Rithornið: Óreiða

Óreiða

Eftir Rakel Þórhallsdóttur

 

Ég blikkaði augunum og virti fyrir mér áhyggjufullan vangasvip hennar á meðan hún talaði. Hún leit til skiptis á svartan kaffibollann og mig. Um hvað var hún eiginlega að tala? Alveg síðan ég man eftir mér hafði samband okkar tveggja verið mitt helsta forgangsatriði. Ég vissi vel hvað ég hafði verið heppinn þegar leiðir okkar lágu saman og á hverjum degi var ég þakklátur fyrir að fá að vakna við hlið hennar.

Ég hafði aðeins lokið örfáum mánuðum í félagsfræðinni þegar augu okkar mættust á stútfullum skemmtistaðnum. Hún hafði vitaskuld fangað athygli mína fyrr á göngum háskólans. Hún var ein af þessum stelpum sem gátu ekki farið framhjá manni. Burtséð frá fegurð hennar var hún óendanlega klár. Á fyrsta ári hennar í lögfræðinni hafði hún þegar hlotið hæstu meðaleinkunn sem gefin hafði verið í deildinni. Hún stýrði ræðukeppnum, mótmælum, hátíðarhöldum, og að því er virtist öllu því sem hægt var að taka sér fyrir hendur. Aldrei grunaði mig að hún liti við strák eins og mér, meðaljóni af verstu gerð sem alltaf reyndi sitt albesta til að komast auðveldlega í gegnum lífið. En þannig fór nú samt. Ég þurfti ekki langan umhugsunartíma til að sjá að hún var sú eina rétta og örfáum mánuðum síðar hafði ég farið á skeljarnar. Ég man enn hvernig hjartað barðist um í brjóstinu þegar hún kinkaði þögul og brosandi kolli og rétti fram baugfingurinn. Þvílík lukka!

En nú sátum við hér, andspænis hvoru öðru, umvafin skerandi þögninni. Hún beið eftir að ég segði eitthvað og fitlaði taugaóstyrk við rispað handfangið á bollanum. En hvað átti ég svo sem að segja?

– Jæja, hvað geturðu sagt þér til varnar Þórður? Hún sýndi mér enn og aftur þessar bjánalegu sms sendingar. Skilaboðin æptu á mig og þegar ég gat enn og aftur ekki svarað skellti hún nýja iphoninum sem ég hafði gefið henni í afmælisgjöf harkalega á viðarborðið.

– Sunneva… Loksins virtist sem raddböndin mín væru farin að virka. – Ekki trúirðu þessari vitleysu? Augu hennar skulfu á meðan hún beið eftir frekari útskýringu. Ég tók upp símann og dustaði af honum, hann var ekki brotinn.

– Ég hef aldrei, og ég meina aldrei, hitt þessa stelpu áður. Ég gaf henni tíma til að meðtaka orð mín.

 – Og hvað? Af hverju sendir hún mér þessi skilaboð? Af hverju ætti hún að ljúga þessu að mér? Rödd hennar titraði af gremju.

Ég dæsti. – Þetta hljóta að vera einhver mistök ég meina… þessi manneskja hlýtur bara að vera vitstola! Hún lokaði augunum.

 – Þórður… hún er með upplýsingar hérna um þig. Hún veit hver þú ert! Ætlarðu að sitja hérna og ljúga upp í opið geðið á konunni þinni? 

Aftur kom þögnin. Ég vissi að ekkert sem ég segði núna myndi hjálpa. Ég virti fyrir mér fínlegar hrukkur hennar undir augunum sem enn störðu á mig. Í eitt augnablik leið mér eins og skjólstæðingi hennar. Ákærður fyrir glæp sem ég framdi ekki.

Þegar ég loksins fann kjarkinn til að verja mig titraði síminn í buxnavasanum. Ég vissi að ég átti ekki að svara. Ekki núna. En ég var búinn að bíða eftir hringingu frá hjúkrunarheimilinu og þegar ég sá númerið á skjánum gat ég ekki annað. Ég lyfti upp tólinu þegjandi og beið eftir upplýsingum á hinni línunni.

