Hvítt haf – Hið skrifaða og hið ósagða

Roy Jacobsen var gestur á Bókmenntahátíð í Reykjavík vorið 2019 og á sama tíma kom út fyrsta bókin í þríleik hans um fjölskylduna á Barrey við strendur Noregs, Hin ósýnilegu. Erna Agnes skrifaði stutta umfjöllun um bókina á sínum tíma og endar umfjöllunina á því að segja: “þó svo söguþráðurinn hafi í raun verið fallegur í kjarnann þá leiddist mér óþarflega mikið við lesturinn. Gæti líka verið að ég hafi ekki verið í réttu hugarástandi þegar ég las bókina og kannski mun ég lesa hana aftur síðar meir og þá elska hana”.

Rétt hugarástand

Ég verð að lýsa mig á öndverðum meiði við Ernu. Mér leiddist aldrei við lesturinn. Mér fannst Hin ósýnilegu dáleiðandi í lýsingum sínum á lífinu á Barrey. Blæbrigði tungumálsins eru stórkostleg, nákvæmnin svo mikil og hið ósagða jafnvægt hinu sagða. Bókin er stórkostleg. Ég er þó hjartanlega sammála henni að Hin ósýnilegu er afskaplega lágstemmd og róleg, en undir niðri geysar stormur sem maður þarf að vera í réttu hugarástandi til að skynja almennilega.

Fyrr í ár kom svo út önnur bókin í þríleiknum, Hvítt haf, sem er beint framhald af fyrri bókinni. Liðin eru tíu ár frá lokum fyrri bókarinnar, seinni heimsstyrjöldin er í algleymingi, Noregur er hertekinn af Þjóðverjum og Ingrid snýr ein á æskustöðvarnar á Barrey sem hefur staðið auð í nokkurn tíma. Þegar skip með hermönnum og rússneskum föngum er sökkt undan ströndum Noregs fer líkum að skola á land á Barrey. Mér þótti merkilegt að lesa bók eftir sama höfund sem er svo frábrugðin fyrri bókinni að uppbyggingu og takti. Á meðan Hin ósýnilegu var eins og samásagnasafn, en sögurnar vel samtengdar, þá er Hvítt haf eins og spennusaga á sinn lágstemmda hátt. Jacobsen svíkur þó ekki lesandann alveg og heldur áfram að nota sama stílinn með því að segja eitt en annað og meira liggur á bak við orðin. Lýsingarnar eru jafn stórbrotnar og dáleiðandi en söguþráðurinn gerist allur á mun styttri tíma. Það líður ekki nema ár í Hvítu hafi á meðan í fyrri bókinni liðu um tuttugu ár.

Nákvæmar verklýsingar

Mannalýsingar Jacobsen eru vandaðar sem gerir það að verkum að maður binst persónunum sterkum böndum og manni varðar mikið um hvað verður um þær. Lýsingar á lífsviðurværi, vinnu og verkum verða einhvern veginn dáleiðandi. Persónurnar vinna af öryggi sem gerir það að verkum að lýsingarnar eru hreinar og beinar, verk eru unnin og ekkert mikið meira hugsað um það. Við vitum ekki hvað persónum finnst um verkin – bara að þau voru unnin. En þótt maður sé að lesa verklýsingarnar er hugurinn á öðrum stað. Ég gleymdi mér í að huga um næstu skref Ingridar eða örlög annarra persóna. Svolítið eins og ég ímynda mér að Ingrid geri þegar hún vinnur verkin. Jacobsen nær að gera lesandann tilfinningalega bundinn persónunum, í raun svo mikið að ég treinaði mér að byrja á seinni bókinni langt fram eftir öllu af því ég tímdi bara ekki að klára hana. Þegar ég byrjaði las ég Hvítt haf á einum degi, því þegar maður les um fólkið á Barrey á það skilið fullkomna athygli manns.

En það eru ekki allir jafn hrifnir af sögunum um Barrey. Ég hef heyrt frá fleiri en einum að bókin höfði alls ekki til þeirra, hún sé of lágstemmd, fari í taugarnar á þeim og þar fram eftir götum. Fyrri bókin er vissulega lengi að byrja og það er svolítið flækjukennt hvernig Jacobsen kynnir persónurnar til leiks, eins og lesandi eigi þegar að þekkja þær allar um leið og nafn þeirra ratar á blað. En komist lesandinn yfir þennann þröskuld þá ábyrgist ég að fjölskyldan á Barrey muni eiga hug hans og hjarta þar eftir og sá lesandi mun fyrir vikið bíða spenntur eftir næstu bók.

Frábær þýðing

Þegar fjallað er um bækur Jacobsen sem hafa komið út á íslensku er nauðsynlegt að nefna þýðingu Jóns St. Kristjánssonar. Hann fékk Íslensku þýðingaverðlaunin í ár fyrir þýðingu sína á Hinum ósýnilegu og þykir mér það vel verðskuldað. Orðin í bókunum eru vel valin og orðaforði og kunnátta Jóns á öllu sem viðkemur sjó, fiskveiðum og öðrum fyrirbærum sem koma við sögu á Barrey vekja aðdáun mína. Hvítt haf er ekki síður afspyrnu vel þýdd og blæbrigði í máli persónanna, hreimur og talandi kemst fullkomlega til skila.

Hvítt haf er stórbrotið verk um áhrif hernáms Þjóðverja á Noreg. Sagan er sögð á dáleiðandi hátt, þar sem hvert orð vegur þungt – ekki síður en þau ósögðu.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...