Krakkahornið: Ein heima

EIN HEIMA

eftir Rebekku Sif Stefánsdóttur

 

Ég er í fyrsta skipti ein heima. ALEIN. Engin mamma. Enginn pabbi. Bara ég og húsið.

Ég er búin að bíða tækifæris í svo langan tíma, bíða og bíða. En loksins er stundin komin, ég er ein heima í heilan dag og get látið til skara skríða.

Í dag er fyrsti dagur sumarfrísins, ég kláraði annan bekk í gær og varð átta ára í apríl. Mömmu finnst ég loksins tilbúin til þess að fá að vera ein heima á meðan þau fara í vinnuna, í staðinn fyrir að senda mig á grútleiðinlegt skátanámskeið þar sem við höngum úti í rigningunni allan daginn.

Ég brosti og veifaði sjálfsörugg og ábyrg þegar foreldrar mínir kvöddu mig áður en þau gengu út úr húsinu, stukku á hjólin og hjóluðu í vinnuna. Mamma bað mig um að grípa dagblaðið sem lá á gólfinu áður en hún fór. Ég greip blaðið og læsti kyrfilega að mér. Á forsíðunni var mynd af tjörninni í Reykjavík þar sem hamingjusöm fjölskylda heilsaði upp á endurnar. Ég fleygði blaðinu á eldhúsborðið og hoppaði af kæti.

Ég er loksins ein!

Ástæðan fyrir þrá minni að vera ein heima er einföld. Háaloftið. Hvað er svona merkilegt við háaloft spyrð þú? Því svara ég með annarri spurningu, hvað er EKKI svona merkilegt við háaloft?

Inni í eldhúsi er hurð. Hurð sem er ALLTAF læst. Og þegar ég segi alltaf, þá meina ég ALLTAF. Ég get gjörsamlega staðfest það án nokkurra efasemda, að hurðin er alltaf læst. Hún er læst á morgnana. Hún er læst um miðjan daginn. Hún er læst á kvöldin. Hún er læst á virkum dögum, um helgar, á helgidögum, þrettándanum og Jónsmessu!

Þetta veit ég því ég hef tekið örugglega hundrað þúsund milljón sinnum í hurðarhúninn þegar mamma og pabbi sjá ekki til.

Stundum ganga þau inn í eldhús einmitt þegar ég er að reyna að komast upp á háaloft og þá skamma þau mig. Segja mér að halda mér í burtu frá þessari hurð með skelfingu í augunum. Eins og hurðin sé eitthvað óargadýr sem mun éta mig lifandi!

Ég malda í móinn og þykist hafa verið að gera eitthvað annað. En hræðslan hverfur ekki úr andliti þeirra fyrr en ég hef tekið þrjú til fjögur skref frá hurðinni.

En nú er dagurinn kominn. Dagurinn sem ég kemst loksins að því hvað er uppi á háalofti. Ég geng hægum skrefum inn í eldhús, stolt af mér að missa mig ekki alveg úr æsingi. Ég geng alveg að hurðinni. Virði hana fyrir mér. Þetta er ósköp venjuleg hurð, hún er hvít með gulllituðum glansandi hurðarhúni og skrá fyrir lykla. Ég hef reynt að kíkja inn um hana en hef aldrei séð neitt nema myrkur hinu megin. Það er þó eitt sem að gerist, ég finn kalt og rakt loft blása á augað mitt. Það er það eina sem ég veit um háaloftið, að þar hlýtur að vera kalt og rakt.

Ég tek í hurðarhúninn, bara til öryggis, bara ef það vildi svo ólíklega til að hurðin sé ólæst en svo er auðvitað ekki. Enda skiptir það ekki máli. Ég klappa buxnavasanum. Finn fyrir lyklinum sem ég fann djúpt ofan í náttborðsskúffunni hennar mömmu.

Eftir að þau fengu þetta brjálaða hjólaæði leyfðu þau mér meira og meira að vera ein heima. Fyrst var það korter á meðan þau voru að prófa hjólin. Svo var það hálftími þegar þau vildu fá að hjóla einn hring í kringum hverfið, klukkutími þegar þau vildu hjóla umhverfis Reykjavík og loks hurfu þau í marga klukkutíma einn sunnudaginn þegar þau ákváðu að hjóla alla leið á Þingvelli og til baka. Það var í fyrsta skipti sem mér var treyst til að vera ein heima í hálfan dag.

Þau hefðu ekki átt að treysta mér. Það var þá sem ég LOKSINS fann lykilinn að hurðinni.

Ég dreg lykilinn hægt upp úr vasanum. Ég get vart hamið mig fyrir spenningi. Hjartað mitt slær svo fast að blóðið hlýtur að skjótast um æðarnar á ógnarhraða. Lykillinn smellpassar í skrána. Það fer kaldur hrollur um mig. Ég sný honum. Það heyrist lágvær smellur.

Ég opna dyrnar.

