Ormétið pauf – Veröld sem var eftir Stefan Zweig

Eins og kannski sást á pistli mínum um Töfrafjallið sem ég birti hér um daginn, þá er ég með visst æði fyrir ákveðnu bókmenntatímabili þessa dagana – lokaárum 19. aldar og upphafsárum þeirrar 20., þ.e. þess tíma sem stundum er nefndur „fagra tímabilið“ upp á frönsku, la belle époque, og svo ekki síst hrunsins sem átti sér stað eftir þetta tímabil þegar heimsstyrjöldin hófst og nýir, ljótari tímar gengu í garð. Stuttu eftir að ég birti pistilinn um Töfrafjallið heyrði ég í útvarpinu að Veröld sem var eftir Stefan Zweig (1881-1942) væri bók vikunnar á Rás 1, bók sem fjallar einmitt um þetta tímabil, og ég var af einhverjum ástæðum ekki búinn að lesa. Ég nýtti mér því eina af nýlundum covid-tímans, pantaði íslensku þýðinguna af bókinni á netinu og lét senda mér heim, og hóf spenntur lesturinn. Ég varð í stuttu máli sagt fyrir vonbrigðum.

Veröld sem var kom út á frummálinu, þýsku, árið 1942 en á íslensku árið 1958, í þýðingu Halldórs J. Jónssonar og Ingólfs Pálmasonar. Bókin er sjálfsævisaga Zweig, sem var á sínum tíma einhver mest seldi rithöfundur heimsins. Þetta sést til dæmis á þeim ótrúlega fjölda bóka, smásagna og ævisagna sem hafa verið þýddar eftir hann á íslensku – það eru fleiri tugir, og enn eru fleiri að koma út. Þannig er nafni Zweigs haldið ágætlega á lofti á Íslandi í dag, en það er mikil undantekning á heimsvísu. Þótt á sínum tíma hafi Zweig verið heimilisvinur víða, sérstaklega fyrir gríðarlega vinsælar ævisögur sínar um þekktar persónur í sögunni, svo sem Maríu Antoinette og Erasmus, þá er Zweig í dag víðast hvar gleymdur.

Zweig sem ungur maður.

Og það skilst af hverju. Skrif hans eru mikið byggð á nú fremur úreltum freudískum hugmyndum um bælingu og útrás, þau eru rígbundin við hans eigin þjóðfélagsstétt, þ.e. auðuga, mið-evrópska borgarastétt, og tengjast okkar nútímavæddu veröld lítið. Það er einmitt harmleikurinn í Veröld sem var, þar sem Zweig lýsir þeim heimi sem hann ólst upp í en telur horfinn með öllu í kjölfar tveggja heimsstyrjalda, svo að fáir geti yfirleitt lengur skilið hverjir menn eins og hann hafi eiginlega verið. Þannig þarf ekki að koma á óvart að Veröld sem var endar á sjálfsmorði Zweig – aftast í íslensku þýðingunni er birt sjálfsmorðsbréf hans og eiginkonu hans. Þau tóku banvænan lyfjaskammt saman í Brasilíu árið 1942, þar sem hjónin höfðu flúið undan seinna stríði.

Harmsaga, sannarlega. En harmsaga sem vekur spurningar. Það skilst svosem vel að Zweig hafi ákveðið að taka sitt eigið líf, enda segir Veröld sem var ágætlega frá því hversu vonlaus hann var um velferð heimsins eftir stríð. En af hverju dó eiginkona hans, Lotte Altmann, með honum? Hún var aðeins 34 ára, en Zweig var 61; hún átti framtíðina fyrir sér, þótt hann dæi frá henni. Hin hefðbundna söguskoðun er að hún hafi talið sig ekki geta lifað án hans, en slík afstaða er þegar allt kemur til alls svo órökrétt að manni hættir til að trúa því að hún sé tilkomin af einhverskonar þvingun. Til er bein hliðstæða nokkrum áratugum síðar, árið 1983, þegar hinn ungverski (en þýskumælandi) höfundur Arthur Koestler framdi sjálfsmorð ásamt eiginkonu sinni Cynthiu, sem var þá 55 ára en hann 78. Í tilfelli Koestlers, en ekki Zweigs, hefur því verið velt upp hvort Koestler hafi mögulega neytt eiginkonu sína til að gera það sem hún gerði. Af hverju er það sama aldrei sagt um Zweig? Kannski er skýringin ofar öllu sú að á meðan Koestler var höfundur sem virtist anda frá sér hörku var Zweig svo passívur að honum verður varla lýst öðruvísi en sem gufu.

