Hvað eru kristnar bókmenntir? Kazantzakis og Kristur endurkrossfestur

Árið 2004 gerðist nokkuð sem ætti að kallast heimssögulegur viðburður. Páfinn í Róm, leiðtogi kaþólikka, hélt sameiginlega messu með patríarkanum í Konstantínópel, leiðtoga réttrúnaðarkirkjunnar. Þar fóru þeir saman með trúarjátninguna á forngrísku. Þetta er merkilegt, því þar með sleppti páfinn því að bera fram eina orðið sem skilur að játningu rétttrúnaðarkirkjunnar og játningu kaþólsku kirkjunnar – latneska orðið „filioque“ – sem þýddi að leiðtogarnir tveir fluttu nákvæmlega sömu trúarjátningu. Allt í einu virtist enginn munur vera lengur á játningum kirkjudeildanna tveggja sem höfðu verið aðskildar út af þessu blóði drifna orði „filioque“ („og frá syninum“ – þetta varðar hvernig þrenningin virkar) í næstum því þúsund ár. Gríðarlega mikið af fólki hefur í gegnum söguna dáið út af „filioque“ og deilunum um stað þess og merkingu í trúarjátningu kristinna manna. Nú var stórt skref stigið í áttina að því að leysa deiluna! En – kæri lesandi, ég giska á að þú hafir aldrei heyrt um þennan atburð. Hann var ekkert heimssögulegur, þrátt fyrir alla undangengna sögu, því öllum er nákvæmlega sama um svona hluti í dag.

Jóhannes Páll páfi og Bartólómeus patríarki spyrja sig: Af hverju tekur enginn eftir þessu? Er það út af því að þetta er allt á forngrísku?

Hvað gerðist? Hvernig hætti það að skipta jafnvel þá sem játa kaþólskan- og réttrúnaðarsið neinu máli hvað aðskildi þá? Hvernig varð kristnin guðfræði, sem öldum saman tröllreið hugarfari stórs hluta mannkyns, að einhverju svona nauðaómerkilegu? Þetta er spurning sem leitaði á mig þegar ég las um daginn bók að nafni Kristur endurkrossfestur (e. Christ Recrucified, gr. O Hrístos Xanastavronetai) eftir krítverska rithöfundinn Nikos Kazantzakis (1883–1957).

Kazantzakis. Grallaralegur.

Kazantzakis er eitt af stærstu nöfnunum í nútímagrískum bókmenntum, sem áttu mikið gullaldartímabil í kringum miðja 20. öldina. Hann er langþekktastur fyrir fyrstu skáldsögu sína frá árinu 1946, sem var þýdd á íslensku undir nafninu Alexis Sorbas, en kannski sérstaklega fyrir kvikmyndun hennar, Zorba the Greek, frá árinu 1963. Sú mynd, með Anthony Quinn í titilhlutverkinu, er algjör klassík – þótt það þurfi að slá ýmsa nútímalega varnagla við bæði mynd og bók. Konur í ritheimi Kazantzakis lúta reglum feðraveldisins. Ef þær eru giftar þá eru þær siðvandar, pirrandi og ósýnilegar; ef þær eru ógiftar og gamlar þá má gera grín að þeim, ef þær eru ógiftar og ungar þá má þrá þær úr fjarlægð, og svo er það fígúra ungu ekkjunnar. Ekkjan er hættuleg: Hún hefur sofið hjá en á engan eiginmann. Það fer alltaf illa fyrir henni.

Anthony Quinn sem Sorbas. Hinn frægi dans.

Að því slepptu – þ.e. ef það er þá hægt að sleppa því – þá er það sem heillar við stíl Kazantzakis í bókinni um Alexis Sorbas ofboðsleg mælgin og ógleymanleg, ýkt karaktersköpun, þar helst á titilkarakternum. Sorbas lifir fyrir nautnir og andartakið og virkar sem spéspegill á menntamanninn sem er í för með honum – sá vill hafna líkamanum og huga eingöngu að hinu andlega og háleita, en Sorbas sýnir aftur og aftur að þetta er ekki hægt. Þetta gerir hann einna helst með groddalegum húmor og algjöru virðingarleysi gagnvart því sem almennt er talið heilagt. Þetta býr til ógleymanlegt hlutverk bæði í bók og mynd.

Þetta er nær fullkomin andstæða bókarinnar Kristur endurkrossfestur (1953). Þessi þriðja skáldsaga Kazantzakis fjallar, eins og titillinn gefur til kynna, um kristinn efnivið. Sagan gerist öll í litlu grísku þorpi í því sem í dag er Vestur-Tyrkland, snemma á 20. öld. Þá var Ottómanska heimsveldið enn við lýði og bjuggu hundruðir þúsunda Grikkja innan þess og lutu tyrkneskri stjórn. Sagan hefst á því að aðalsmennirnir í þorpinu ákveða að setja upp helgileik á komandi páskum og velja þeir nokkra þorpsbúa í hlutverkin – smalinn Manolios er útnefndur Kristur, kaffihúsaeigandinn, farandsölumaðurinn og sonur eins mektarmannsins eru lærisveinarnir Pétur, Jakob og Jóhannes, þorpsekkjan er María Magdalena (að sjálfsögðu) og vesalings bæjarróninn er útnefndur Júdas.

