Sjónvarpsþættirnir Þú eða You sem birtust neytendum á streymisveitunni Netflix árið 2018 fjalla í stuttu máli um hinn óprúttna Joe Goldberg sem verður ástfanginn. Eða hvað? Ástarviðfang Joe er unga skáldkonan Guinevere Beck sem álpast inn í bókabúðina þar sem Joe vinnur. Joe er ekki lengi að notfæra sér veraldarvefinn og deiligleði hinnar ungu Beck á samfélagsmiðlum til að komast að öllu um hana. Hvar hún býr, hvert hún fer út á lífið og hverjir vinir hennar eru. En það sem hún deilir með netheimum er ekki nóg fyrir Joe, hann stelur símanum hennar til að geta lesið öll hennar einkaskilaboð og brýst inn til hennar. Hann fremur meira að segja nokkur morð til að gera hana að sinni.

 

Huggulegur eltihrellir

Ekki hljómar Joe eins og mjög stabíll eða eftirsóknarverður maki við þessa lýsingu en í þáttunum er eltihrellirinn Joe leikinn af hinum huggulega Penn Badgley, sem mætti lýsa sem hjartaknúsara, svona útlitslega séð. Með heillandi augnaráði og góðri beinabyggingu hefur karakterinn Joe í meðförum Badgley heillað margan áhorfandann um heim allan. „Joe mætti sko alveg myrða vinkonu mína til að byrja með mér“, kyrja ástsjúkir áhorfendur og dæsa. Joe-hrifningin gekk svo langt að leikarinn Badgley hoppaði á Twitter og benti áhorfendum á að Joe er augljóslega geðsjúkur morðingi og enginn ætti að láta sig dreyma um slíkan elskhuga, sama hversu áberandi kinnbein hann er með. En annað hvort eru gagnkynhneigðar konur svo vanar því að hetjur rómansa séu ógeðslegir perrar eða Joe er bara svona ómótstæðileg persóna, þær láta sig það ekki miklu máli skipta. Rómantískar gamanmyndir hafa kennt áhorfendum í gegnum tíðina að eltihrellirinn er í raun góður drengur inn við beinið og eigi því skilið að fá fallegu stelpuna, því er það ekki skrítið að áhorfendur hafi fallið fyrir Joe.

Var Penn ekki aðeins of myndarlegur fyrir hlutverkið?

Óhuggulegar hugsanir huggulegs manns

Þættirnir eru ekki sprottnir upp úr engu, þeir eru byggðir á skáldsögum bandaríska rithöfundarins Caroline Kepnes. Fyrsta serían fylgir fyrstu bókinni You, sem kom út árið 2014, eftir og seinni serían annari bókinni, Hidden Bodies frá 2016, þrátt fyrir að þar sé söguþræðinum mun lauslegar fylgt. Í bókinni er Joe, líkt og í þáttunum, vel að máli farinn, víðlesinn, og ósköp sjálfumglaður sökum þess, einfari sem vinnur í bókabúð í New York. Joe bókarinnar er sögumaðurinn og lesandinn sér því allar hans óhuggulegu hugsanir.

Í bókinni er hann mun óviðkunnalegri en í þáttunum því í þáttunum virðist hann í raun ósköp huggulegur ungur maður, ef maður lítur framhjá morðum og þess háttar… Í bókinni telur hann sig mun klárari en aðra og yfir alla hafinn. Hann hefur merkilega óbeit á Dan Brown þrátt fyrir að hafa aldrei lesið neitt eftir hann, sem og Brown-aðdáendum, og stundar að því er virðist stjórnlausa sjálfsfróun á undarlegustu stöðum. Já, þið lásuð rétt, stjórnlausa sjálfsfróun. Í þáttunum er sjálfsfróunin fjarri góðu gamni sem og hatrið á herra Brown og eru honum einnig veittar aukapersónur til að auka á manngæsku hans. Í fyrri seríunni er það Paco, nágrannadrengur Joe sem býr með móður sinni og ofbeldisfullum maka hennar. Joe vorkennir Paco og hjálpar honum, lánar honum bækur og gefur honum mat. Indælt. Í seinni seríunni er það unglingsstúlkan Ellie sem er einnig nágranni hans og einnig af Suður-Amerískum uppruna, og Joe verndar hana fyrir perra nokkrum af manngæsku einni saman. Í bókunum er enginn Paco og enginn Ellie, perrinn er til staðar en hann er ekki perri þannig séð, bara maður sem svaf hjá konu sem Joe vildi sofa hjá og varð að deyja fyrir þá synd. Nágranninn í bókinni er kona sem Joe lýsir sem druslu kominni fram yfir síðasta söludag og drepur eftir að hann sefur hjá henni. Þið sjáið stefið í þessu.

