Í einangrun í Blokkinni

Handritið sem hlaut Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár var Blokkin á heimsenda eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur. Bókin segir frá Dröfn sem fer í frí á Eyjuna með fjölskyldunni. Á Eyjunni býr amma hennar ásamt hinum tæplega 200 íbúum Eyjunnar í einni blokk. Samfélagið er mjög einangrað, það er ekkert símasamband, veðurvíti varnar ferju aðgang frá hausti fram í maí. Það er því ekki auðvelt líf að búa á Eyjunni. Þegar Dröfn kemst svo að því að hún og fjölskyldan hennar hafi tekið síðustu ferjuna til Eyjunnar missir Dröfn nær móðinn. Þegar hlutir fara svo að hverfa fer íbúum Blokkarinnar að gruna nýbúana um græsku.

Arndís hefur áður sent frá sér tvær barnabækur; Nærbuxnaverksmiðjuna og Nærbuxnanjósnararnir. Einnig hefur hún sent frá sér unglingabókina Játningar mjólkurfernuskálds. Hulda Sigrún hefur verið stórtæk á enskum markaði hefur sent frá sér fjórar unglingabækur. Bækurnar hafa svo verið þýddar á  þýsku, frönsku, portúgölsku, kóresku og mandarín. Hún hefur líka hlotið fjölda viðurkenninga og tilnefninga fyrir verk sín. Lestrarklefinn óskar hér með eftir því að bækur Huldu verði þýddar yfir á íslensku svo íslenskir lesendur geti notið verka hennar.

Kommúnan í Blokkinni

Blokkin er afskaplega sérkennilegur staður. Þar er allt til alls, en enginn lúxus. Íbúar þurfa að framleiða rafmagn sjálfir með æfingahjólum, hver íbúi hefur sitt starf, allir hjálpast að. En það er erfitt að komast inn í samfélagið og læra á það eins og Dröfn kemst fljótt að. Í þokkabót er Amma Eyja (sem heitir í raun Bríet) alls ekki eins og ömmur eiga að sér að vera. Hún er ekki hugguleg, hún býður Dröfn ekki súkkulaði, gull og græna skóga. Nei, hjá ömmunni er Dröfn bara krakkinn sem hefur ekkert notagildi og á erfitt með að aðlagast. Amma Eyja er Húsvörðurinn í Blokkinni, hlutverk sem er eins og bæjarstjóri eða einræðisherra (það fer svolítið eftir því hvernig á það er litið). Allir hafa sitt hlutverk innan samfélagsins, allir eru mikilvægir, svo koma nýbúanna riðlar svolítið skipulaginu. Þegar fram líður sannar fjölskyldan sig þó og fær sinn stað á hænsnaprikinu, eftir smá fjaðrafok.

Sjónarhorn barnsins

Sagan er sögð út frá sjónarhorni Drafnar, sem á mjög erfitt með að aðlagast þessum breyttu aðstæðum. Hægt og rólega fer hún þó að sjá það góða við að búa á Eyjunni, þótt hún sættist mjög seint við nýja dvalarstaðinn/heimilið. Til dæmis fer hún að sjá hve óskaplega óvistvæn tilvera fjölskyldunnar hafði verið á meginlandinu. Loftslagsmál eru visst þema í bókinni, án þess að það sé prédikað mjög staðfast.

Þegar maður veltir fyrir sér hugmyndinni um Blokkina, þá er hún ekkert svo klikkuð. Á heimasíðu bókarinnar, þar sem meðal annars er hægt að nálgast kennsluefni, segir að hugmyndin eigi rætur að rekja til blokkar í bænum Whittier í Alaska. Heilt samfélag ákveður að búa saman í blokk og þreyja veturinn saman, þetta er ekki svo klikkað! En minnir óneitanlega á kommúnu á hippatímanum eða samyrkjubú í Sovétríkjunum.

