Rithornið: Þykjustuást

Þykjustuást

Eftir Gunnhildi Jónatansdóttur

 

I

Nóttin er hvít og ilmar af fögrum fyrirheitum um viðþolslausa hamingju og glænýja eftirsjá. Þær eru tvær í slagtogi gegn heiminum og skora á hann að skemmta þeim. Þær eru ungar, enn hefur veröldin ekki valdið þeim varanlegum vonbrigðum, enn hafa þær ekki verið fjötraðar af lífinu. Einhvers staðar þarna úti halda ævintýrin til, hver einasta taug í líkama þeirra ískrar í samhljómi við þetta eitthvað sem bíður þeirra, þetta sem þær vita ekki alveg hvað er en þrá af öllu hjarta.

Þær spyrjast fyrir, kalla út í tómið, hvar er tilveran í kvöld? Á skemmtistað niðrí bæ hefur heimsendir skotið rótum. Fullkomið. Þar sem tilverunni sleppir verða ævintýrin til. Þær skella sér í heimsendagallann og halda út í hvítamyrkrið.

Um leið og þær ganga inn faðmar alltumlykjandi kolbikasortinn þær að sér. Myrkraverur flögra um í algleymi og bjóða þær velkomnar. Hér eiga þær heima. Hér geta þær djöflast og eitt andartak fengið útrás fyrir lífsorkuna sem annars myndi sprengja þær í tætlur. Hér gæti heimurinn farist án þess að nokkur tæki eftir því. Þær grípa sem snöggvast í hönd hvor annarrar til að fullvissa sig um að sama hvað gerist séu þær ekki einar, aldrei einar.

Þær standa við barinn og dreypa á slæmum ákvörðunum. Einhver hefur mætt með útfjólubláa málningu sem gengur manna á millum. Þær mála á sig líffæri, bein, vöðvamassa, allt það sem býr innra með þeim og enginn fær að sjá. Tónlistin dynur í takt við stílfærð hjörtun í þeim. Ljósin sem sjást ekki lýsa upp sveiminn á dansgólfinu sem iðar og hlykkjast eins og ein stór lífvera og bíður þess eins að éta þær upp til agna. Sjálfviljugar gefa þær sig sveiminum á vald, týnast og finnast aldrei framar. Halda samt hvor í aðra. Týnast saman.

Ég elska þig, segir önnur.

Þú ert það besta sem ég á, segir hin.

Og það er satt.

 

Þegar á líður leita þær í ferska loftið. Í reykjarhulu í forgarði heimsenda finna þær skjól meðal annarra týndra sála. Talið berst að hinu og þessu, öllu og engu. Önnur þeirra missir fljótt áhugann, eirðarlaus í sínum beinum. Hún veit þegar allt um ekkert og ekkert um allt, þráir eitthvað allt annað. Hún skannar fordyrið. Úti við vegg stendur skuggi í mannsmynd með útfjólublátt djöflaglott á vör. Hann beygir sig yfir sígarettuna sína eins og hann sé ósáttur við að hún geti ekki faðmað hann á móti. Hann lítur að lokum upp og mætir augnaráði hennar, það glampar á hvítar tennur bakvið ámálað glottið. Þau þekkjast strax án þess að þekkjast. Hún gengur til hans.

Hæ.

Hæ.

Þarna ertu þá.

Já, hérna er ég.

Komdu að dansa.

Skugginn svarar ekki heldur glottir enn breiðar og fleygir frá sér hálfreyktri sígarettunni sem er löngu hætt að elska hann. Hann heldur dyrunum opnum fyrir henni, eltir hana svo inn.

Hin horfir á eftir þeim og brosir, veit hvað er í vændum. Samgleðst. Snýr sér svo aftur að týndu sálunum sínum og tekur upp þráðinn að nýju. Sleppir henni. Missir hana samt ekki. Missir hana aldrei.

 

Inni hefur ekkert kólnað í glæðunum, síður en svo. Hitinn sem stígur upp af dansgólfinu bræðir þau saman, hana og skuggann. Þau stíga dans, tvær manneskjur í einum líkama, samtvinnaðar í dynjandi takti og hnausþykkri glitrandi móðu. Myrkraverusveimurinn ærslast allt í kringum þau, þau týnast og finnast aldrei framar.

 

II

Daginn eftir vaknar hún í ókunnu rúmi. Það er dúnmjúkt og hefur gleypt hana í heilu lagi. Hún berst hetjulega úr greipum þess og fellur beint í útrétta arma skuggans. Hann er þegar vaknaður og stendur vörð um hana, djöflaglottið skáhallt og hálfbráðnað framan í honum. Hún lítur niður og sér að hjartað í henni hefur skekkst um nóttina. Hér eru engar myrkraverur lengur. Enginn heimsendir. Ekkert til að fela sig bakvið.

Það er skilafrestur á okkur, segir hún eftir þónokkra þögn.

Ég skil, segir hann. Hvenær rennum við út?

Hún hugsar sig um. Á morgun?

 

Hann kinkar kolli. Þau þurfa að nýta tímann vel. Hún tekur af skarið.