Eitruð karlmennska góða gaursins

Kannski gerir það Joe áhugaverðari að veita honum þá dýpt að hann sjái aumur á þeim sem minna mega sín með annarri og myrði fólk með hinni, en mér finnst Joe bókarinnar raunsannari. Það þýðir ekki þar með að ég haldi að morðingjar geti ekki verið marglaga persónur, Hitler var nú einu sinni góður við hunda og allt það, en Joe bókarinnar virðist ná að kristallast sem hin eitraða karlmennska „góða gaursins.“ Við þekkjum þá staðalmynd allflest ágætlega nú til dags, þessa gaura sem eiga skilið að fá gelluna því þeir eru svo góðir að eigin sögn. Joe telur sjálfan sig eiga Beck skilið, hann elskar hana og myndi koma svo vel fram við hana ef hún gæfi honum séns. Hvernig dirfist hún að gera það ekki? Sem leiðir til þess að Joe  (HÖSKULDARVIÐVÖRUN) verður henni að bana fyrir þá einu synd að vilja ekki vera kærastan hans. Og það þarf ekki mikið skáld til að búa þann söguþráð til, um allan heim eru konur myrtar á hverjum degi fyrir að hafna viðleitni karlmanna sem vildu bara elska þær.

Sjúkir prinsar

Gallinn við að færa söguna yfir á þáttaformið með hinum sæta Badgley og þessum aðlögunum sem gera Joe að skárri persónu en í bókinni er sá að ádeilan á þennan góða gaur/morðingja verður veikari fyrir. Hann er ekki lengur erkitýpa af ógeði sem reynir að sýnast góður, hann er á vissan hátt góður í raun og veru. Og þegar hann hugsar ekki jafn eitraðar hugsanir og fróar sér minna virðist auðveldara að gleyma því að hann er kominn til að deila á þessa sjúku hegðun sem oft er álitin rómantísk og hann fellur í raðir rómantískra prinsa sem vill svo til að eru líka sjúkir en við áttum okkur ekki alltaf á því.

Það sem þátturinn hefur að mínu mati fram yfir bækurnar er þó framvindan, sagan hefur verið straumlínulöguð og rennur betur áfram. Joe er sögumaður þáttanna rétt eins og bókanna og sjónrænn miðill skilar því formi vel þar sem Joe talar yfir senur í sögumannshlutverki. Ef önnur sería og önnur bókin eru borin saman er himinn og haf á milli þeirra í gæðum, því bókin er það sem kallast á góðri íslensku garbage fire. Þáttaröðin, þrátt fyrir að hafa sína vankanta (langdregni og klisjukennd), heldur sig þó, öfugt við bókina, allavega við efnið og er ekki eins og hitasóttardraumur Hunter S. Thompson.

Eitthvað heldur manni þó við efnið

Að þessu sögðu vil ég þó viðurkenna að ég mun horfa á þriðju seríu ef hún kemur út. Ég myndi líka lesa þriðju bókina ef ein slík væri í smíðum. Því þrátt fyrir alla þessa gagnrýni er eitthvað sem heldur mér við efnið. Í þáttunum var það endirinn sem vakti spennu þrátt fyrir að mér hefði hálfleiðst yfir annarri seríu og í bókinni, tja, það er erfitt að segja… En það er eitthvað þarna. Kannski langar mig bara að sjá hvort þáttarstjórnendum takist að töfra fram annan ungling af minnihlutahópi sem þarf aðstoð góða hvíta morðingjans. Kannski langar mig bara í eitthvað undarlegt að lesa í góða veðrinu. Hver veit.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...