Sakleysið dæmt til dauða

To Kill a Mockingbird kom út árið 1960 á miklum ólgutímum í Bandaríkjunum og talaði beint inn í samtímann. Svartir Bandaríkjamenn börðust fyrir réttindum sínum og Harper Lee sendi frá sér bók sem fjallar um kynþáttamisrétti. Um bókina hafa verið skrifaðir fjöldi umfjallanna og dóma og ég ætla ekki að bæta enn einum dómnum í þann bunka. Í staðinn vil ég auðvelda íslenskum framhaldsskólanemum að komast inn í bókina – meta hana á þann hátt sem ég gerði.

Klassískt, bandarískt verk

Bókin hefur verið kennd í framhaldsskólum víða um heim síðan hún kom út og verið þýdd á tugi tungumála. Hún hefur fyrir löngu skipað sér á stall með öðrum klassískum bandarískum verkum, eins og til dæmis The Catcher in the Rye eftir J.D. Salinger. To kill a Mockingbird lýsir bandarískum veruleika í smábæ í Alabama á millistríðsárunum.

En hvað er það sem gerir To Kill a Mockingbird svona merkilega? Af hverju hafa óteljandi framhaldsskólanemar verið látnir lesa bókina? Bókin talaði á sínum tíma beint inn í samtímann. Réttindabarátta svartra var í algleymingi þegar bókin kom út og átta árum eftir að hún kom út (1968) var Martin Luther King Jr. myrtur.

Sjónarhorn barns og sjónarhorn fullorðins

Bókin fjallar um dómsmál. Svartur maður er sakaður um að hafa nauðgað hvítri konu. Atticus Finch, lögfræðingur, er fenginn til að verja Tom Robinson, hinn ákærða, og fellur fyrir það í nokkra ónáð í smábænum Maycomb í Alabama. En sagan er hvorki sögð frá sjónarhorni Atticusar né Toms, heldur frá sjónarhorni dóttur Atticusar – Jean-Louise Finch eða Scout eins og hún er kölluð. Scout er á aldrinum sex til níu ára í innri tíma bókarinnar. Rödd eldri Scout heyrist þó glögglega í gegnum sögumanninn. Hún á eldri bróður, Jem, sem er fimm árum eldri en hún. Á sumrin bætist Dill í hópinn, en hann dvelur á sumrin hjá Rachel frænku sinni sem er nágrannakona systkinanna. Aðrar sögupersónur eru Calpurnia, svört fóstra Jem og Scout og nágrannar krakkanna sem eru nokkuð litríkir.

Sagan byrjar á því að Scout segir frá Boo Radley, nágranna þeirra. Radley hefur ekki komið út úr húsinu í fjölda ára og enginn veit hvernig hann lítur út. Samkvæmt sögusögnum lenti Arthur “Boo” Radley í slæmum félagsskap á unglingsárunum og var fyrir vikið lokaður inni af foreldrum sínum. Í innilokuninni missti hann vitið og á sögurnar segja að hann hafi stungið móður sína í lærið með skærum. Krakkarnir angra Radley og reyna að fá hann út úr húsinu, jafnvel þótt þau séu dauðhrædd við hann og við að koma nálægt húsinu.

Sakleysið fótum troðið

Bókinni er skipt í tvo hluta. Fyrsti hluti bókarinnar dregur upp mynd af lífinu í Maycomb í Alabama. Lesandinn kynnist nágrönnum Scout og Jem, Calpurniu, Atticus og fleiri persónum. Allt er séð með augum Scout en þó leynist í frásögninni rödd eldri konu, eldri Scout, sem er að segja söguna. Það er áreynslulaust hvernig Harper Lee tekst að flakka á milli raddar eldri Scout og yngri og hvernig hún getur valið frá hvorri hliðinni hún vill að lesandinn upplifi atburðina. Vill hún að lesandinn sjái atburðina frá sakleysi æskunnar eða vill hún geta bent á augljóst óréttlætið með huga hins fullorðna? Hún gerir þetta áreynslulaust. Hægt og rólega fara Scout og Jem að skynja að eitthvað í heimi hinna fullorðnu veldur titringi. Þau verða fyrir aðkasti í skólanum vegna starfa pabba þeirra í þágu hin ásakaða Tom Robinson. Hinir hvítu eru ekki ánægðir með að Atticus Finch skuli taka að sér að verja svartan mann og ekki síst svartan mann sem sakaður er um að hafa nauðgað hvítri konu.