 

Fáum okkur kaffi, segir hún.

Ókei, segir hann og skenkir í bolla.

Fáum okkur reyk, segir hún.

Ókei, segir hann og tendrar tvær sígarettur.

Verum ástfangin, segir hún.

Ókei, segir hann og horfir djúpt í augu hennar áður en hann kyssir hana.

 

Allan daginn láta þau eins og fólk. Þau fara í gönguferðir eins og fólk. Þau leiðast eins og fólk. Hann kynnir hana fyrir vinum sínum eins og fólk. Hún segir honum frá fjölskyldunni sinni eins og fólk. Þau hlæja saman eins og fólk. Á barnum um kvöldið fá þau ekki afgreiðslu því þau geta ekki hætt að kyssast. Eins og fólk.  Eitt augnablik líður þeim eins og fólki. Eitt augnablik sem endist í sólarhring. Heilan sólarhring og ekki meir.

 

Skilafresturinn fer að renna út, segir hún.

Þau liggja í mannæturúminu og haldast í hendur. Sólin sem aldrei sest teygir anga sína inn um gluggann.

Ég þarf að koma mér heim, segir hún.

Vertu lengur, segir hann.

Nei, segir hún, samt hálfhikandi. Nei.

Hann snarar sér fram úr og dregur hana á fætur.

Dönsum fyrst, segir hann.

Þau dansa. Þau dansa eins og englar. Eins og rúmið sé ský og svefnherbergið sé himnaríki sem endist um aldir alda. Eins og sorg og gleði séu ekki til, óþekktar tilfinningar, skipti ekki máli. Hann sveiflar henni í kringum sig, setur aðra hönd á mjóbakið á henni og dýfir henni.

Ah! æmtir hún, frosin, hálfhlæjandi, þorir ekki að hreyfa sig. Ekki missa mig!

Hann hallar sér yfir hana, stekkur ekki bros.

Ég mun aldrei missa þig.

 

III

En hún fer. Kemur sér heim. Hvít nóttin verður að hvítum degi og hún situr og hugsar sitt.

Síðar um daginn bankar hin upp á.

Er ég að trufla?

Aldrei.

Þær fá sér kaffi og setjast út á tröppur. Raddir þeirra eru rámar af nýfenginni lífreynslu, enn ein helgin að baki, eirðarleysinu hefur verið brynnt um stundarsakir. Það á samt eftir að taka sig upp aftur, það er ekkert leyndarmál. En í merkingarleysi morgundagsins heldur það sig í skefjum, leyfir þeim að anda, gefur þeim tóm til að njóta augnabliksins sem hverfur alltof hratt í móðu lífsins. Hlýir geislarnir lýsa upp týndar sálir þeirra, þær horfa beint í sólina, hundsa allar viðvaranir úr æsku, þær geta allt og mega allt. Lífið hefur enn ekki kennt þeim eina einustu lexíu, þær eru frjálsustu lífverur sem til hafa verið.

Manstu þegar …, segir önnur.

Og þegar …, segir hin.

En eftir að ég fór? spyr önnur.

Allskonar, segir hin.

Myndbútar helgarinnar líða ljóslifandi fyrir augunum á þeim, þær skiptast á að teygja sig fram og fiska spriklandi síli úr hafstraumi minninganna sem streymir hjá þarna úti á tröppum. Þær japla á þeim, rífa þau í sig, fjörefni fyrir sálina, fjörefni fyrir hjartað. Allt fór eins og það átti að fara, auðvitað. Allt er alltaf fullkomið. Hvað gæti ekki verið fullkomið í allri þessari sól, í öllu þessu lífi?

En skugginn …? spyr hin að lokum.

Já, skugginn …, andvarpar önnur.

Rann hann út?

Hann rann út.

En var hann …?

Hann var dásemd, segir önnur.

Dásemd, segir hin og tekur um axlir annarrar.

 

Sólin líður saumlaust um himinhvelfinguna, marga hringi, heil eilífð líður og áfram sitja þær og hin heldur utan um axlir annarrar. Sólin hnígur eitt augnablik, rétt eins og til að minna á sig, spyrnir svo tábroddi í sjóndeildarhringinn og stekkur aftur af stað. Þær eru einar í heiminum, samt ekki einar, aldrei einar.

Gleymum öllu öðru, segir önnur.

Munum bara þetta, segir hin.

Allt annað er gleymt, allt annað skiptir ekki máli. Sólarlagið sem ekki er sólarlag er brennt í minni þeirra og þær hafa enga þörf fyrir að vera fólk. Saman eru þær meira en fólk. Saman eru þær heimurinn.

 

Ég elska þig, segir önnur.

Þú ert það besta sem ég á, segir hin.

Og það er satt.

 

 

 

[hr gap=”30″]

 

Gunnhildur Jónatansdóttir er þýðandi og ritlistarnemi við Háskóla Íslands. Textar eftir hana hafa birst í Tímariti Máls og menningar, jólabókum Blekfjelagsins og smásagnasafninu Það er alltaf eitthvað (2019).

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...