Arndís og Hulda hljóta Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur

Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir hljóta Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur 2020 fyrir handrit sitt að bókinni Blokkin á heimsenda. Dómnefndina skipuðu þau Geir Finnsson, sem var formaður, Halla Þórlaug Óskarsdóttir og Heiða Rúnarsdóttir. Á lokametrunum fengu þau tvo nemendur úr 6. bekk Háteigsskóla sér til liðsinnis og þakkar Reykjavíkurborg þeim fyrir þeirra mikilvæga framlag. Bókin kemur út hjá Mál og menningu í dag.

Í umsögn dómnefndar um bókina segir meðal annars að sagan sé grípandi með gamansömum tón. “[Sagan] segir frá fjölskyldu sem er vön nútímaþægindum en þarf að segja skilið við sitt hefðbundna líf til að komast í gegnum erfiða tíma. Fjölskyldan verður strandaglópur á eyju þar sem föðuramma barnanna ræður ríkjum. Þar er fámennt samfélag og allir eyjarskeggar hafa ákveðnu hlutverki að gegna. Aðflutta fjölskyldan lærir að sætta sig við að búa við þröngan kost. Allir þurfa að leggja sitt af mörkum og læra að taka ekki öllu sem gefnu. Það gengur á ýmsu á eyjunni. Margir eru ósáttir við sína stöðu, skemmdarverk eru unnin og nýbúarnir liggja undir grun.”

Hátt á fimmta tug handrita bárust í samkeppnina í ár og var dómnefndin sammála um að handrit þeirra Arndísar Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnar Bjarndóttur, Blokkin á heimsenda, skyldi hljóta verðlaunin að þessu sinni.

Vegna Covid-19 fór verðlaunaafhending fram með öðru sniði og því er hægt að horfa á stiklu af athöfninni, sem fór fram í Höfða í dag, hér að neðan. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, afhenti verðlaunin.

 

 

 

Heildarumsögn dómnefndar:

„Nafn og arfleifð Guðrúnar Helgadóttur var okkur ofarlega í huga þegar við lásum nýverið stóran bunka barnabókahandrita. Að þessu sinni bárust 48 handrit í samkeppnina sem er haldin árlega í hennar nafni og voru mörg hver afar vönduð. Valið var því orðið ansi strembið undir lok.

Handritið sem varð fyrir valinu ber titilinn Blokkin á heimsenda og er eftir þær Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur. Sagan er grípandi með gamansömum tón. Hún segir frá fjölskyldu sem er vön nútímaþægindum en þarf að segja skilið við sitt hefðbundna líf til að komast í gegnum erfiða tíma. Fjölskyldan verður strandaglópur á eyju þar sem föðuramma barnanna ræður ríkjum. Þar er fámennt samfélag og allir eyjarskeggar hafa ákveðnu hlutverki að gegna. Aðflutta fjölskyldan lærir að sætta sig við að búa við þröngan kost. Allir þurfa að leggja sitt af mörkum og læra að taka ekki öllu sem gefnu. Það gengur á ýmsu á eyjunni. Margir eru ósáttir við sína stöðu, skemmdarverk eru unnin og nýbúarnir liggja undir grun.

Aðstæður eru nokkuð framandi fyrir hinn almenna lesanda (þó að fordæmalausir tímar kynnu að hafa áhrif á það um þessar mundir) en þrátt fyrir það er samtímatónninn sterkur og auðvelt að samsama sig hugsanagangi ungmennanna í sögunni. Jafnframt víkur hún frá hefðbundnum stíl barnabókmennta á skemmtilegan hátt, til að mynda með ömmunni sem er ekki staðalmyndin af ömmum, hlý og skilningsrík, heldur ógnvænleg persóna, sem fullorðinn lesandi sér þó strax að búi yfir einhverjum ótta eða sársauka.

Það má með sanni segja að andi og arfleifð Guðrúnar Helgadóttur svífi yfir Blokkinni á heimsenda. Horft er á samfélag hinna fullorðnu með augum barnsins. Þar er ekki allt eins og best verður á kosið en með samstöðu og samhygð komast sögupersónur vel frá verki og vaxa að völdum og virðingu.

Það var ánægjulegt að starfa í dómnefnd og lesa vel á fimmta tug handrita sem gerðu tilkall til Barnabókaverðlauna Guðrúnar Helgadóttur. Tveir nemendur á miðstigi Háteigsskóla aðstoðuðu dómnefnd við að taka lokaákvörðun um val á besta handritinu. Dómnefnd þakkar þeim sem sendu inn handrit kærlega fyrir þátttökuna og hvetur þau til að halda áfram að skrifa.“

Um Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur

Reykjavík bókmenntaborg UNESCO hefur umsjón með Barnabókaverðlaunum Guðrúnar Helgadóttur. Þetta er í annað sinn sem verðlaunin eru afhent. Bergrún Íris Sævarsdóttir hlaut Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur þegar þau voru veitt í fyrsta sinn árið 2019 fyrir handritið Kennarinn sem hvarf. Bókin kom síðan út hjá Bókabeitunni og hefur notið mikilla vinsælda.

Verðlaunin eru veitt árlega fyrir óprentað handrit að barna- eða ungmennabók og er ætlað að hvetja til metnaðarfullra skrifa fyrir börn og ungmenni og halda á lofti merkjum eins okkar ástsælasta barnabókahöfunda. Verðlaunaféð er ein milljón krónur.

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...