Zweig og nafnlausa eiginkonan, Lotte Altmann.

Þetta kemur skýrt fram í ævisögunni. Zweig lýsir uppvexti sínum í forríkri, borgaralegri fjölskyldu í Vín, þar sem menntun og menning var gerð að slíkri dyggð, slíku ofurtakmarki, að það jaðrar við að vera hneykslanlegt fyrir nútímamanninum. Zweig dregur ekkert undan lýsingum sínum á því hvers konar guðir rithöfundar og skáld voru fyrir sér og sínum líkum í hinum betri stéttum, en á fólk af lægri stéttum er nær aldrei minnst í bókinni. Reglulega er alhæft um hvað „öllum“ hafi fundist – en alltaf er átt við hina ríku, og það mestmegnis ríka karlmenn. Það eru á að giska tvö eða þrjú kvenmannsnöfn í allri bókinni (og ekkert þeirra tilheyrir eiginkonum hans tveimur), en þegar kemur að karlmannsnöfnum – ég hef aldrei séð annað eins: Zweig er name-dropper af guðs náð. Hann treður að á næstum hverri síðu hvaða fræga fólk hann hafi hitt, lesið, dáðst að; Freud, Franz Ferdinand, H.G. Wells, Thomas Mann, Richard Strauss og fleiri og fleiri sem ekki eru lengur nafnkunnir í dag. Zweig lýsir því á allt að því vandræðalega upprifinn hátt hvernig hann dýrkaði og tignaði þessa menn, þessa karlmenn, þessa andans menn, og talar lengi um hvernig hann safnaði hlutum sem þessir menn hefðu snert eða skilið eftir sig; hann safnar borðum, stólum, legubekkjum sem rassar þeirra höfðu blessað með kinnum sínum; hann safnar pennum, vindlingaboxum, og ofar öllu hinum helga gral: handritum þessara snillinga. Hann á nótnablöð með hendi Beethovens, hann á kvittanir frá Baudelaire…

Þessi hjákátlega, undurbljúga aðdáun Zweigs á öðrum er gegnumgangandi í verkinu og myndi vera til marks um lítillæti ef ekki væri einhver lúmskur belgingur undir niðri. Hann er ofar öllu að segja: sjáðu mig, sjáðu hverju ég hafði efni á, hversu duglegur ég var að safna, hvílíkt aðgengi ég hafði að menningarelítunni! Zweig lætur eins og honum þyki lítið til eigin ritverka koma miðað við verk snillinganna sem hann dáðist að, en tekur samt skýrt fram hversu gríðarlega vel verk hans seldust, hversu víða hann gat ferðast til að kynna þau og hversu gaman honum þótti að sjá eigin nafn í gluggum bókabúða allra landa. Þar til stríðið kom og batt enda á allt.

Harmleikurinn þegar hinn frjálslyndi heimur fyrirstríðsáranna hrundi til grunna er vissulega átakanlegur í bókinni. En hér vakna engu að síður upp efasemdir um heiðarleika höfundarins. Þegar stríðið braust út þustu rithöfundar á síður dagblaðanna til að lýsa yfir stuðningi við málstað eigin þjóðar, sömdu níðkvæði um nágrannalöndin og höfnuðu öllum sínum vinum úr rithöfundastétt sem lentu röngum megin við skotgrafirnar – allir nema Zweig (eða svo segir hann). Zweig var friðarsinni og hélst friðarsinni, hann hafnaði vopnaskakinu, fluttist til hins hlutlausa Sviss og hélt sambandinu við sína frönsku vini. Hetja – eða hvað?