Í seinni hluta bókarinnar fylgist Scout með réttarhöldunum yfir Tom Robinson. Það verður mjög fljótt augljóst við yfirheyrslur vitnanna (Mayella Ewell – meint fórnarlamb nauðgunar, Heck Tate – lögreglustjórinn, Bob Ewell – pabbi Mayellu, Tom Robinson – hinn ákærði) að Tom Robinson gat á engann hátt hafa framkvæmt verknaðinn sem hann er sakaður um. Öllum í réttarsalnum er það mjög ljóst og ekki síst Jem og Scout. Þegar Robinson er svo samt dæmdur sekur af kviðdómi (sem samanstendur af fátækum, hvítum bændum) missa Scout og Jem alla trú á réttlæti, heimsmynd þeirra er brotin og sakleysi þeirra er fótum troðið ekki síður en réttur Tom Robinson.

Í kennslustund sem Scout situr í nokkrum dögum eftir réttarhöldin er talað um Nasistana og það sem Hitler gerir við Gyðinga. Kennslukonan kemur sér undan því að svara spurningum barnanna þegar talið berst að kynþætti og kynþáttamisrétti. Þau sjá ekki óréttlætið í eigið samfélagi, þótt þau eigi auðvelt með að sjá það í stjórn annarra ríkja. Systkinin fá spurningum sínum hvergi svarað, nema hjá Atticusi sem aldrei hefur vikið sér undan spurningum þeirra.

Lee rekur örlög sögupersónanna eftir réttarhöldin. Robinson á erfitt með að takast á við dóm sinn og reynir að flýja úr fangelsinu en er skotinn sautján sinnum í bakið í flóttatilrauninni og lætur lífið.  Bob Ewell er reiður við Atticus eftir réttarhöldin, enda hefur Atticus rýrt ímynd hans út á við (þótt hún hafi ekki verið upp á marga fiska fyrir). Hann heitir því að hefna sín á Atticusi og ekkju Robinsons. Eftir Hrekkjavökuskemmtun eru Jem og Scout á leiðinni heim úr skólanum í myrkri þegar þau heyra fótatak á eftir sér. Þau reyna að hlaupa frá dularfullu verunni, en manneskjan nær þeim, Jem handleggsbrotnar í átökunum og Scout slasast lítillega. Hvorugt þeirra sér hver bjargaði þeim frá Bob Ewell, en síðar kemur í ljós að þar var verndari þeirra, Boo Radley, að verki. Ewell hafði ætlað að hefna sín á Atticusi með því að myrða börnin hans.

Margslungin saga sem vert er að lesa

Bókin er ekki síður þroskasaga Scout en hún er saga um kynþáttamisrétti. Harper Lee ólst upp í smábæ í Alabama og það er talið að hún byggi atburði í bókinni að einhverju leiti á sínu eigin lífi. Hægt er að finna fjölmargar vísbendingar um að persónur í bókinni séu byggðar á raunverulegu fólki. Til dæmis var pabbi hennar lögfræðingur, hún átti eldri bróður, mamma hennar var mjög fjarverandi, hún átti besta vin sem kom til þeirra á sumrin og nágranni hennar var mjög dularfullur. Mál Robinson á sér þó ekki eins skýra skýrskotun í atburði úr æsku Lee, en talið er að hún hafi sótt innblástur í ótal dómsmál gegn svörtum í Bandaríkjunum. Til dæmis mál Emmett Till, unglingspilts sem var myrtur eftir að hafa verið ranglega sakaður um að hafa daðrað við hvíta konu.

Nafn bókarinnar vísar í leiðbeiningar sem Atticusar til barna sinna eftir að hann gaf þeim loftriffla. Börnin máttu skjóta Blue jay fugla en ekki Mockingbird, því Mockingbird væru saklausir og gerðu ekkert nema syngja fallega. Í myndlíkingunni er Tom Robinson Mockingbird ásamt sakleysi barnanna.

Það er óteljandi gullmolar í bókinni sem hægt er að kíkja á hérna, ásamt ítarlegri samantekt um hvern kafla í bókinni. Ég mæli þó frekar með að nemendur lesi bókina, enda virkilega góð bók um alvarlega atburði. Bókin talar sterkt inn í nútímann í dag. Þeir sem eru ekki hvítir krefjast þess að þeim sé sýnd sama virðing og hinum hvítu í Bandaríkjum, rétt eins og þegar bókin var gefin út. Það eru ólgutímar og Mockingbird minnir okkur á hvaðan þetta kemur allt saman. Fyrir utan það er þetta gríðarlega vel skrifuð bók.

Lestu þetta næst

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...

Ógöngurnar í göngunum

Ógöngurnar í göngunum

Í byrjun febrúar frumsýndi leikhópurinn Verkfræðingarnir leikverkið Vaðlaheiðargöng á Nýja sviði...