Núvitund í morgunsárið

AM forlag gaf út tvær fallegar barnabækur fyrir yngstu kynslóðina á dögunum. Önnur þeirra er Í morgunsárið eftir Junko Nakamura sem er vinsæll barnabókahöfundur í Frakklandi. Bókin er með litríkum myndum sem gleðja augað en myndirnar eru klárlega í aðalhlutverki. Lítill texti er í bókinni, orðin eru spöruð, enda eru þau óþörf þegar myndirnar tala svona vel sínu máli. Sverrir Norland sá um þýðingu bókarinnar ásamt því að starfrækja AM forlag.

Teikningar í aðalhlutverki

Bókin fjallar um friðsæla morgunstund herra Bangsa og hundsins Lubba. Bókin er lágstemmd og vekur ró í hjarta. Hún minnir lesendur sína á að njóta augnabliksins, litlu hlutanna, eins og að vaska upp, horfa á blómin í glugganum, gera morgunteygjurnar. Teikningarnar vekja mestu áhrifin og móta lestrarupplifunina. Litirnir eru skærir og glaðlegir, það er mikið af ljósgulum, grænum og bláum tónum sem vega upp á móti brúna Bangsa og svarta hundinum Lubba. Sérlegur ráðunautur Lestarklefans (2 ára gutti) sat stjarfur og starði á myndirnar þegar bókin var lesin fyrir hann. Honum líkaði mjög vel við herra Bangsa og Lubba og benti á þá á hverri síðu.

Einbeittur ráðunautur og bókagagnrýnandi.

Núvitund að morgni

Textinn er ljóðrænn, stundum er eins og hann syngi: „Brauðsneiðar með hunangi / veita mér innblástur“. Það býr svo mikil ró í textanum að hann er eins og ljúft andvarp, „Í morgunsárið er allt svo ferskt / allt svo fallegt.“ Myndirnar styðja við þá tilfinningu með léttleika og fegurð sinni. Bókin er í raun ein stór æfing í nútvitund (e. mindfulness). Það er einmitt á morgnana sem margir upplifa kvíða og stress, bæði börn og fullorðnir. Það þarf að vakna, drífa sig í vinnuna, varla tími fyrir morgunmat né faðmlag til að bjóða góðan daginn. Eins eru morgnarnir á Íslandi oft myrkir og þungir. Þessi bók er algjör andstæða þess, morgunstundin er heilög hjá herra Bangsa og hundinum Lubba, þeir kunna svo sannarlega að njóta hennar. Í lok bókar halda þeir ganga þeir svo út í sólskinið. Bókin endar svo á þeim fallegu orðum: „Við höldum af stað að skoða heiminn.“

Fyrirmyndarfélagar

Í morgunsárið er ljúf og falleg barnabók sem hentar voða vel til lesturs fyrir svefninn, eða jafnvel um bjartan morgun þegar á að njóta fyrstu augnablika dagsins. Herra Bangsi og Lubbi kunna svo sannarlega að fagna nýjum degi. Við öll megum taka þá félaga til fyrirmyndar þessa dagana og njóta hvers augnabliks með ró og gleði í hjarta.

 

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...