Bestu og verstu kvikmyndaútfærslurnar

 

Einn skemmtilegasti áfangi sem ég tók í menntaskóla var enskuáfanginn From the Book to the Movie, eins og titillinn bendir til snérist áfanginn um kvikmyndaðar bækur. Nemendur í áfanganum lásu saman nokkrar frábærar bækur á ensku og stúderuðu svo kvikmyndaútfærlsurnar á þeim. Hver og einn hópur í áfanganum kynnti svo eina bók og kvikmynd gerða eftir henni. Í áfanganum komst ég að því hve margar frábærar kvikmyndir eiga uppruna sinn í góðri bók. Í gegnum árin hef ég haldið áfram að lesa nýjar bækur og beðið svo spennt eftir að sjá hvernig sagan verði útfærð á hvíta tjaldinu, en einnig hef ég oft ákveðið að lesa bók eftir að hafa séð góða kvikmynd sem byggir á henni. Það er þó vandmeðfarið að aðlaga bók að kvikmyndaformi og oft tekst ekki nógu vel til. Ég hef því tekið saman lista yfir bækur sem mér hafa fundist einstaklega vel útfærðar í kvikmyndaformi ásamt nokkrum kvikmyndum sem misstu marks.

Bestu útfærslurnar

Það skal taka fram að þessi listi er engan veginn tæmandi en á honum má finna kvikmyndir sem flestir eru sammála um að hafi tekist vel til að koma söguþræði og skilaboðum bóka til áhorfenda á hvíta tjaldinu. Einnig skal taka fram að kvikmyndirnar eru ekkert í neinni sérstakri röð.

Gone Girl

Við fjölluðum nýverið um hina frábæru bók Gone Girl (Hún er horfin) eftir Gillian Flynn á lista yfir bækur sem við mæltum með að fólk læsi í samkomubanni. Bókin er þrusugóð spennusaga og ég varð ekki fyrir neinum vonbrigðum þegar ég sá kvikmyndina sem hinn verðlaunaði leikstjóri David Fincher gerði eftir henni. Rosamund Pike er stórkostleg í hlutverki hinnar “fullkomnu” Amy og maður veit ekkert hvar maður hefur Ben Affleck allan tímann. Ég myndi tvímælalaust mæla með að lesa bæði bókina og horfa svo á kvikmyndina.

 

 

 

Clueless

Það vita það ekki allir að hin sívinsæla unglingamynd frá tíunda áratug síðustu aldar Clueless (eða Glórulaus!) er byggð á hinni sígildu bók eftir Jane Austen, Emmu. Það eru líklega fáir sem hafa látið þessa fyndnu mynd með ógleymanlegum frösum framhjá sér fara, en fleiri eiga ef til vill eftir að lesa efnið sem hún byggir á. Ég las Emmu á síðasta ári eftir að hafa séð Clueless svo oft sem unglingur að ég kunni hana utan að. Mér fannst í raun og veru bókin (sem kom út í upphafi 19. aldar) aðgengilegri en margar aðrar frá þessum tíma vegna þess að ég kannaðist við flestar persónurnar og vissi hvert sagan stefndi þökk sé Clueless. Því mæli ég eindregið með því að aðdáendur unglingamyndarinnar prófi að lesa þessa sígildu bók.

 

Mávahlátur

Mávahlátur fyrsta bók Kristínar Mörju Baldursdóttur kom út árið 1995 og naut svo mikilla vinsælda að fljótlega var gert leikrit eftir henni og í kjölfarið kvikmynd sem kom út árið 2001. Kvikmyndin vann Edduverðlaun og hlaut mikið lof og man ég eftir að hafa haft sérstaklega gaman af henni sem barn. Ég var síðan unglingur þegar ég ákvað að lesa efnið sem hún byggir á og því er ekki að neita að bókin er eiginlega bara fullkomin.

 

 

Matilda

Matilda var ein af mínum uppáhalds kvikmyndum sem barn og átti ég það sameiginlegt með flestum krökkum af minni kynslóð. Kvikmyndin byggir á samnefndri bók hins frábæra breska rithöfundar Roald Dahl og kom út innan við áratug eftir að bókin birtist fyrst. Stærsta breytingin sem gerð var við kvikmyndaútfærsluna var að færa söguna frá Bretlandi til Bandaríkjanna en það kemur ekki að sök, Matilda er yndisleg barnamynd og hafði ég ekki síður gaman af henni þegar ég horfði á hana eftir að ég var fullorðin, hún eldist bara ansi vel!

 

A Clockwork Orange

Eitt af meistaraverkum Stanley Kubrick, A Clockwork Orange, var meðal þeirra kvikmynda sem við stúderuðum fyrir nú alllöngu síðan í menntaskólaáfanganum From the Book to the Movie. Kvikmyndin er rétt eins og bókin ansi sérstök en gerð með einstaka stíl Kubrick. Það eru ýmsar ótrúlegar sögur um gerð kvikmyndarinnar sem vert er að kynna sér betur en eitt er alveg ljóst, kvikmyndaútfærlsan er einstaklega vel heppnuð.

