Rithornið: Legolas í Hellisgerði

Legolas í Hellisgerði 

Eftir Val Áka Svansson

 

Er ekki Legolas álfur?“ spurði Elísa, tvíburasystir Nonna, mig þegar ég kom í heimsókn til hans einn dag eftir skóla.

Áður en ég gat svarað spurningunni sagði hún: 

„Komdu aðeins inn í herbergi. Þú veist svo mikið um allskonar, ég á að gera ritgerð um álfa og ég veit ekkert um álfa, geturðu hjálpað mér?“

Ég hafði aldrei verið einn með Elísu inni í herberginu hennar áður og varð smá stressaður en var samt mjög ánægður með að hún skyldi biðja mig um hjálp og bjóða mér inn í herbergið sitt. Ég og Nonni héngum yfirleitt inni í herberginu hans sem lyktaði yfirleitt af skítugum sokkum. En við stálumst stundum í bílskúrinn foreldra Nonna og Elísu, og spiluðum á flotta trommusettið sem pabbi þeirra átti og geymdi þar – en hann mátti alls ekki vita af því – það mátti enginn nema hann spila á þetta trommusett – en við gerðum það nú samt. En bara stundum.

„Ég ætlaði nú bara að athuga hvort Nonni væri til að koma út og spila körfu,“ sagði ég hikandi en bætti snögglega við: „Jú, jú,ég skal reyna að hjálpa þér.“

Það var miklu betri lykt inni í herberginu hennar Elísu – engin táfýlusokkalykt þar.

Þótt ég og Elísa og Nonni værum jafngömul og byggjum í sömu götu vorum við ekki í sama skóla – þau höfðu flutt í götuna mína um sumarið, eftir að hafa búið í hverfi sem var nokkuð langt frá mínu og þeirra núna, eiginlega alla sína ævi – og höfðu verið svo lengi í sama skólanum að þau vildu ekki skipta, allavega ekki strax.  

Ég og Nonni urðum strax góðir vinir en ég var alltaf pínu feiminn við Elísu, en vissi ekki alveg útaf hverju. Líkaði samt alveg mjög vel við hana.

„Eruð þið nokkuð að gera ritgerð um álfa líka,“ spurði Elísa mig – „þá gætir þú kannski lánað mér þína,“ sagði hún og hló hátt. 

Hlátur hennar var smitandi og hann yfirgnæfði lagið sem hún var að hlusta á, Lady Stardust með David Bowie, og líka, sem betur fer, skrítna hláturinn minn. 

Risastórt og sjúklega töff plakat af Jack Nicholson í The Shining hékk uppi á gula veggnum í flotta herberginu hennar. Kvikmynd sem ég hafði laumast til að horfa á fyrir nokkrum árum síðan og sá mjög eftir, því ég gat ekkert sofið næstu næturnar á eftir.

„Nei, við eigum að gera ritgerð um Napóleon eða Vigdísi Finnbogadóttur,“ stundi ég loksins upp úr mér þegar ég gat hætt að hlæja, „en ég er ekki byrjaður. Við þurfum ekki að skila fyrr en eftir viku.”

„Heppin þið“ – sagði Elísa – „við eigum að skila á morgun og ég er ekki einu sinni hálfnuð.“

„Úff, ég skal reyna að hjálpa þér. En ég held að það sé frekar lítil hjálp í mér – held þú verðir að treysta frekar á sjálfa þig, en mig langar rosa mikið að hjálpa þér. Sko, það er álfagarður í bænum sem heitir Hellisgerði, og er mjög fallegur, en ég hef aldrei séð álf þar. Og aldrei neinn sem er einu sinni líkur Legolas. Og, jú, hann er álfur.“

Við Elísa fórum bæði að skellihlæja en áður en ég gat sagt meira kom Nonni inn í herbergið: „Hva, þú hérna? Hvað er svona fyndið,“ spurði hann og glotti ísmeygilega. 

„Hey, ætluðum við ekki í körfu?“ sagði ég, eldrauður í framan: “Drífum okkur.”

„Ertu alveg viss um að þú viljir ekki bara vera hérna áfram og hjálpa Elísu, henni gengur víst ekkert alltof vel með ritgerðina sína,“ sagði Nonni og hætti að glotta og fór að hlæja.

„Ég er að koma – ég tók nýja boltann sem ég var að kaupa með, sjáðu, geðveikt flottur Spalding-bolti, alveg eins og er notaður í NBA,“ sagði ég og hljóp hratt út án þess að muna eftir því að fara í körfuboltaskóna en gat hvorki hætt að hlæja né hugsa um andlitið á Jack Nicholson í herberginu hennar Elísu, og ég gat bara alls ekki heldur hætt að hugsa um Elísu.

 

[hr gap=”30″]

 

Valur Áki Svansson fæddist 8. október árið 2003, og er Hafnfirðingur í húð og hár.
Valur Áki stundar klifur af miklu kappi og hefur unnið til fjölda verðlauna í íþróttinni. Hann tók meðal annars þátt í Norðurlandamótinu í klifri í fyrra. Þá spilar hann bæði á bassa og gítar og var í hljómsveitinni þegar nemendur 10. bekkjar Víðistaðaskóla  settu upp sýninguna Fútlúz í fyrra.
Valur Áki hefur gaman af skrifum og hefur alltaf sent inn smásögur í keppni grunnskólanna hér í Hafnarfirði. Fékk hann 2. verðlaun árið 2017 fyrir smásöguna Gítarleikararnir tveir.
Í dag stundar Valur Áki nám í trésmíði við Tækniskólann.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...