Það er með svolítilli eftirvæntingu sem fjölmörg börn hafa beðið eftir nýjustu bók Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur, Kennarinn sem hvarf sporlaust. Bergrún Íris hlaut fyrst allra Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur árið 2019 fyrir bókina Kennarinn sem hvarf. Bókinni var mjög vel tekið af bæði gagnrýnendum og lesendum og hefur frést af börnum sem ekki hafa áður viljað lesa sem lásu sér til óbóta af fyrri bókinni.

Í fyrri bókinni hverfur Bára kennari. Í byrjun eru krakkarnir ánægðir með að vera lausir við kennarann og njóta þess að hanga í símunum og slugsa allan daginn. Það fattar nefnilega enginn annar starfsmaður skólans að 6. BÖ er eftirlitslaus í skólastofunni. Þegar Gátumeistarinn fer svo að senda þeim gátur renna á krakkana tvær grímur. Er Bára í lífshættu? Hver er Gátumeistarinn? Krakkarnir taka höndum saman, leysa gáturnar og enda á að bjarga Báru kennara frá Gátumeistaranum í æsilegum áhættuatriðum þar sem raunveruleg hætta er á ferðinni. Það kemur í ljós að Gátumeistarinn er skólastjórinn þeirra sem endar í fangelsi.

Staða flóttabarna

Í Kennarinn sem hvarf sporlaust fylgjast lesendur aftur með 6. BÖ á leið í skíðaferðalag. Það er spenna í krökkunum, keppni um bestu sætin í rútunni, töffararnir á aftasta bekknum og hvískrandi stelpur. Bergrún Íris notar annan sögumann í þessari bók: Söru, sem er innflytjandi frá Albaníu og kom til Íslands vegna sjúkdóms sem litli bróðir hennar er með. Oft er innflytjendum gefið það hugarfar í bókum að þeir séu himinlifandi yfir að vera komnir til Íslands. Bergrún Íris gefur Söru ekki þær hugsanir. Sara saknar Albaníu, saknar hitans og fjölskyldu og náttúru. Það vill nefnilega oft gleymast í umræðunni að fyrir mörgum er Ísland ekkert best í heimi. Mér fannst frábært að sjá þetta sett fram á þennann hátt í barnabók. Einnig snertir hún á óöryggi sem börn innflytjenda þurfa að upplifa á meðan umsókn þeirra þeirra velkist (alltof lengi) um í kerfinu. Það er því vel dulin ádeila í bókinni á innflytjendalöggjöfina á Íslandi. Bergrún Íris reynir að flétta uppruna Söru aðeins meira inn í bókina og ég hefði gjarnan viljað vita meira um hana og fjölskyldu hennar. Bókin fer þó ekki djúpt í önnur mál og er fyrst og fremst spennusaga.

Þegar Gúgel frændi getur ekki svarað

Þegar í skíðaskálann er komið er mikill stormur og bylur úti. Um nóttina vakna krakkarnir við mikla skelli í húsinu og uppgötva að Bára kennari og Jósep, pabbi Heklu Þallar úr fyrstu bókinni, eru horfin úr herberginu sínu. Þar stendur galopinn gluggi og snjónum kyngir inn en þar finna þau líka nýja gátu. Upphefst þá mikið handapat og örvæntingin hellist yfir krakkana, enda ekki gott að vita af Gátumeistaranum úti í sortanum. Eða að hugsa til þess að Bára og Jósep séu í mikilli hættu í fimbulkuldanum. Eini fullorðni einstaklingurinn á staðnum er Rútur Rúts, rútubílstjórinn sem varð veðurtepptur í skíðaskálanum með þeim. Rútur er að krakkanna mati afgamall og úreltur gamall karl sem veit ekkert og kann bara að keyra rútur. Hann á fjölmargar bráðfyndnar línur í bókinni og er nokkurs konar kómískt mótvægi við alvarleika atburðanna.

Atburðarásin er hröð og tungumálið sem krakkarnir nota er að mínu mati mjög raunverulegt. Sama má segja um þekkingu þeirra á því hvernig leita á upplýsinga þegar ekki er hægt að spyrja Gúgel frænda. Það er nefnilega mikil þekking sem er að glatast í nútímasamfélagi og margir hafa ekki hugmynd um hvernig á að bjarga sér án snjallsímans. Þess vegna er gott að hafa einn Rút í sögunni sem getur deilt með sér þekkingu sinni – eins og hugmyndum um orðabækur og útvarpsfréttir.

Gott framhald

Bókin er spennubók fyrir börn af bestu gerð en svolítil endurtekning á fyrri bókinni. Það fer mikið púður í að halda spennunni uppi og fyrir vikið er ekki kafað eins djúpt í persónurnar í bókinni eins og gert var í Kennarinn sem hvarf. Sara er ekki eins nálæg lesandanum og Hekla Þöll var í fyrri bókinni og í raun má segja að Hekla Þöll sé eins og húsgagn í þessari bók. Hún hefur áhyggjur af pabba sínum og leysir nokkrar gátur en er annars horfin lesandanum. Einnig eru krakkarnir orðnir að stöðluðum ímyndum af töffurum, gellum og nördum og persónusköpun þeirra ekki gefið nægt rými. Ég saknaði þess að fá ekki sömu tilfinningalegu tengingu sem Bergrún Íris hefur áður náð að skapa milli sögupersónu og lesanda, eins og til dæmis í Lang-elstur bókunum.

Ekkert mun þó taka það frá bókinni að hún er hörku spennandi og mun ekki valda vonbrigðum. Aðdáendur Bergrúnar Írisar eiga eftir að gleypa í sig Kennarann sem hvarf sporlaust í einum bita og standa svo upp og biðja um meira. Bókin er þrusu spennusaga og heldur lesandanum vel við efnið.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...