 

 

 

Sense and Sensibility

Ég verð að lokum að nefna Sense and Sensibility þrátt fyrir að hafa ekki ennþá lesið bókina (hún er á ó svo langa leslistanum mínum). Ég hef lesið  margar bækur Jane Austen og séð hinar ýmsu kvikmyndir og þætti sem gerðir voru eftir þeim og Sense and Sensibility stendur upp úr finnst mér sem besta kvikmyndaútfærsla úr heimi Jane Austen. Emma Thompson, sem ætti náttúrulega bara að krýna drottningu Bretlands, skrifaði kvikmyndahandrit í fyrsta sinn og uppskar þarna dásamlega kvikmynd sem hún fékk hvorki meira né minna en Óskarsverðlaun fyrir handritsgerð fyrir. Ofan á það lék hún eitt aðalhlutverkanna þrátt fyrir að vera u.þ.b. helmingi eldri en persónan á að vera og nældi sér í, auk aðdáunar allra Austen lesenda, fjallmyndarlegan mann sem hún kynntist við tökur á myndinni. Geri aðrir betur!

Poirot

Að lokum verð ég að nefna sjónvarpsþættina um belgíska rannsóknarlögreglumanninn Poirot þar sem um helmingur þáttanna er í kvikmyndalengd. Ég hef séð töluvert margar kvikmyndir byggðar á bókum Agöthu Christie en tel sjónvarpsþættina um Poirot standa þeim öllum framar. David Suchet er einfaldlega Hercule Poirot! Ef ég ætti að nefna nokkra sérstaklega vel heppnaða þætti eru það: Five Little Pigs, Curtain og Cards on the Table.

 

 

 

Verstu útfærslurnar

The Goldfinch

Nýjasta myndin á þessum lista er The Goldfinch sem kom út á síðasta ári. Bókin sem hún byggir á er eftir verðlaunahöfundinn Donna Tartt sem einnig er þekkt fyrir The Secret History og vann meðal annars Pulitzer verðlaunin árið 2014. Bókin er margslungin og spannar mörg ár og staði og ef til vill var bara allt of flókið að reyna að færa þessa tæplega 800 blaðsíðna bók á hvíta tjaldið. Ég hefði ekkert skilið í myndinni ef ég hefði ekki verið búin að lesa bókina en ofan á það var kvikmyndin bara allt of flöt. Ég hef lítið annað um hana að segja.

 

 

The Lovely Bones

The Lovely Bones varð metsölubók þegar hún kom út og við vinkonurnar lásum hana á sínum tíma og höfðum mikla ánægju af. Hún fjallar um unga stúlku sem er nauðgað og að loknum misþyrmingunum er hún myrt. Stúlkan sjálf er sögumaður sögunnar, en segir hana frá sínu sjónarhorni af “himnum.” Bókin kom út 2002 og gerði Peter Jackson kvikmynd eftir henni sem kom út 2009. Þrátt fyrir að hafa góða leikara með í för tókst Jackson ekki að gera sögunni góð skil í þessari útfærslu.

 

A Series of Unfortunate Events

A Series of Unfortunate Events er sería þrettán barnabóka sem undirrituð hafði töluvert gaman af sem barn. Bækurnar segja frá þremur systkinum Violet, Klaus og Sunny sem verða einn daginn munaðarleysingjar og lenda í ótal hremmingum í kjölfar þess. Kvikmynd var gerð eftir fyrstu þremur bókunum með Jim Carrey í hlutverki hins illa Count Olaf sem börnin lenda í fóstri hjá. Myndin var einfaldlega ekki nógu góð, ef til vill hefði verið betra að gera eina mynd eftir hverri bók. Netflix sá sér leinmitt leik á borði og framleiddi þætti eftir öllum bókunum á síðastliðnum árum sem eru mun betur heppnaðir og mæli ég með að lesendur bókanna kynni sér.

 

The Golden Compass

The Golden Compass (Gyllti áttavitinn) er fyrsta bókin í ævintýralegri trílógíu Philip Pullman um hina ungu Lýru og ævintýrin sem hún lendir í. Hollywood-mynd var gerð eftir henni sem kom út árið 2007 og skartaði frægum leikurum á borð við Nicole Kidman og Daniel Craig. En allt kom fyrir ekki, kvikmyndin hitti ekki í mark hjá aðdáendum bókanna. BBC framleiddi nýverið þætti byggða á sögunni sem hafa hlotið góðar undirtektir, en ég á ennþá eftir að kynna mér þá.

 

The Time Traveler’s Wife

The Time Traveler’s Wife er yndisleg, rómantísk saga eða það fannst mér að minnsta kosti þegar ég var unglingur og las hana. Sagan segir frá manni sem getur ferðast fram og til baka í tíma og sambandi hans við listamanninn Clare. Mér fannst eitthvað vanta í kvikmyndina sem Eric Bana og Rachel McAdams léku aðahlutverkin í, kannski var viðfangsefnið bara of flókið fyrir hefðbundna rómantíska kvikmynd.

Ef til vill er best að taka fram að einungis var hér fjallað um bækur sem ég hef lesið (nema Sense and Sensibility) og kvikmyndir byggðar á þeim sem ég hef séð því kemur fjöldi bóka ekki fyrir sem hafa hlotið góða meðferð á hvíta tjaldinu, t.a.m. Lord of the Rings.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...