Í grein í London Review of Books frá 2010 tekur þýsk/enskur höfundur að nafni Michael Hoffman Zweig og Veröld sem var til bæna. Bókinni lýsir hann sem „vermicular dither“, baneitruð einkunn sem kannski mætti þýða sem „ormétið pauf“. Hoffman bendir á að lýsingar Zweigs á sínu eigin hugrakka hlutleysi og friðarstefnu í stríðinu hafi í raun verið ýktar eða upplognar. Þvert á móti birti Zweig greinar og bréf sem er ekki hægt að líta á sem annað en stuðningsyfirlýsingar við stríðið, þar sem hann talar um „hatrið“ gegn Frökkum sem hann kjósi að „reyna ekki að hemja, því það ber með sér sigra og hetjulegan styrk“. Hann aðvaraði í opnu bréfi vini sína úr franskri rithöfundastétt: „Ekki búast við því að ég tali ykkar máli, sama hversu mjög mér kann að finnast það skylda mín! Virðið þögn mína, rétt eins og ég virði ykkar!“

Þessu svaraði einn (fyrrum?) vina Zweigs, franski höfundurinn Romain Rolland, sem raunverulega tók hetjulega friðarsinnaða afstöðu í stríðinu. Hann sendi Zweig örstutt bréf þar sem hann sagðist „fyrir mína parta aldrei munu afneita vinum mínum“. Zweig birtir þetta bréf í Veröld sem var og lætur eins og það sé til marks um aðdáun Rollands á sér og óslítanleg vinatengsl þeirra beggja. En hann segir ekki frá samhengi bréfs Rollands, segir ekki frá greinaskrifum sínum um stríðið, sem Rolland var þarna að svara. Og það breytir algjörlega merkingu bréfsins; Rolland var að ávíta og ásaka Zweig.

Þetta nægir Hoffman til að kalla Zweig „rotinn í gegn“ (að ekki sé talað um eftirfarandi lýsingu: „Zweig er einfaldlega falskur á bragðið. Hann er Pepsí austurrískra bókmennta“). Þótt þar sé djúpt í árinni tekið, þá verður að segjast að Zweig kemur ekki vel út úr eigin sjálfsævisögu. Zweig stærir sig af því að vera frelsaður í kynferðismálum (hann hefur sko lesið Freud – sem hann hitti, vel á minnst, oft, og safnaði örugglega nærbuxum af honum), en svo á hann ekki orð yfir því ógeði sem kynvillingarnir í Berlín Weimar-áranna ollu honum; hann styður að eigin sögn frelsisbaráttu kvenna, en nennir ekki einu sinni að greina frá nöfnum eiginkvenna sinna tveggja í sjálfsævisögunni; hann er friðarsinni og mannvinur, en svíkur svo Romain Rolland; og svo er það þetta með tvöfalda sjálfsmorðið.

Þótt mörg lesendabréf hafi borist til London Review of Books frá Zweig-aðdáendum sem mótmæltu grein Hoffmans – samtökunum „International Stefan Zweig-Society“ var ekki skemmt – þá lendi ég hans megin en ekki þeirra eftir lestur Veraldar sem var. Zweig birtist þar sem óþolandi persóna og fölsk, tilgerðarleg og leiðinleg, úr takti bæði við eigið umhverfi og okkar í dag. Ég get eiginlega ekki komist að annarri niðurstöðu en að vinsældir bókarinnar á Íslandi séu ofar öllu út af því hversu ljóðrænn íslenski titillinn er; þar gerðu þýðendurnir Zweig greiða, en nafn bókarinnar á frummálinu er einmitt táknrænt fyrir öll verstu einkenni höfundar. Þar heitir hún því óbærilega leiðinlega nafni Die Welt von Gestern, „Veröld gærdagsins“.

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...