-Þórður? Sæll, þetta er Anna. Ég vildi bara láta þig vita af stöðunni. Enn sagði ég ekkert. – Pabba þínum fer því miður versnandi. Það gæti verið tímabært að flytja hann á spítalann. Gott væri ef þú gætir kíkt við einhvern tímann í dag.

Ég lagði á. – Ég hérna…

Sunneva lagði andlit sitt í lófana og nuddaði augun. – Já, sagði hún á innsoginu. – Ég veit. Farðu bara. En þetta er ekki búið.

            Hugsanirnar sem veltust fyrir mér á leiðinni komu í bylgjum. Aðallega fann ég fyrir ólgandi reiði í brjóstinu og hendur mínar krepptust utan um stýrið. Lífið gat stundum verið svo fáránlegt. Á einni stundu stóð maður við altarið og lofaði öllu fögru í áheyrn fjölskyldunnar. Þá kyssti maður brúðina og tók á móti faðmlögum foreldranna sem ljómuðu af hamingju. Síðan gerðist einhver vitleysa, einhver óreiða sem skall á eins og flóðbylgja og fleygði öllu um koll. Og nú keyrði ég áleiðis til pabba sem var nær dauða en lífi á meðan eiginkonan sat heima og grunaði mig um græsku.

Ég kunni aldrei vel við lyktina inni á hjúkrunarheimilinu. Eflaust setti ég upp svip sem lýsti viðbjóði þegar ég gerði tilraun til að anda með munninum og stúlkan í móttökunni horfði tortryggin á mig.

– Já, pabbi minn liggur á alzheimer deildinni og…

Hún greip fram í – Þriðja hæð. Viltu ekki taka lyftuna? Það er beðið eftir þér.

Ég hnyklaði brýrnar og fylgdi handahreyfingum hennar sem beindu mér að lyftunum. Vissi bara allt hjúkrunarheimilið af pabba? Lyftan staðnæmdist á þriðju hæð. Maður í hvítum klæðum sat við móttökuborðið og kinkaði kolli til mín þegar ég mætti.

– Góðan dag, Anna hringdi í mig hérna áðan. Er allt í lagi með pabba? Getur hann tekið á móti heimsóknum núna?

Maðurinn, sem bar nafnspjaldið Guðjón, stóð upp og ræskti sig. – Hann er reyndar sofandi einmitt núna. Má ekki bjóða þér að bíða í stofunni? Ég get fært þér kaffibolla ef þú vilt.

Ég herpti varirnar og hugsaði til Sunnevu sem beið eflaust óþolinmóð eftir mér heima. Kannski þyrfti hún þó einmitt tíma til að jafna sig. Hún gæti jafnvel lagt sig. Hún var alltaf hressari eftir lögn og myndi kannski getað hlustað af meiri athygli á það sem ég hafði að segja. En hvað hafði ég að segja? Hvernig gat ég losað um þennan hnút sem myndast hafði svona fyrirhafnarlaust? 

– Halló?

            Guðjón starði enn á mig. Einn kaffibolli gæti ekki skaðað á meðan ég biði eftir að pabbi vaknaði. Ég staulaðist að setustofunni og kom mér fyrir í rauðum leðursófa. Guðjón færði mér kaffi. Svart og sykurlaust eins og ég vildi alltaf hafa það. Við hlið mér sat kona sem heklaði ítrekað sömu lengjuna en rakti jafnóðum upp þegar á endann var komið.

– Þetta fær hún mamma mín næstu jól. Sú verður sko ánægð! Konan brosti allan hringinn svo augu hennar hurfu næstum því í hrukkunum. Ég ákvað að benda henni ekki á að mamma hennar væri líklega löngu farin frá þessari jörðu, enda konan sjálf ábyggilega orðin hundrað og fimmtíu ára. Þess í stað kinkaði ég kolli til hennar og fylgdist með heklinu sem aldrei yrði tilbúið. Í stofunni sat einnig karlmaður sem sönglaði bút úr lagi þrátt fyrir að muna ekki sjálfan textann. Hann ruggaði sér fram og aftur í stólnum og lokaði augunum af innlifun þegar söngurinn náði hámarki. Ég fékk það á tilfinninguna að maðurinn væri staddur í góðri minningu frá yngri árum. Tilhugsunin veitti mér hlýju.