Dröfn þarf að endurhugsa líf sitt. Hún er vön miklum nútímaþægindum, notar raftæki óspart og borðar mikið af Kindereggjum. En í Blokkinni þarf hún að hugsa alla sína neyslu upp á nýtt. Innfluttur matur er dýr, matvinnsla fer að mestu leiti fram á Eyjunni og ef eitthvað bilar þá er ekkert víst að það sé hægt að fá nýtt strax. Sparneytni er dyggð! Þannig koma höfundarnir að hugsunum um neyslu nútímamannsins inn í söguna. Á Eyjunni hafa veturnir líka farið harðnandi með árunum, vegna loftslagsbreytinga. Allt flóir í rusli í fjörunni en samfélagið á Eyjunni tekur höndum saman til að berjast gegn þessu. Saman gæta þau Eyjarinnar, líkt og við þurfum að gæta jarðarinnar.

Gulrótin í byrjun bókarinnar

Í byrjun er Dröfn föst uppi á lofti einhvers staðar. Hún kemst ekki burt og einhver stendur vörð um hana. Þetta vekur vissulega áhuga lesandans strax. Þar kemur líka fram að pabbi hennar er í fangelsi. Það hljómar eins og eitthvað hrikalegt hafi átt sér stað! Ég beið mjög lengi eftir að komast að því hvað hefði gerst og þegar ég var hálfnuð með bókina hafði enn ekkert komið í ljós sem varpað gæti ljósi á þessar dularfullu aðstæður Drafnar í byrjun bókarinnar. Ég hefði haldið að söguþráðurinn hvíldi að mestu leiti á þessum atburði en svo var ekki að mínu mati. Í staðinn er miklu púðri eytt í að tala um lífið í Blokkinni, aðlögun Drafnar að samfélaginu og sambandi Drafnar við ömmu Eyju.

Þar með er ekki sagt að bókin hafi fallið mér illa, hún hefði bara mátt vera örlítið meira spennandi. Hlutir hverfa í Blokkinni og það er dularfullt og greinilegt að einhver í Blokkinni er glæpamaður sem vill öðrum illt. Einhver sem gerir sér grein fyrir hve lítið má út af bregða til að stórhætta skapist fyrir íbúa Blokkarinnar. Þar er búið að leggja upp frábært efni, þar sem Dröfn hefði getað rannsakað hvarf hlutanna, komist að leyndarmálum íbúanna, lent í honum kröppum og svo margt annað. En efnið er látið óhreift þar til í blálok bókarinnar. Ég hefði viljað sjá hana komast að einhverju stórkostlegu í hlutverki sínu sem Sendiboði. Vissulega komst hún að ýmsu en það hefði mátt gera meira úr því. Það hefði mátt byggja upp meiri spennu í gegnum bókina.

Ævintýraleg og full af húmor

Bókin er vel skrifuð og ég velti því stundum fyrir mér hvort hægt væri að sjá mismunandi ritstíl, þar sem höfundarnir eru tveir. Samfellan í bókinni er þó algjör og engin leið að sjá hvor skrifaði hvað. Bókin er skrifuð með miklum húmor og þótt maður finni fyrir smá samkennd með Dröfn og vorkenni henni, þá eru viðbrögð hennar svolítið spaugileg og maður kemst ekki hjá því að flissa smá. Boðskapur bókarinnar er sterkur en aldrei fannst mér honum vera þröngvað upp á mig, sem mér finnst kostur.

Hugmyndin um Blokkina er stórskemmtileg og amma Eyja er undarlega heillandi á sinn hryssingslega hátt. Endir bókarinnar kom nokkuð á óvart og var virkilega skemmtilegur. Bókin fær lesandann til að hugsa um neysluvenjur og hve margt við tökum sem gefnu. Ég efast ekki um að fjölmörg börn eigi eftir að sökkva sér ofan í samfélagið í Blokkinni, hneyklast yfir hryssingslegri ömmu og aðlagast samfélaginu með Dröfn. Bókin er ævintýralega skemmtileg og húmorinn skín í gegn á hverri síðu.

 

 

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...