ísskápinn og sjá,

þá verður ljós!

(Þetta voru bestu ár ævi minnar, enda man ég ekkert eftir þeim, bls. 34)

 

Undirliggjandi myrkur og vanlíðan

Bæði með byssuleyfi á eilífðina og Úr þotuhreyflum guða hefjast á tilvitnun í söngvarann og lagasmiðinn Tom Waits, enda segir Jón Kalman í eftirmála ljóðasafnsins að dægurlagatextar hafi haft mikil áhrif á hann á unglingsárunum og enn þann dag í dag. Þá segir hann að tónlistin hafi haft „djúptæk áhrif á [sig].“ (bls. 200) Áðurnefndar ljóðabækur eru að mörgu leiti tengdar, þær eru uppfullar af kaldhæðni, uppásnúningum orða og mynda,  en vændiskonur, viskí og eilífðin sjálf eru algeng yrkisefni. Sumar línur eru algjörir gullmolar á meðan aðrar skilja lítið eftir. Hér er gott dæmi um ljóð sem snýr upp á sig og á skemmtilega vel við þessa dagana:

 

?

nei

ekki vil ég gærdaginn
hingað aftur
og efins er ég um
að morgundagurinn verði annað
en einn gærdagur í viðbót
og
undarlegt en finnst ég hafa séð
þessa daga áður

og þó
kannski
það sé
öfugt

?

(Þetta voru bestu ár ævi minnar, enda man ég ekkert eftir þeim, bls. 17)

 

Það eru stælar í þessum bókum, þær innihalda ádeilu á íslenskt samfélag ásamt undirliggjandi myrkri og vanlíðan. Einmanaleikann má sjá í ljóðinu „Eftir miðnætti“ sem lýsir vel kvíða skáldsins sem yrkir inn í nóttina og óttast að innblásturinn láti ekki sjá sig. Hér er sérstaklega flott hvernig dagsbirtan er persónugerð sem þreytt manneskja sem leggur sig fyrir nóttina. Einnig er kaffivélin gædd þeim hæfileika að geta „hellt upp á nóttina“. Það er þó niðurlagið sem heillaði mig mest.

 

Eftir miðnætti

lúin dagsbirtan
á sínum vanalega næturstað
hérna megin mánans
horfi annarshugar
á síðustu ökuljósin
kljúfa frostkalt myrkrið
meðan kaffivélin
hellir upp á nóttina

held síðan kvíðafullur
inn í mannvana þögnina
í leit að orðum

(Þetta voru bestu ár ævi minnar, enda man ég ekkert eftir þeim, bls. 98)

Kenndir til kvenna ásamt beinum ávörpum til ljóðsins

Hún spurði hvað ég tæki með mér á eyðieyju (1993) sker sig svolítið frá fyrstu tveimur ljóðabókunum, enda kemur hún út fjórum árum seinna. Yrkisefnin eru einnig afmarkaðri, hér yrkir Jón Kalman um ljóðið sjálft, konuna og kenndir ljóðmælanda til hennar. Ljóðin eru myndræn og hitta mismikið í mark. Hér virðist ljóðmælandi vera í óreglu og nær ekki að greina á milli líkama, kvenna og atvika, eins og sjá má í ljóðinu „Sjöunda kennd til konu“: „að vakna deyjandi / og tíminn / hvorki kemur né fer // að muna eftir / heitum nafnlausum líkama / aftur og aftur // að eiga myndir / sem stingast eins og hnífar / út um augun // að vakna lifandi…“ (bls. 120)

Það er vonleysi yfir ljóðmælanda sem virðist ekki geta myndað djúpar tengingar við konur „ég hef ekkert / að færa þér / nema þreytu / endalausa þreytu / sem engin orð ná yfir / þegar þú vaknar upp / með öðrum / og hugsar ekki um mig“ (bls. 222) Það er líka sá ótti eða vissa til staðar að konan sem ljóðmælandi leitar að sé einfaldlega ekki til: „hún spurði / hvað ég tæki með mér á eyðieyju // bát og þig / sagði ég / og við brennum bátinn á ströndinni // síðan fór ég / en skildi hana eftir / til að halda í drauminn“ (bls. 124).

Þunglyndið versnar það sem líður á bókina og virðist eymdin ætla að taka algjörlega yfir í eftirfarandi ljóði:

Tilkynning um gjaldþrot

ég
veld varla fleiri orðum

ljóðið hefur yfirgefið mig

sjóndeildarhringurinn leggst eins og reipi
um hálsinn

og síðasta augnablikið
innbyrðir mig án sýnilegrar undrunar
og fer.