            Eftir tvo kaffibolla og innantómar samræður við sessunaut minn fannst mér ég knúinn til að standa upp og finna pabba. Maðurinn hlyti að vera vaknaður og Anna hafði sagt mér að ég þyrfti að meta stöðuna hjá honum. Guðjón var í óðaönn að færa íbúum lyfin sín þegar ég potaði í öxl hans og sagðist nú þurfa að tala við pabba. Hann drap tittlinga.

– Hann pabbi þinn sefur enn. Má ekki bjóða þér að vera í kvöldmat hjá okkur? Við

erum með kjötkássu á boðstólnum. Hljómar það ekki vel?

Nú fylltist ég skyndilegri reiði. Ætlaðist hann til að ég settist hér að? Sunneva var eflaust orðin æfareið heima. Hver veit nema hún hafi hringt í stelpukjánann sem sendi henni skilaboðin. Ég gat ekki leyft því að gerast.

– Nei veistu ég verð að kíkja á hann pabba. Hann hefur sofið nóg. Kallinn verður bara ánægður að sjá mig, vittu til.

Ég tók á rás að herbergi pabba og heyrði hvað Guðjón kallaði á eftir mér. – Þórður minn! En ég var nú þegar kominn að dyrunum sem mörruðu þegar ég tók í húninn. Á móti mér tók svo þung svitafýla að mér sortnaði fyrir augum. Settu þau manninn aldrei í bað? Ég gekk að rúminu og gerði mig tilbúinn til að vekja pabba þegar ég sá að rúmið var autt. Ég leit um öxl og bjóst alltént við að pabbi stæði fyrir aftan mig. Svo var ekki. Ætli hann hafi ekki laumast á reykingasvæðið þegar enginn sá til. Læknarnir höfðu margoft reynt að fá hann til að hætta en án árangurs. Ég strunsaði öskuillur út. Var það ekki hlutverk starfsfólksins að hafa auga með íbúunum? Ég var í þann mund að nálgast reykingaherbergið þegar Guðjón mætti mér.

– Er ég ekki búinn að segja ykkur að pabbi má ekki reykja? Þið hljótið að geta haft hemil á honum. Hann er nú ekki það snöggur!

Guðjón virtist sem rólegastur og fylgdist með mér opna herbergið. Inni sat eldri kona sem púaði pípu og vinkaði glöð í bragði. Pabbi var hvergi sjáanlegur. – Hvar er hann? Ekki hefur hann sloppið út? Nú gat ég ekki hamið reiðina og skyrpti næstum því á Guðjón í æsingi mínum.

– Þórður minn. Hann pabbi þinn er ekki hér. Viltu nú ekki koma og borða með okkur?

– Borða með ykkur! Við þurfum að finna manninn! Ertu alveg snælduvitlaus!

Guðjón dæsti og lagði hönd sína lauslega á bak mitt. – Ég er viss um að þér líður betur um leið og þú færð að borða.

Ég trúði ekki mínum eigin eyrum. – Hver er það sem ræður hér?  Ég hóf að ganga að lyftunni en uppgötvaði mér til skelfingar að hana var hvergi að finna. Hvaðan hafði ég komið? Ég greip í hurðarhún sem virtist opnast að næstu deild hjúkrunarheimilisins, en hurðin haggaðist ekki. Hendur mínar skulfu þar sem ég barði þeim í lokaða hurðina og sá glitta í einhvers konar öryggislás sem hafði verið komið fyrir á dyrunum. Ég greip um lásinn og hristi hann tryllingslega.

– Halló? Er einhver þarna? Viljið þið hleypa mér út eins og skot!

