Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2020

Margrét Tryggvadóttir, Rán Flygenring og Þórarinn Eldjárn hlutu í dag Barnabókaveðlaun Reykjavíkurborgar 2020 fyrir bækurnar Kjarval: málarinn sem fór sínar eigin leiðirVigdís: bókin um fyrsta konuforsetann og Hver vill hugga krílið? eftir Tove Jansson. Dómnefnd skipuðu þau Tinna Ásgeirsdóttir, sem var formaður, Ásmundur Kristberg Örnólfsson, Helga Birgisdóttir, Karl Jóhann Jónsson og Valgerður Sigurðardóttir.

Margrét Tryggvadóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í flokki frumsaminna bóka fyrir bók sína Kjarval: málarinn sem fór sínar eigin leiðir. Iðunn gaf út.

Í umsögn dómnefndar sagði meðal annars að bókin væri mikill fengur og að frásagnarmáti væri hreinn og beinn. “Margréti tekst ákaflega vel að segja sögu Kjarvals með skýrum og læsilegum hætti í texta sem hentar bæði þeim yngri og þeim eldri.”

 

 

Rán Flygenring hlýtur Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í flokki myndlýsinga í barna- og ungmennabók fyrir bók sína Vigdís: bókin um fyrsta konuforsetann. Angústúra gaf út.

Í umsögn dómnefndar sagði meðal annars að samspil mynda og texta skapi sterka og fallega heild. “Teikningarnar hafa yfir sér prakkaralegt yfirbragð, eru afslappaðar og óþvingaðar með mikilli hreyfingu og líflegum og glaðlegum litum, og koma þannig til skila að sagan er sögð frá sjónarhóli barns.”

 

 

Þórarinn Eldjárn hlýtur Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í flokki þýddra bóka fyrir þýðingu sína á Hver vill hugga krílið? eftir Tove Jansson. Mál og menning gaf út.

Í umsögn dómnefndar sagði meðal annars að þýðing Þórarins sé listilega vel gerð. “Í þýðingu sinni nýtir Þórarinn sér hefðbundið ljóðform íslenskunnar og sannast að þar fer kunnáttumaður með hryn og ljóðstafi. Þrátt fyrir æði flókna ímyndunarveröld textans rennur sagan lipurt og á köflum bregður fyrir skemmtilegum rímtilþrifum eins og þýðandinn er þekktur fyrir.”

 

Vegna Covid-19 var athöfnin með öðru sniði en fyrri ár. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, veitti höfundum verðlaunin í Höfða en athöfnin var kvikmynduð til að fleiri mættu njóta.

 

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eru veitt í þremur flokkum bóka fyrir börn og ungmenni, flokki frumsaminna bóka, flokki myndlýsinga og flokki þýðinga. Þetta eru elstu barnabókverðlaun á Íslandi en þau voru fyrst veitt sem Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur árið 1973. Árið 2016 voru Dimmalimm verðlaunin og Barnabókaverðlaun Reykjavíkur sameinuð og urðu flokkarnir þá þessir þrír. Verðlaunaféð er 350.000 kr. í hverjum flokki.

Í ár fékk dómnefndin 108 bækur til skoðunar, 32 frumsamdar á íslensku, 54 þýddar og 20 myndríkar. Þetta er um 20% aukning milli ára og var hún mest í flokki þýddra bóka. Fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki og nú er ljóst hvaða þrjár bækur hljóta verðlaunin í ár.

Lestu þetta næst

Að rækta garðinn sinn

Að rækta garðinn sinn

Nýverið kom út íslensk þýðing Kristínar Jónsdóttur á skáldsögunni Vatn á blómin eftir franska...

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...