Krakkahornið: Pippa og rykhnoðrarnir

Pippa og rykhnoðrarnir

Eftir Ellen Ragnarsdóttur

Pippa nennti ekki að taka til. Jafnvel þótt varla sæist í gólfið í herberginu hennar fyrir skítugum fötum og leikföngum sem lágu eins og hráviði út um allt. Satt best að segja leið henni ágætlega í öllu draslinu. Henni fannst þetta bara nokkuð heimilislegt. Auk þess var mun fljótlegra að finna til föt af gólfinu heldur en að þurfa að gramsa ofan í skúffu. Það voru þó ekki allir á sama máli því pabbi Pippu gat tuðað yfir umgengninni út í eitt. „Herbergið þitt er eins og svínastía“ tautaði hann jafnan þegar hann rak höfuðið inn um gættina. Hún tók það þó alls ekkert nærri sér, enda voru grísir eftirlætis dýrin hennar.

Dag einn þegar Pippa var að leik inni í herbergi kom pabbi hennar askvaðandi, „amma þín og afi eru að koma í heimsókn. Þú getur ekki boðið þeim upp á þennan sóðaskap“ sagði hann, svolítið hvössum rómi. Hann var klæddur í gula uppþvottahanska og rósótta svuntu, augljóslega í þrifaham. Síðan rétti hann Pippu plastpoka og bað hana vinsamlegast að tína ruslið upp af gólfinu, setja óhreinu fötin í taukörfuna og ganga frá leikföngunum. Því næst fór hann fram og hélt áfram að ryksuga. Pippa fór sér að engu óðslega, vissi að á endanum myndi pabbi gefast upp og sjá um tiltektina fyrir hana. Til að sýna smá lit tók hún þó upp gamla kexköku og tóma safafernu og henti í pokann. Nokkuð ánægð með sig settist hún síðan niður og fór að fletta myndabók. En hvað var nú þetta, örlítill rykhnoðri þaut yfir gólfið og beinustu leið undir rúm.

Pippa hrökk í kút, hafði þetta verið mús? Nei, varla – Mjási hefði eflaust verið búinn að koma henni fyrir kattarnef. Hún fékk örlítinn sting í hjartað þegar hún hugsaði um gamla hamsturinn sinn, herra Játvarð, sem hafði gufað upp einn daginn. Síðan ákvað hún að athuga málið. Hún læddist að rúminu, lagðist varlega á fjóra fætur og kíkti undir. Í fyrstu sá hún ekkert merkilegt, að vísu var þarna að finna götóttan sokk, eineygðan bangsa og nokkur samankuðluð snýtubréf. Hún heyrði lágt þrusk, en það var of dimmt til að hún sæi hvaðan það barst.

Skyndilega mundi hún eftir vasaljósinu sínu. En hvar var var það? Hún spratt á fætur og gerði dauðaleit að því. Það var ekki í nærfataskúffunni, ekki undir koddanum og alls ekki í föndurkassanum. Að lokum, eftir að hafa snúið öllu á hvolf, fann hún það ofan í stígvélinu sínu. Hún ýtti á takkann og beindi ljósinu undir rúmið, horfði á ljósgeislann dansa í myrkrinu. Svo sá hún einhverja hreyfingu. Í innsta horninu kom Pippa auga lítinn, sætan rykhnoðra sem hríðskalf. Hann var augljóslega smeykur. „Það er ekkert að óttast,“ sagði Pippa blíðum rómi. „Ég ætla ekki að meiða þig.“ Hnoðrinn virtist slaka á og eftir augnablik skriðu fram nokkrar ósköp litlar og rykfallnar verur til viðbótar. Pippa var furðu lostin. Hún teygði höndina undir rúm og rétti fingurna í átt að litlu loðboltunum. Einn þeirra trítlaði fram, þefaði örsnöggt af hendi Pippu og skaust svo aftur í skjól. Hún brosti. Í sömu mund var hurðinni að herberginu hrundið upp og pabbi æddi inn „þú ert ekki búin að gera nokkurn skapaðan hlut“, sagði hann ergilega. Hávaðinn í ryksugunni var ærandi, skelfingu lostnir hnoðrarnir þutu til og frá og ryk þyrlaðist í allar áttir. Pippa greip andann á lofti og stökk á fætur „fyrirgefðu, ég gleymdi mér aðeins.“ Síðan tók hún að tína upp skítugar spjarirnar á ógnarhraða. Rogaðist með þær allar í taukörfuna. Fór svo að raða leikföngunum.

Í sömu mund hringdi dyrabjallan, afi og amma voru komin. Pabbi slökkti á ryksugunni og fór til dyra á meðan Pippa þaut um herbergið eins og eldibrandur, hún raðaði bókunum í hilluna, setti kubbana í kassann og bjó um rúmið. Að lokum sópaði hún gólfið, vildi ekki koma hnoðrunum í uppnám með því að kveikja aftur á ryksugunni ógurlegu. Síðan kíkti hún undir rúm, verurnar hjúfruðu sig saman í horninu, greinilega enn svolítið óttaslegnar. „Engar áhyggjur, ég passa ykkur“ hvíslaði Pippa. „Allt verður í lagi… svo lengi sem ég held herberginu mínu hreinu.“

 

[hr gap=”30″]

 

Ellen Ragnarsdóttir er þrjátíu og eitthvað ára gömul og menntuð í bókmenntafræði og ritlist. Eðli málsins samkvæmt starfar hún því við textaskrif, enda kann hún fátt annað nýtilegt.

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...