Fljótt kemur í ljós að hinir útnefndu leikarar taka hlutverk sín alvarlegar en til var ætlast og verður smalinn Manolios sérstaklega gagntekinn af því að vera eins og – ef ekki bara vera – Kristur. Þetta ágerist síðan eftir að grískir flóttamenn úr öðru þorpi, sem hafði verið lagt í rúst af Ottómönum, koma hraktir í þorpið að nóttu og grátbiðja um aðstoð. Mektarmenn þorpsins harðneita að hjálpa flóttamönnununum, og við þetta geta „Kristur“ og lærisveinar hans ekki sætt sig. Klofningur kemur upp í þorpinu milli „Krists“ og félaga, sem halda fram hinum raunverulega boðskap trúarinnar, og þorpsbúanna sem vilja halda í það sem þeir eiga og skilja ekki hvað „Kristur“ vill upp á dekk. Eins og titill bókarinnar gefur í skyn endar þetta ekki vel fyrir Manolios, smalann sem átti að leika Krist.

Úr sjónvarpsþáttaseríu sem gríska ríkissjónvarpið gerði upp úr Kristi endurkrossfestum.

Eins og hæfir hinu kristna þema þá er svo gott sem enginn húmor í verkinu. Kristni hefur af einhverri ástæðu aldrei átt auðvelt með fyndni og snýr Kazantzakis ekkert upp á það. Þetta verk er þungt og þrungið af boðskap Nýja testamentisins og hér er enginn Sorbas til að vera mótvægi við helgina. Þetta er þannig mjög, mjög kristið verk, en á sama tíma einhvernveginn ekki. Boðskapurinn er skýr: Ef Kristur snýr aftur verður hann tekinn af lífi aftur; mannkynið hefur hvergi breyst og raunar eru það þeir sem hvað ákafast kalla sig „kristna“ sem fyrstir myndu festa Krist á krossinn. Það er í hans eigin nafni, virðist Kazantzakis vera að segja, sem Kristur yrði tekinn af lífi. Þetta er ekki boðskapur sem maður tengir við kristna höfunda eða kristnar bækur – enda sýndu margir prestar grísku réttrúnaðarkirkjunnar það í verki þegar þeir fordæmdu Kazantzakis fyrir þessa bók og hans seinustu, Síðustu freistinguna (1955).

Einhvernveginn hefur það orðið svo að hugtakið „kristnar bókmenntir“ tengir maður við væmni, helgislepju, grunnhyggni, hræsni og klisjur. Mínir fordómar eru að þær séu allajafnan til þess eins að predika til kórsins, til að láta lesendum sínum líða betur með sína kristnu sjálfsmynd – því það er það eina sem „kristnin“ er fyrir svo mörgum í dag. „Ég er kristinn“ þýðir á Vesturlöndum sjaldnast „ég fylgi fordæmi Krists og kenningum“, enda myndi það jafnan útheimta að lifa sem munkur eða deyja sem píslarvottur. Kristni eins hún er iðkuð í dag í hinum ríka hluta heimsins krefst þannig engra fórna frá iðkendum sínum og gagnrýnir þá heldur aldrei fyrir hræsni sína. Hún er miðjumoð, málamiðlun milli trúartextanna sem enginn les og fólksins sem nennir ekki að lesa þá, milli einstaklingshyggjunnar sem leyfir enga raunverulega trú og löngunar fólks til að halda uppi einhverjum trúarlegum siðferðislegum viðmiðum, þótt það sé bara að nafninu til. Það er í þessum heimi sem hlutir eins og sögulegar sættir kaþólikka og rétttrúaðra skipta engu máli – því hinir „kristnu“ segja einfaldlega eftir anda okkar tíma: Hvað kemur þetta mér við?

Kazantzakis er sem sagt á öðrum stað í sínum verkum. Hans kristni er leitandi, óþægileg og gagnrýnin og hún krefst gríðarlegra fórna. Í Kristi endurkrossfestum er það skýrt að fylgismenn Krists eiga að hafna líkamanum (og þar ofar öllu kynlífi) algjörlega, þeir eiga að lifa í algjörri fátækt og gefa allar eigur sínar frá sér, þeir eiga aldrei að hugsa sem einstaklingar heldur lifa sem hluti af stærri heild kristinna manna. Allt er þetta er stutt með vísunum í sjálf orð Krists. Ef þú fylgir þeim ekki, virðist Kazantzakis segja, þá hefurðu engan rétt á að kalla þig kristinn; þá ertu í hópi þeirra sem krossfesta, ekki í hópi þeirra krossfestu.

Ég er svo heppinn að vera trúlaus og finn mig því ekki knúinn til að taka þessar kröfur, sem eru auðvitað harkalegar, inn á mig. En sem manneskja með almennan áhuga á trúmálum og sérstaklega textum biblíunnar, þá finnst mér þessi harða, gagnrýna afstaða Kazantzakis bæði áhugaverð og hressandi. Kristur endurkrossfestur er ekki lúmsk bók eða létt en hún fjallar um efni sem alltof sjaldan er meðhöndlað með jafn alvarlegum hætti og hér er gert. Ég mæli þannig með henni, jafnvel fyrir fólk sem er, eins og ég sjálfur, á sömu skoðun og Sorbas – að allt þetta sé þegar allt kemur til alls orðin tóm: líkaminn sé það eina sem raunverulega lifir.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...