Bráðum áðan eftir Guðna Líndal Benediktsson kom út í síðustu viku og kemur snemma inn í jólabókaflóðið. Bókin er skrifuð fyrir stálpaða krakka og unglinga og hentar því til lestrar fyrir krakka frá miðstigi í grunnskóla og fram yfir efsta stig.

Síðustu ár hefur verið sár þörf eftir nýjum unglingabókum á íslensku og það er gleðilegt að sjá höfunda bregðast við kallinu. Guðni hefur áður sent frá sér þrjár bækur um stelpuna Þrúði og tvær bækur um ævintýri afa – þar af sigraði Ævintýri afa – Leitin að Blóðey íslensku barnabókaverðlaunin árið 2016.

Guðni hefur mjög frjótt ímyndunarafl og glettni er aldrei langt undan í skrifum hans. Hann hefur skemmtilegan stíl sem ég þori að alhæfa að fangi hvaða lesanda sem er – barn, fullorðinn eða ungling.

Tímaflakk, alkemía og Elsa frænka

Í Bráðum áðan kynnist lesandinn Söruh (14 ára), sem er skírð í höfuðið á Söruh Connor úr Terminator bíómyndunum. Sarah á köttinn Arnold, sem dregur nafn sitt af tortímandanum sjálfum. Sarah missti móður sína þegar hún var níu ára. Mamma hennar fórst í gríðarlegri sprengingu sem varð á rannsóknarstofunni hennar í Háskóla Íslands, en mamma hennar var mjög fær efnafræðingur. Í staðinn situr Sarah uppi með stjúpmóður sem hefur engan skilning á nokkru sem Sarah hefur áhuga á (sem er til dæmis anime og manga, næntís bíómyndir, vísindaskáldsögur og allt sem flokkast getur nördalegt). Sarah á líka systur sem er ári eldri en hún. Þóra er snillingur, spilar á fiðlu og vinnur verðlaun fyrir efnafræðirannsóknir og fær alltaf bestu gjafirnar frá Elsu frænku, systur mömmu þeirra sem býr í Rússlandi.

Sarah er ósköp óheppin/misheppnuð. Alla vega virðist það vera svo við fyrstu sýn. Þegar lesandinn kynnist henni hefur hún nýlega rústað á sér hárinu með bleikum hárlit og klippt það í tætlur til að komast hjá því að fjölskylda hennar sjái hárið. Svo fer allt endanlega um þúfur þegar hún kýlir hrekkjusvínið í bekknum og skrópar í skólanum. Það gengur einfaldlega allt á afturfótunum hjá henni. Þegar þær systur fá svo pakka frá Elsu frænku sama kvöld og heimur Söruh hrynur ákveður Sarah að taka málin í sínar hendur. Hún svissar pökkunum! Í pakkanum til Þóru er dauður gullfiskur í krukku, undarlegur kassi með takka og enn skrýtnari leiðbeiningar. Sarah lætur til leiðast og ákveður að fara eftir leiðbeiningunum (svona næstum því) og stendur í garðinum á réttum tíma og ýtir á takkann.

Þegar Elsa frænka birtist í bakgarðinum hennar, ríðandi á risaormi með gríðarstóra brynglófa á höndunum, elt af Gúbbum á Sarah ekki nokkurra kosta völ. Hún stekkur á bak orminum og þá hefst svaðalegasta ævintýri sem hægt er að hugsa sér. Sarah og Elsa flakka áfram í tímanum, berjast við sjóræningja og aðra óþokka og bjarga heiminum all nokkrum sinnum.

Skemmtilegar vísanir fyrir fróða

Bráðum áðan er ein mesta hasarbók sem ég hef nokkru sinni lesið. Eftir að Elsa frænka kemur til sögunnar stoppar hasarinn nær aldrei. Það er nokkuð óljóst hver tilgangur ferðar Elsu frænku er framan af í bókinni, en það skýrist þó þegar líður á bókina. Elsa frænka er einhvers konar blanda af Rick úr Rick and Morty og Doc Brown úr Back To the Future bíómyndunum. Hún er hryssingsleg, kaldhæðin, hörkutól, snillingur í alkemíu, efnafræði og öllum vísindum en á sér samt mýkri hlið. Sarah er eins og fyrr segir ósköp óheppin og finnst hún vera gríðarlega misheppnuð. Það er mjög mikið af tilvísunum í dægurmenningu frá níunda og tíunda áratugnum í bókinni. Költ myndir eins og The Terminator, Back To the Future, Lord of the Rings eru nefndar og ég þykist viss um að Guðni nikkar til fleiri sagna í bókinni, sem ég hef minni þekkingu á (Anime og japanskar teiknimyndir svo fátt eitt sé nefnt).

Endalaus hasar alla bókina í gegn

Ég tel nokkuð öruggt að bókin eigi eftir að höfða til fjölda lesenda sem vilja lesa spennandi, hraða og bráðfyndna bók. Bókin er prentuð á þægilegan pappír, með stóru letri sem gerir hana aðgengilegri fyrir lesendur sem af einhverjum ástæðum eiga erfitt með að lesa. Það eina sem gerir bókina erfiða til lesturs er líka sterka hlið hennar. Hasarinn. Þar sem hasarinn er svo gegndarlaus alla bókina í gegn er erfitt að leggja hana frá sér, en þegar leggja þarf hana frá sér (sem ég gerði reyndar ekki) þá hefst lesturinn á svo svakalegum hamagangi að það er eins og að kveikja á sjónvarpinu, þegar einhver skyldi það eftir á hæstu stillingu. Það eru fáir rólegir kaflar inn á milli sem hægt er að staldra við og melta örlítið það sem hefur gengið á hjá Söruh og Elsu. Þær hefðu alveg mátt taka eins og eitt eða tvö góð freyðiböð á nokkrum stöðum í bókinni, til þess að fara yfir málin í sameiningu og melta. Guðni nefnir þessa hröðu yfirferð þeirra frænkna nokkrum sinnum í byrjun bókarinnar. Sarah veltir til dæmis fyrir sér hvenær hún hafi sofið síðast (það var mjög langt síðan) og hún er þreytt og með áfallastreituröskun og í skítugum og slitnum fötum. Lesendanum er hvergi gefið andrúm til að hvíla sig. Og ákveði hver fyrir sig hvort það sé gott eða slæmt.

En burtséð frá þessu þá er Bráðum áðan virkilega spennandi og skemmtileg bók sem lesendur munu eiga erfitt með að slíta sig frá, ungir sem aldnir.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...