Kórónaveirufaraldurinn er aðalumræðuefni bókarinnar Hótel Aníta Ekberg eftir systurnar Helgu S. Helgadóttur og Steinunni G. Helgadóttur, myndlýst af listakonunni Siggu Björgu Sigurðardóttur. Helga og Steinunn dvöldu í Róm í lok febrúar, skömmu áður en Vesturlönd skelltu í lás og komu heim til Íslands rétt eftir að komufarþegar voru skyldaðir til að fara í tveggja vikna sóttkví. Þær enduðu því á sitthvoru heimilinu í sóttkví, skrifuðust á og útkoman er þetta skemmtilega smásagnasafn.

Smásögurnar hverfast í kringum gesti á Hótel Anítu Ekberg við Trevi gosbrunninn í Róm. Trevi gosbrunninn sem Aníta Ekberg steig í dans í bíómyndinni La Dolce Vita frá 1960. Í byrjun bókarinnar fylgist lesandinn með tveimur íslenskum systrum á leið til Rómar. Þær kýta og fara í taugarnar á hvorri annarri, eins og systur gera en það er greinilegt að þær elska hvor aðra. Í gegnum þær sér lesandinn gesti hótelsins í fyrsta sinn og það er ekki laust við að það vakni upp forvitni.

Hvað gerist í sóttkví?

Gestir hótelsins eru nokkrir. Það eru íslensku systurnar, aldraðar vinkonur frá Englandi, hommapar, þriggja manna fjölskylda frá Hollandi, kona með mjög sérkennilegan hund, grænlenskur matargagnrýnandi og samfélagsmiðlastjarna, norskur tónlistarmaður, sænskur glæpasagnahöfundur, dyravörðurinn og hótelstjórinn.

Það hlýst töluvert rask af því að vera sett í sóttkví. Í bókinni fær lesandinn nasaþefinn af því hvernig það er að búa á hóteli sem sett er í sóttkví. Gestirnir eru í áfalli og verða óttaslegnir þegar þeir fá fréttirnar af því að þeir séu í nú í sóttkví. Svo fer leiðinn og tortryggni að gægjast út á milli þeirra. Hver er hinn smitaði? Hver mun smita mig? Flestar sagnanna snúast um kvöldið þegar gestunum er tilkynnt um sóttkvínna og það hefði verið gaman að sökkva sér lengra ofan í það hvað gerist þegar fólk er innilokað með ókunnugum í tvær vikur. Ég hefði viljað fá eina sögu í viðbót af gesti úr sóttkvínni sjálfri. Mig dauðlangar líka að vita hvernig fór fyrir vinkonum frá Englandi. Reyndar eru fleiri gestir sem sitja í lesandanum og það er til marks um góða frásagnarlist þeirra systra. Mann langar að vita meira um gestina á Hótel Anítu Ekberg.

Fólk við fyrstu sýn

Þegar maður kemur á nýjan stað og sér framandi fólk, eins og systurnar gera í byrjun bókarinnar, fer maður stundum að velta fyrir sér baksögu þeirra. Velta fyrir sér hvert þau eru að fara, hver eru þau? Helga og Steinunn láta lesandanum eftir þessa forvitni og leyfa honum að sjá inn í líf gestanna. Sögurnar tengjast allar innbyrðis, óhjákvæmilega. Gestirnir taka hver eftir öðrum og sumir eiga samskipti sín á milli. Það er skemmtilegt að sjá hvernig fyrirframgefnar hugmyndir sem lesandinn hefur myndað sér um persónurnar eru skoraðar á hólm þegar hann fær að kynnast þeim betur, frá þeirra eigin reynsluheimi.

Steinunn og Helga eiga auðvelt með að skapa lifandi persónur sem maður verður fljótt tilfinningalega bundinn. Nokkrar sagnanna fannst mér of knappar og fleiri upplýsingar hefðu mátt koma fram til að byggja upp skýrari mynd af lífi persónanna. Flestar sagnanna eru gamansamar og fyndnar en aðrar eru erfiðari og virkilega sorglegar. Þær minna okkur á að samferðafólk okkar er að glíma við mismunandi hluti, sem sjást ekki á yfirborðinu. Því skal ekki dæma fólk við fyrstu sýn.

Sögur um fólk með súrrealískum myndum

Myndir Siggu Bjargar ljá bókinni súrrealískan blæ, sem mér fannst ekki endilega ríma við sögurnar í fyrstu. Ég vandi mig þó fljótt á það að fletta til baka og skoða myndina sem fylgir hverri sögu betur. Þannig nutu myndirnar sín betur og mér finnst Sigga Björg hafa fangað persónurnar mjög vel með myndum sínum. Ég hefði þó gjarnan viljað sjá aðra mynd á forsíðunni, þar sem súrrealísk myndin gerir bókina ekki auðseljanlega og segir ekki nægilega mikið um innihald bókarinnar fyrr en hún hefur verið lesin. Við fyrstu sýn hrópar hún ekki á nýjan lesanda að þessa bók verði að lesa.

Steinunn hefur áður sent frá sér bækurnar Raddir úr húsi loftskeytamannsins, Samfeðra og Sterkasta kona í heimi. Helga hefur sent frá sér bækurnar um Blævi; Húsið á heimsenda og Dóttir veðurguðsins. Hótel Aníta Ekberg er skemmtilegt smásagnasafn sem reiðir sig á forvitni okkar um samferðafólk. Sögurnar eru allt frá því að vera gamansamar yfir í að vera sorglegar og verða ágætis minnisvarði um vordaga 2020.

 

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...