Ljúfsár saga um líkkistusmíði

Hvað gerist þegar fólki úr mismunandi áttum er smalað saman á einangraðri eyju á námskeið í líkkistusmíði? Það er spurningin sem Svíinn Morgan Larsson veltir fyrir sér í bókinni Líkkistusmiðirnir sem kom nýlega út í stórgóðri, íslenskri þýðingu Ingunnar Snædal.

Líf og dauði

Samúel Miller er moldríkur en einmana. Hann stofnar til námskeiðs í líkkistusmíði á eyju við strendur Svíþjóðar, Lövenseyju, en tilgangurinn með námskeiðinu er mjög óljós framan af. Hann velur þátttakendur úr stórum hópi umsækjenda og eftir standa öldruðu hjónin Agnes og Tom, ungu hjónin Lísa og Ómar, hinn dauðvona Viktor, lygarinn Gottfreð, svikakonan Charlie, leikskáldið Lars Lood og svo bætist pillufíkillinn Yvonne í hópinn. Lövenseyja er mjög einangruð og aðeins einu sinn í viku staldrar þar við áætlunarferja í stutta stund. Nær ekkert netsamband er á eyjunni svo þátttakendur búa við þann lúxus að hafa nær ekkert utan að komandi áreiti. En það eru ekkert allir sammála um að þetta sambandsleysi sé blessun. Þátttakendur þurfa að kynnast sín á milli, eru neyddir til að fara í innri endurskoðun, og finna leiðir til að stytta sér stundir á milli þess sem námskeiðið fer fram. Það kemur fljótlega í ljós að allar persónur bókarinnar hafa eitthvað að fela og taka miklum þroska á meðan á þessum tveimur vikum sem námskeiðið stendur yfir. Í raun má segja að líf þeirra taki stakkaskiptum.

Farsakenndir Svíar

Larsson skrifar söguna út frá sjónarhorni mismunandi persóna. En þó virðist frásögnin hverfast svolítið í kringum Agnesi framan af. Agnes er mikill áhrifavaldur í lífi allra persónanna. Þó finnst mér að Larsson hefði mátt halda betur utan um mismunandi söguþræði og gefa einni persónu meira vægi en öðrum. Þar sem athygli höfundarins, og þar af leiðandi lesandans, er svolítið dreifð á allar persónurnar verður boðskapur bókarinnar svolítið slappari. Bókin er þó án nokkurs vafa ljúfsár lesning sem passar ágætlega inn í haustið.

Persónurnar eru framan af frekar farsakenndar. Mér leið svolítið eins og ég væri að lesa sögu sem sænsk bíómynd frá 1986 er byggð á. Það er nektarsund, vandræðaleg augnablik, hneyksli og misskilningur. En undir öllu er alvarlegur undirtónn og jafnvel smá samfélagsádeila. En á einhvern hátt náði hún ekki að fanga mig fullkomlega. Vissulega eru persónurnar áhugaverðar, viðfangsefnið eftirtektarvert (óttinn við dauðann og að horfast í augu við eigin dauðleika) en eins og áður sagði hefði höfundur mátt halda betur í hvern söguþráð og ekki flakka of mikið á milli persóna í hverjum kafla. Það var stundum mjög erfitt að muna á hverjum kastljósið var á hverri stundu. Og óþægilegt að komast að því að maður hafði lesið heilan kafla, en tekið feil á hvaða persónu maður var að lesa um.

Tilfinningaflækjur

En á hinn bóginn þá eru persónurnar skemmtilegar, maður tengist þeim böndum. Ég hló og grét yfir örlögum þeirra. Larsson tekst mjög vel að vekja tilfinningaleg viðbrögð lesanda við bókinni. Menningarsnobbinn Lars Lood vakti til dæmis óslökkvandi óþol hjá mér. Gottfreð var að sama skapi óskaplega misskilinn, en gríðarleg bleyða. Persónurnar eru allar mjög ýktar og farsakenndar eins og áður sagði.

Myndin á kápu bókarinnar er teiknuð af Sól Hilmarsdóttur og fangar innihald bókarinnar fullkomlega. Kápan er mjög falleg og vekur athygli og er einhvern veginn ljúfsár.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...