Rithornið: Ferðalag vorlaukanna

Ferðalag vorlaukanna

Eftir Tómas Zoëga

 

Einn áhugaverðasti viðburður ársins á sér stað á vorin. Þetta er viðburður sem margir kannast við en flestir missa af; ferðalag vorlaukanna.

Þegar apríl gengur í garð er sólin komin svo hátt á loft að svellbunkar vetrarins eru horfnir. Víðast hvar er frost farið úr jörðu og rigning tekin við af hagli og slyddu. Það er þá sem fyrstu merki vorsins láta á sér kræla. Djúpt inni í bakgörðum og í skjóli þéttra trjáa fara litlir laukar að skjóta upp kollinum. Þeir hafa legið í dvala allan veturinn með mæðrum sínum en nú er kominn tími til að leita sér að nýjum heimkynnum. Einn af öðrum klöngrast þeir upp úr moldinni og svo rúlla þeir af stað.

Ég vakna fyrir allar aldir einn dimman vormorgun og geri mér ferð niður í skógrækt borgarinnar þar sem ég veit að áhugafólk um ferðalag laukanna er samankomið. Veðrið er milt og það er súld í lofti. Ég er með regnhlíf og í gönguskóm en þeir verða fljótt gegnblautir. Flestir aðrir eru forsjálli og koma útbúnir stígvélum og regnfötum.

„Það þýðir ekkert annað,“ segir Sigurbjörn Sveinsson sem hefur fylgst með laukunum á hverju ári í næstum hálfa öld. „Maður þarf stundum að bjarga litlu gaurunum upp úr pyttum og þá veður maður drulluna oft upp í klof.“

Sigurbjörn hefur greinilega lent í einhverju í þeim dúr fyrr um morguninn því hann er moldugur upp fyrir höfuð.

„Já, það lenti hópur í sjálfheldu á leiðinni yfir skurð. Við þurftum að hjálpa þeim að komast upp á bakkann hinu megin,“ svarar hann þegar ég spyr.

Í sama mund er nafn Sigurbjarnar kallað og hann afsakar sig. Það er víst nýr hópur lauka á leiðinni. Til að byrja með tek ég ekki eftir neinu en svo sé ég þá. Fyrst birtist einn undan rytjulegum garðhegg, svo annar og loks heil hersing. Áhugafólkið reynir að beina þeim í rétta átt, frá því að rúlla út á götu eða ofan í drullupolla, en það lítur út fyrir að vera hægara sagt en gert.

„Þeir eru svolítið þrjóskir,“ segir Anna, nemandi og íbúi í nágrenninu. „Ef þeir eru á leiðinni eitthvert þá er erfitt að fá þá til að skipta um skoðun. Og það þýðir ekkert að reyna að skófla þeim þangað sem maður vill að þeir fari.“

Ég spyr hvað hún eigi við með því.

„Sko, ef maður er með einhvern þjösnaskap þá verða þeir alveg ruglaðir í ríminu og villast út um allar trissur. Þeir gætu meira að segja tekið upp á því að stoppa og gróðursetja sig

á staðnum. Jafnvel þó það væri úti á miðri götu. Það verður að fara blíðlega að þeim,“ segir Anna og sýnir mér hvernig best er að bera sig að.

Hún leggur hrífuskaft í leið eins lauksins sem stefnir rakleitt út á bílaplan. Laukurinn stansar og eftir, að því er virðist, stutta umhugsun rúllar hann aftur af stað. Í þetta sinn burt frá allri hættu. Innan skamms hverfur hann inn í blómabeð í öruggt skjól.

„Svona, það þýðir ekkert að vera með nein læti.“

Ég þakka Önnu fyrir sýnikennsluna og leyfi henni að halda starfi sínu áfram í friði. Skammt undan virðist hópur af fólki fylgja annars konar hugmyndafræði. Þar eru háfar og þvottabalar notaðir til að ferja laukana yfir hættuleg svæði í massavís.

„Stundum verður bara að bretta upp ermarnar og gera það sem gera þarf,“ segir kona með skóflu í hendi. „Ef við ætluðum að sjá um hvern lauk fyrir sig þyrftum við að fá hálfa borgina í lið með okkur.“ Svo hellir hún sér aftur út í moksturinn áður en mér tekst svo mikið sem nappa af henni nafninu.

En þó fólk hafi ólíkar skoðanir á því hver besta leiðin til að nálgast þetta verk sé eru allir sammála um eitt:

„Við viljum bara að laukarnir komist heilu og höldnu yfir í næsta blómabeð,“ segir Sigurbjörn Sveinsson. „Það er það eina sem skiptir máli.“

Upp úr klukkan sjö fer að tínast úr hópnum þegar áhugafólkið heldur til vinnu og skóla. Um svipað leiti er laukaflóðið í rénun þó enn megi búast við einum og einum á stangli. En hvers vegna eru laukarnir aðallega á ferðinni svona snemma morguns? Ég ráðfæri mig við Elke Zwiebelmann, vísindakonu við líffræðistofnun háskólans.

„Satt best að segja þá er það ekki alveg á hreinu,“ segir hún. „Líklegasta skýringin er þó sú að þessi tími milli fjögur og fimm í morgunsárið er yfirleitt sá rólegasti innan borgarmarkanna. Þá er morguntraffíkin ekki komin af stað og laukarnir verða ekki fyrir jafn miklu áreiti.“

Ég sest undir grenitré í skjól fyrir súldinni og fylgist með síðustu laukunum rúlla hjá þegar nýr hópur nálgast. Það eru ekki laukar í þetta skipti heldur krakkar úr leikskólanum Dvergasteini og kennarar þeirra.

„Okkur finnst mikilvægt að krakkarnir fái að kynnast því sem á sér stað í náttúrunni í kringum þau,“ segir Hákon leikskólakennari. „Það þarf ekki að fara alla leið út í Amasónfrumskóginn eða Namibeyðimörkina til að sjá eitthvað merkilegt. Það þarf ekki einu sinni að fara út fyrir bæjarmörkin. Ef maður hefur augun opin nægir að fara út í garð til að vera staddur í ævintýraveröld.“

Það er sannleikskorn til í því.

Þar sem ég er orðinn blautur og kaldur og flestir laukarnir komnir á leiðarenda þennan daginn segi ég vaktinni lokið og held heim á leið í heita sturtu. Ég hvet alla til að gera sér ferð út einhvern morguninn og fylgjast með ferðalagi vorlaukanna. Ef ekki núna í vor þá á næsta ári. Það verður vel þess virði.

Jæja, þá læt ég þetta gott heita að sinni. Verið þið sæl.

 

[hr gap=”30″]

 

 

Tómas Zoëga er háskólanemi sem skrifar stundum sögur á kvöldin og um helgar. Árið 2019 fékk hann sína fyrstu barnabók, Vetrargesti, útgefna hjá hljóðbókaforlaginu Storytel.

Lestu þetta næst

Að rækta garðinn sinn

Að rækta garðinn sinn

Nýverið kom út íslensk þýðing Kristínar Jónsdóttur á skáldsögunni Vatn á blómin eftir franska...

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...