Það var með nokkurri eftirvæntingu sem ég hafði beðið eftir Sögu býflugnanna eftir Maju Lunde. Lunde hefur síðustu árin unnið að því að skrifa loftslagsfjórleik og er Saga býflugnanna fyrsta bókin í þeirri seríu. Áður hefur komið út bókin Blá í íslenskri þýðingu. Sú bók féll vel í kramið þegar fjallað var um hana hér í Lestrarklefanum fyrir rúmu ári síðan. Árið 2019 kom út bókin Przewalskis hest sem er þriðja bókin í fjórleiknum og fjallar um dýr í útrýmingarhættu. Sú fjórða mun fjalla um plöntur og mun væntanlega koma út á frummálinu norsku í lok árs eða árið 2021.

Þrír þræðir

Saga býflugnanna vakti mikla athygli þegar hún kom fyrst út í Noregi og var fljótt þýdd á fjölda tungumála og hefur setið á toppi vinsældalista um allan heim. Eins og í Blá þá skrifar Lunde út frá sjónarhorni margra persóna frá mismunandi tíma. Í Sögu býflugnanna fylgist lesandinn með þremur þráðum sem tengjast á einhvern hátt. Við fylgjumst með William á Englandi árið 1852. Hann rífur sig upp úr þunglyndi til að hanna býflugnabú sem halda á nafni ættarinnar á lofti um ókomna tíð. Í Bandaríkjunum árið 2007 stritar George við býflugnaræktina og reynir að hundsa ógnvekjandi fréttir af fjöldadauða býflugna frá starfssystkinum sínum sunnar í landinu. Í Kína árið 2098 þegar allar býflugur í heiminum eru útdauðar vinnur Tao við að handfrjóvga ávaxtatré en dreymir um betra líf fyrir son sinn. Svo dynur óhamingjan yfir.

Ómissandi smádýr

Bækur Lunde hafa fengið mesta athygli fyrir að hrista upp í samvisku lesandans. Þær stuða með bersöglum staðreyndum um það sem koma skal ef maðurinn heldur áfram á þeirri leið sem stefnir. Hún skrifar beint inn í hinn nýtilkomna loftslagsbókmenntaflokk sem fjallar á einn eða annan hátt um áhrif manna á loftslag og dýraríki jarðarinnar. Í Blá er það vatnið sem við getum ekki lifað án. Í Sögu býflugnanna eru það býflugurnar. Maðurinn reiðir sig á þessi smádýr til að frjóvga meirihlutann af þeirri fæðu sem er ræktuð, en samt fylgjumst við róleg með (eða rólegri en við ættum að vera) þegar fréttir af býflugnadauða berast okkur.

Lunde setur upp tímalínu í bókinni: Frá villtum býflugum til engra býflugna. Frá því þegar maðurinn beislar býfluguna og þar til hann hefur gjörnýtt hana. Við fylgjumst með því hvernig William gengur að rífa sig upp úr þunglyndinu til að skapa býflugnakassann sem á að koma nafni fjölskyldunnar á blað. Við sjáum hvernig býflugnakassinn er notaður árið 2007 og hvernig býflugurnar eru látnar vinna linnulaust á einhæfum ökrum nútímans. Og við fáum að sjá hvernig lífið verður ef býflugurnar eru ekki til lengur. Það er ekki framtíð sem við óskum okkur. Lunde skrifar af nákvæmni og nær að draga lesandann algjörlega inn í líf sögupersónanna. Söguheimurinn verður altumlykjandi.

Setjum hlutina í samhengi

Sjálf las ég bókina í hitabylgju á Akureyri snemma í sumar. Bókin hitti mig beint í hjartastað, en fangaði mig þó ekki eins rosalega og Blá gerði á sínum tíma. Það sem gerði þó hughrifin af bókinni sterkari en ella var að ég fylgdist með iðnum humlum starfa myrkranna á milli við að safna blómasafa á ylliberjarunna sem ilmaði svo sterkt við svalirnar. Það setti einhvern veginn allt í samhengi. Um haustið yrðu blómin að berjum – en ekki án býflugnanna. Lunde skilur lesandann eftir með örlitla von í lok bókarinnar, sem létti lesturinn örlítið og sinnið var ekki eins þungt og það hefði annars verið eftir lestur bókar sem þessarar.

Sagan myndi auðveldlega flokkast sem dystópía vegna framtíðarsýnar Lunde. Sumar dystópískar skáldsögur hafa ekki fengið nafn sem slíkar af einhverri ástæðu. Það skal þó ekki óttast að slengja orðinu dystópía á kápu bókar því ég þykist nokkuð viss um að fleiri en mig hungri í þess konar bókmenntir á íslenskri tungu.

Hver söguþráður er vel skrifaður, tilfinningalíf persónanna fullmótað og framvinda góð. Þetta er bók sem auðvelt er að gleypa í sig á einni helgi, ef svo liggur við. Hún er grípandi, ógnvekjandi og vekur lesanda til umhugsunar.

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...