Ekkert svar.

Eldri kona gekk út úr herberginu sínu og ríghélt í göngugrindina. Hún glotti til mín. Glottið var illkvitnislegt. Vissi hún hvar pabbi var? Ég greip í göngugrindina og hóf að hrista hana til.

– Fyrirgefðu, hvernig kemst ég héðan út?

Hún hló. Hláturinn bergmálaði um gangana og yfir mig færðist ofsafengin reiðin á ný.

– HVAR ER PABBI!? HVAR ER HANN!?

Guðjón gekk taktfast á eftir mér og hélt ró sinni. – Þórður minn, komdu nú inn í stofu. Ég pírði augun að honum og strauk svitastorkið ennið.

– Hvernig veistu hvað ég heiti? Guðjón rétti fram hendina en ég hörfaði frá honum.

– Þórður, við höfum farið í gegnum þetta. Pabbi þinn er ekki hér. Hann lést fyrir þrjátíu árum síðan.

            Undarlegar myndir tóku að skýrast í huga mínum. Jarðaförin hans pabba. Sunneva hafði setið á aftasta bekk og gefið mér ákveðið en tómlegt faðmlag eftir athöfnina. Ég hafði horft á eftir kistu pabba þar sem hún seig niður í jörðina. Ég greip andann á lofti og fann hvernig tárin streymdu niður.

– Pabbi…

Guðjón opnaði munninn eins og til að segja eitthvað en ég strunsaði í átt að næsta salerni. Ég ætlaði ekki að láta þennan unga mann sjá mig gráta. Vatnið úr krananum var ylvolgt og ég skvetti því síendurtekið yfir kalt ennið. Ég fann fyrir andliti sem ég kannaðist ekki við; grófum hrukkum og þurru yfirbragði. Mér varð litið snögglega á spegilmynd mína og starði í sömu, blágrænu augun sem voru næstum því falin fyrir hvítu hárinu. Þarna var ég, sami gamli maðurinn og hafði búið á hjúkrunarheimilinu síðustu ár. Handleggir mínir lömuðust og voru nú þungir sem blý. Svartir blettir mynduðust fyrir augum mér og lágt suð ómaði í höfðinu. Í eitt augnablik varð allt svart.

Síðan fann ég fyrir kunnuglegum létti. Að vissu leyti var gott að vita að ég hafði þrátt fyrir allt ekki glatað minningunum, sama hversu sársaukafullar þær voru.

            Ég staulaðist fram og kinkaði kolli til Guðjóns sem beið eftir mér eins og traustur vinur. Ég fylltist þakklæti yfir þessum unga hjúkrunarfræðingi sem svo oft hafði verið mér til staðar. Hann fylgdi mér inn í stofu þar sem ég kom mér vel fyrir með gömlum félögum. Lyktin af kjötkássunni fyllti vit mín og ég fékk vatn í munninn. Maturinn bragðaðist guðdómlega og yfir mig færðist stóísk ró. Ég lyfti upp annarri peysuerminni og leit á úrið. Klukkan var sjö og nú þyrfti ég að komast heim, ég varð að biðja Sunnevu afsökunar og viðurkenna mistök mín. Hún var mér allt og ég vissi að saman gætum við yfirstigið hvað sem er. Ég leit á Guðjón sem tók saman diskana og greip um úlnlið hans.

– Gæti ég fengið að tala við pabba? Ég þarf að fara að koma mér heim.

 

[hr gap=”30″]

 

Rakel Þórhallsdóttir er kennaranemi með brennandi áhuga á skrifum. Hún vinnur þessa stundina að meistaraverkefni sínu sem snýr að heimspekilegri samræðu um bókmenntaverk í kennslu. Þar fjallar Rakel um skáldsögu sem hún samdi fyrir börn og hvernig hægt sé að nota hana með nemendum. Síðastliðinn vetur starfaði Rakel sem kennari í Laos en mun nú hefja sitt fyrsta ár í Breiðholtsskóla.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...