Allt fer eins og það á að fara

Hópur fagfólksins sem stendur að sýningunni.

Það var með nokkuð mikilli eftirvæntingu sem við mæðginin stigum inn í Kúluna í Þjóðleikhúsinu í lok september, enda átt sömu leikhúsmiðana í um það bil hálft ár en ekki komist vegna samkomubanns og annarrar óværu. Væntingarnar voru miklar fyrir Þínu eigin leikriti II – Tímaferðalag, enda hafði fyrri sýningin, Þitt eigið leikrit – Goðsaga, slegið í gegn árið áður.

 

Það er ósköp skrýtið að fara í leikhús á Covid-tímum. Allir svolítið á nálum, tortryggnir gagnvart sessunautunum (sem þó sitja í nokkurri fjarlægt) og allir fullorðnir með grímu. En maður leggur ýmislegt á sig til að brjóta upp hversdaginn sem er orðinn ansi þrúgandi. Maður fer bara varlega.

Ævintýri verður tímaferðalag

Leikritið, í leikstjórn Stefáns Halls Stefánssonar, byrjar á því að Lára Jóhanna Jónsdóttir í hlutverki Önnu Hönnudóttur stendur á myrkvuðu sviðinu og segir frá ævintýri um prinsessu og drottningu sem gera allt saman og lenda í ótrúlegustu ævintýrum þar til einn daginn að drottningin veikist. Sviðsmyndin leysist upp og eftir stendur Anna Hönnudóttur í miklu uppnámi á sjúkrahúsgangi. Mamma hennar er veik og liggur fyrir dauðanum. Það kemur sér því nokkuð vel að Anna fái tímavél senda einmitt þá. Hún ákveður að nota tímavélina til að leita að lækningu fyrir mömmu sína í tímanum.

“Ég er Radar. Þú mátt kalla mig Radar. Ég rata,” er setning sem hefur verið endurtekin nokkuð oft á heimilinu, en tímavélin er róbótinn Radar og er leikinn af innlifun af Hilmi Jenssyni. Anna lærir á tímavélina á nokkrum spaugilegum andartökum og svo… þeysist hún um tímann og áhorfendur með. Það kom skemmtilega á óvart að salurinn var prýddur ljósum og þannig fengu áhorfendur þá tilfinningu að þeir væru með Önnu og Radar á fleygiferð um tímann.

Það voru fjölda atriða sem stóðu upp úr á sýningunni að okkar mati. Okkur eru hugleiknar rotturnar í framtíðinni, hræðileg geimskrímsli, gríðarstór grameðla, bráðfyndin smurning Faraós og frábær frammistaða Snorra Engilbertssonar sem varðmanns Faraós. Það var ansi skelfilegt í geimnum og ég get ímyndað mér að lítil hjörtu eigi erfitt með það atriði. Mínir samferðamenn eru þó ekki varanlega skemmdir eftir atriðið, þótt annar hafi haldið fyrir bæði augu og eyru.

Hnökrar úr fyrri sýningu straujaðir úr

Áhorfendur stjórna ferðinni í leikritinu og valið var skýrt og greinilegt. Sstórir skjáir á sviðinu, sem jafnframt sköpuðu sviðsmynd fyrir hvert tímaskeið, vörpuðu skýrum leiðbeiningum til áhorfenda og samferðamenn mínir (8 og 11 ára) voru aldrei í vandræðum með að velja. Miklum tíma var eytt í að útskýra valið í fyrra Þínu eigin leikriti -Goðsaga, því var alveg sleppt núna enda eru reglur Þín eigin-bókanna öllum kunnar núna. Leiðbeiningarnar komu fram í leikritinu sjálfu, voru hluti af sögunni, sem var mun skemmtilegri leið til að koma skilaboðunum til áhorfendanna.

Áður hafði maður örlitlar áhyggjur af því að missa af leiksýningunni, að velja rangt og að leikritið myndi því taka enda. Í Tímaferðalaginu var einfaldlega spólað til baka og fyrir vikið varð verkið mun heildstæðara og áhorfendur gengu ekki út með þá tilfinningu að þeir hafi misst af einhverju rosalegu, jafnvel þótt þeir hafi valið fullt.

Það sem helst mætti út á setja er hinn alvarlegi undirtónn sýningarinnar. Það er ekki hægt að breyta örlögum sínum. Allt fer eins og það á að fara, er boðskapur sýningarinnar. Það er ekki hægt að hoppa til baka í tíma til að bjarga lífi mömmu sinnar, eða þú bjargar henni bara á annan hátt en þú ætlaðir þér. Börn ná ekki þessum boðskap. Mínir samferðamenn voru uppteknir af hasarnum, skemmtuninni við að velja og keppninni um hver myndi ná sínu fram í vali og örlög móðurinnar fór algjörlega framhjá þeim.

Heilt yfir er Þitt eigið leikrit II – Tímaferðalag bráðskemmtileg sýning með liði úrvalsleikara. Búningahönnun er til fyrirmyndar og samþætting sviðs og áhorfendasæta var virkilega óvænt ánægja. Við mæðginin skemmtum okkur stórvel á sýningunni og vonumst til að komast sem fyrst í leikhús aftur.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...