Vinur
eignaðu mér ekki þetta líf

það er ágætis tilbreyting
að deyja

(Þetta voru bestu ár ævi minnar, enda man ég ekkert eftir þeim, bls. 134)

Alltaf er þó þessi stöðugi kaldhæðni undirtónn, „tilkynning um andlegt gjaldþrot“ er mjög hæðinn titill og það er gert lítið úr dauðanum með því að kalla hann „ágætis tilbreytingu.“ Þetta er ekki upplífgandi en mjög lýsandi fyrir þunglyndi.

Það verða straumhvörf í fjórða parti ljóðabókarinnar, ljóðin eru örlítið ljósari og í léttari kantinum, „ég vakna ekki lengur með nóttina í hálsinum // áður en ég vissi af / var einhver búinn að breyta ljóðunum mínum“ (bls. 151) Mögulega gæti ljóðmælandi hafa fundið ástina, einhverja lífshamingju. Harmurinn og sorgin hverfa samt ekki en ljóðabókin endar á komu sumarsins með ljóðinu „Júní“: „nú / verða allar tröllskessur að steini // og myrkrið er bara svartur köttur / sem hleypur yfir götuna / með fugl í kjaftinum“ (bls. 157).

Síðan birtist höfundurinn sem við þekkjum…

Fyrir mína parta stendur eftirmálinn upp úr eftir lesturinn. Jón Kalman skrifar um unglingsárin og vegferðina sem leiddi hann að ljóðinu, skáldskapnum. Eftirmálinn er ekki aðeins skemmtilegur heldur fróðlegur þar sem Jón Kalman setur ljóðabækurnar sínar í sögulegt samhengi. Hann uppljóstrar einnig um eigin væntingar til skáldaferilsins sem var því miður ekki mætt á sínum tíma: „[Ég] bjóst eiginlega við símhringingu samdægurs frá bókabúðinni, paniksímtali; bókin þín er uppseld, það var slegist um síðasta eintakið, einhver handleggsbrotnaði, borð ultu um koll, Þorsteinn frá Hamri missti hattinn í látunum…“ (bls. 204) En raunveruleikinn er sá að örfáir keyptu fyrstu ljóðabókina sem hann kostaði og prentaði sjálfur og þurfti hann því að fara að vinna í saltfiskverksmiðjunni í Sandgerði til að geta borgað prentsmiðjunni.

Jón Kalman fjallar einnig um skáldskapinn og meðal annars var þessi efnisgrein mér algjör yndislestur:

„Skáldskapurinn er margbrotinn, en einn af mikilvægustu þáttum hans, og um leið ástæðan fyrir því að hann er ósjaldan þyrnir í augum einræðisherra allra tíma, og þeirra sem hafa í sér óþol gagnvart sjónarmiðum og viðhorfum annarra, er hæfileiki hans til að sjá í gegnum, og stundum afhjúpa, skoðanir og staðlaðar hugmyndir samtíma síns. Eða draga þær í efa. Fá okkur til að efast um þær. Skáldskapurinn virðir engar reglur, hann er kötturinn sem verður aldrei taminn. Hann er barn samtíma síns en samt ekki bundinn af honum. Og á sínum bestu stundum sýnir hann okkur heiminn á bakvið heiminn, þessar frummyndir sem Platón talaði um.“ (bls. 174)

Áhugaverður útúrdúr

Yfir heildina litið höfðu ljóðin mismikil áhrif á mig en ég upplifði breiðan tilfinningaskala við lesturinn. Að lestri loknum var ég ekki nógu hrifin af heildarmyndinni en eins og þið hafið séð hér fyrir ofan eru þónokkrar gersemar þarna inni á milli. Það er furðulegt að segja að ég hafi orðið fyrir smá vonbrigðum, því það er í rauninni ekki sanngjarnt (eða hvað?) þar sem ég er að lesa ljóðabækurnar árið 2020, á allt öðrum tíma og með allt annað samhengi en þegar bækurnar komu út á árunum 1988-1994 (tvær meira að segja áður en ég fæddist). Stundum virkar skáldskapur betur í sínu sögulega samhengi og gæti vel verið að það eigi við hér.

Þar sem það er einstaklega erfitt að gefa heilu ljóðasafni stjörnur ætla ég að gefa öllum hlutum bókarinnar sér stjörnur: ljóðabækurnar fá þrjár stjörnur hver en eftirmálinn fimm. Meðaltalið er því þrjár og hálf stjarna fyrir heildina. Nú bíð ég bara spennt eftir næsta skáldverki Jóns Kalmans en þetta ljóðasafn var örlítið furðulegur en áhugaverður útúrdúr.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...