Kalt loftið skellur á öllum líkamanum. Ég hnerra af rykinu sem þyrlast upp. Á bak við hurðina eru myrk göng. Ég sé ekkert nema svart hyldýpi. Ég gríp andann á lofti. Þessar dyr liggja ekki upp á neitt háaloft. Það er enginn stigi, bara veggir úr mold og gangvegur úr möl. Um stund hreyfi ég mig ekki. Ég veit ekki hvað ég á að gera.

Ég þarf vasaljós. Ég teygi höndina varlega í eldhússkúffuna þar sem öllu mögulegu er hent ofan í. Þar geymum við svart vasaljós sem við notum aldrei því nú til dags eru vasaljós í öllum símum. Ég hugsa til símans sem liggur í hleðslu inni í herbergi. Ég þori ekki að sækja hann. Mér líður eins og ef ég fari frá þessu drungalega opi mun það lokast aftur og ég mun aldrei komast að því hvað liggur handan þess.

Ég safna öllu hugrekki sem býr innra með mér og geng af stað inn í dimm göngin. Dauf skíman frá vasaljósinu lýsir upp moldarveggina. Þeir eru ekki sléttir og felldir eins og venjulegir veggir. Það er næstum eins og einhver hafi krafsað þessi göng með höndunum. Ég ýti hugsuninni burt. Þetta eru ekki handaför. Það getur ekki verið.

Ég geng áfram. Ég get ekki stoppað. Ég geng svo langt að þegar ég lít til baka get ég ekki lengur séð birtuna úr eldhúsinu heima. Ég hugsa stanslaust um að snúa við, fara aftur heim, læsa hurðinni, skila lyklinum og leggjast undir sæng og láta eins og ekkert hafi gerst. En ég get ekki snúið við. Það er eins og eitthvað töfrandi afl leiði mig endalaust áfram.

Allt í einu lýsir vasaljósið á lokaða dyr. Ég þreifa á hurðinni og átta mig á því að hún er alveg eins og hurðin heima, hvít með gulllituðum hurðarhún. Ég gríp í húninn. Hurðin er ólæst.

Ég held að hjartað ætli að stökka út úr bringunni þegar ég opna dyrnar. Ég er stödd inni í öðru eldhúsi. Það er dimmt úti, eins og það sé skyndilega kominn vetur. Öll ljós eru slökkt. Það er eitthvað kunnuglegt við þetta eldhús.

Er ég komin aftur í húsið mitt?

Er ég búin að ganga í hring?

Það getur ekki verið. Ég geng að eldhúsborðinu. Lít á dagblaðið sem liggur á borðinu. Á því stendur tólfti júlí, alveg eins og stóð á blaðinu heima. En fréttirnar eru ekki þær sömu og ég sá áðan.

Í stað fjölskyldunnar sem brosti við tjörnina í Reykjavík er mynd af ógnvænlegri veru. Ég les fyrirsögnina hægt, „FURÐUVERUR ÓGNA ÖRYGGI ÍSLENDINGA“.

Ég missi blaðið á gólfið. Finn gæsahúðina rísa á handleggjunum. Ég verð að komast aftur heim. Það er eitthvað rangt við þennan stað. Ég sný mér við og ætla að hlaupa af stað í gegnum moldugu göngin aftur heim en hurðin skellist aftur með háværum hvelli. Ég gríp í hurðarhúninn og reyni að opna hurðina en hún er læst! Ég hristi húninn og sparka í hurðina.

„NEI, NEI, NEI,“ hrópa ég í mikilli geðshræringu og finn tárin byrja að leka niður kinnarnar. Ég vil komast heim. STRAX!

Ég heyri skrjáf fyrir aftan mig og sný mér snögglega við. Vera stendur í myrkrinu í hinum enda eldhússins.

„ÞÚ,“ segir rám og drungaleg rödd. Veran færist nær og ég er er við það að pissa í mig úr hræðslu. Ég lýsi vasaljósinu í andlitið á verunni og blinda hana um stund. En það hefði ég ekki átt að gera. Því þá sé ég að veran er ÉG. Nei, þetta er ekki ég, þetta er hræðilega eftirlíking af mér. Húðin hennar er þurr og grá, sprungin eins og eyðimörk. Augun eru svört, glansandi.

„Loksins ertu komin til mín,“ segir dimm rödd verunnar. „Ég er búin að bíða eftir þér svo lengi.“

Hún réttir fram kræklóttar hendurnar til að faðma mig að sér.

Ég kemst ekki undan.

Ég verð hennar.

 

[hr gap=”30″]

Rebekka Sif Stefánsdóttir er aðstoðarritstjóri Lestrarklefans og lýkur brátt meistaragráðu í ritlist við Háskóla Íslands. Smásögur eftir Rebekku hafa birst í smásagnasafninu Möndulhalla sem kom út hjá Unu útgáfuhúsi vorið 2020 ásamt fleiri safnritum á vegum Blekfjelagsins, félags meistaranema í ritlist. Rebekka er einnig söngkona, lagahöfundur og starfar sem söngkennari.

Myndlýsing eftir Sjöfn Hauksdóttur.

Lestu þetta næst

Að rækta garðinn sinn

Að rækta garðinn sinn

Nýverið kom út íslensk þýðing Kristínar Jónsdóttur á skáldsögunni Vatn á blómin eftir franska...

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...