Breski höfundurinn Sam Copeland hefur skrifað þrjár bækur og eins og hann segir sjálfur, þá hótar hann því að skrifa fleiri. Tvær af þremur bókum Copeland hefur verið vippað yfir á íslensku af Guðna Kolbeinssyni. Bækurnar tvær eru Kalli breytist í kjúkling og Kalli breytist í grameðlu.

Í báðum bókunum fylgist lesandinn með Kalla McGuffin, ósköp venjulegum níu ára dreng… Eða nei, það kemur reyndar í ljós strax í fyrsta kafla fyrstu bókarinnar að Kalli er alls ekkert venjulegur drengur. Kalli breytist í dýr þegar hann býst síst við því. Það finnst honum óskaplega óheppilegt, vægast sagt. Hann ræður nefnilega ekki í hvaða dýr hann breytist. Það er til dæmis mjög óheppilegt að breytast í könguló þegar kötturinn þinn étur köngulær. Eða að breytast í mjög heillandi dúfu. Eða eitthvað stórhættulegt dýr! Eða ógeðslegt dýr… Mögleikarnir eru endalausir og Copeland er mjög óvæginn við greyið Kalla og oftast verður Kalli að einhverju mjög ólíklegu dýri. Einhverju mjög óhefðbundnu.  Í eitt skipti lendir hann meira að segja í því að vera næstum étinn af kettinum sínum!

Alvarlegur undirtónn fallinn í miklum húmor

Í fyrri bókinni, Kalli breytist í kjúkling, þarf Kalli að finna út úr þessum breytingum. Bróðir hans er veikur á sjúkrahúsi og þarf að fara í “stóra skannann” sem segir til um hvort honum sé batnað eða ekki. Fyrir fullorðinn lesanda er greinilegt að Kalli saknar bróður síns mikið og hefur gríðarlegar áhyggjur af heilsufari hans. Líklega er bróðirinn að jafna sig eftir hvíblæði eða krabbamein. Kalli gerir sér ekki grein fyrir áhyggjum sínum og þarf hjálp frá þremur bestu vinum sínum til að finna út úr þessu öllu saman. Saman gera þau tilraunir sem eru hver annarri fyndnari, meira stressandi og spaugilegar. En þó leynist alvarlegur undirtónn undir niðri.

Í Kalli breytist í grameðlu stendur fjölskylda Kalla frammi fyrir því. Illt stórfyrirtæki, sem er einmitt í eigu föður Danna, erkióvinar Kalla, hefur rænt forriti frá litlu fyrirtæki pabba Kalla. Fyrir vikið mun fyrirtæki pabba hans Kalla fara á hausinn og fjölskyldan missa heimili sitt og þurfa að flytja til Brendu frænku sem er með staurfót og á sautján ketti. Þetta þykir Kalla ekki spennandi. Fyrir utan það að það er ömurlegt að þurfa að flytja eða missa heimilið sitt! Kalli breytist því aftur í alls kyns dýr, en nú finnur hann líka að hann er að missa stjórnina. Bestu vinir Kalla þurfa að hjálpa honum að endurheimta stolna forritinu og koma illa stórfyrirtækinu um koll. En geta þau notað krafta Kalla til að hjálpa sér?

Bráðskemmtilegar myndir

Sagan af Kalla er myndlýst af Söruh Horne sem skapar listilega spaugilegar myndir í bækurnar. Hún nær að fanga kvíðasvip Kalla alveg fullkomlega. Það er ekki fyrr en seint í annarri bókinni sem kvíðakvilli Kalla er nefndur. Þannig fær Horne nægt tækifæri til að koma tilfinningum Kalla til skila í gegnum myndirnar. Það eru myndir á nær öllum síðum bókarinnar, sem gerir bókina aðgengilegri þeim sem eru nýlega byrjaðir að lesa þykkari bækur.

Kvíði meðal barna er vaxandi vandamál. Sífellt fleiri börn upplifa óöryggi í lífi sínu vegna hraðans í samfélaginu, minni samvista við foreldra og stöðugrar streitu. Það er ekkert skrýtið að sum eigi erfitt með að meðhöndla tilfinningar sínar. Bækur eins og bækurnar um Kalla sýna á myndrænan hátt hvernig kvíðinn getur tekið alveg yfir líkama og huga manneskju. Í raun breytist maður þegar kvíðinn tekur völdin, maður hættir að hugsa rökrétt. Hættir að vera maður sjálfur. Copeland setur þennann lærdóm fram á mjög spaugilegan hátt og prédikar ekki yfir lesandanum. Skilaboðin eru mjög dulin og stundum velti ég því fyrir mér hvort þau væru of dulin. En Kalli á svo samtal við vini sína um kvíða og áhyggjur og nýtir sér slökunaröndun til að ná stjórn á breytingunum. Hann reynir að hugsa um fallega hluti, fyndna og skemmtilega, til að hægja á breytingunum og tekst af og til ætlunarverkið sitt. Þannig er Kalli kominn með ofurkrafta, því hann getur breyst í og úr dýri næstum því hvenær sem hann vill (eins og áður sagði þá er Copeland mjög óvæginn við Kalla og það gengur oftast allt á afturfótunum hjá greyinu).

Bækurnar um Kalla McGuffin eru bráðfyndnar og skemmtilegar bækur uppfullar af húmor en með alvarlegum undirtón sem gefur tækifæri til umræðu um kvíðakvilla og áhyggjur.

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...