Dóttir hafsins eftir Kristínu Björgu Sigurvinsdóttur er fyrsta bókin í þríkleiknum Dulstafir. Bókin er fantasía en söguþráðurinn spinnst allur á allt öðrum stað en fantasíur gera venjulega – neðansjávar. Sögusviðið eitt og sér gerir sérstöðu bókarinnar nokkra.

Sá varnagli skal settur á þessa umfjöllun að Kristín Björg er hluti af Lestrarklefanum og höfundur þessarar umfjallannar hefur fylgst með sköpunarferli bókarinnar úr fjarlægð en þó ekki lesið hana fyrr en hún kom út. Dóttir hafsins er frumraun Kristínar Bjargar á ritvellinum og unnin upp úr handriti sem hún skrifaði fyrst 13 ára gömul. Bókin er unglingabók um Elísu, sextán ára stelpu frá ímyndaða smábænum Bergvík á Vestfjörðum og hún gerist að öllu í nútímanum, sé fráskilinn stuttur forkafli að bókinni.

Hin útvalda

Elísu dreymir undarlegan draum, um konu sem hafið steypir sér yfir og dregur niður í undirdjúpin. Þegar hún vinnur að skólaverkefni kemst hún að því að draumurinn er byggður á veruleika. Konan í draumnum hafði í raun og veru horfið einn daginn fyrir um tvö hundruð árum. Uppfull af hugsunum um konuna ráfar hún niður að bryggjunni sem konan hvarf af, heyrir undarlega rödd sem kallar á hana og svo steypir hafið sér yfir hana og dregur hana niður. Hún rankar við sér niðri í hafinu, undir fjólubláum augum Everós.

Undir sjávarmáli leynist heil marþjóð, sem trúir á hafgyðjuna Ósönu. Ósana hefur valið Elísu til að takast á við mikla erfiðleika sem eru framundan. Elísa er útvalin. Án þess að segja neitt meira um söguþráðinn þá krefst hann mikillar útsjónarsemi af hálfu höfundar, mikillar hugmyndaauðgi og frumleika.

Álit markhópsins

Lestrarklefinn fékk tvær stelpur til að lesa bókina og koma með innlegg um hana. Sú yngri, ellefu ára, féll ekki inn í bókina. Sagði hana vera of mikið unglingadrama, en ætlaði að gefa henni séns aftur síðar. Sú eldri, fjórtán ára, var yfir sig hrifin af bókinni. “Hún er mjög skemmtileg, spennandi og mjög sorgleg í endann. Elísa er litrík persóna sem lætur engann abbast upp á sig og er rosalega hugrökk.” Henni fannst lýsingarnar á borginni og umhverfinu neðansjávar mjög vel gert, og fannst það svipa til þess að keyra um sveit á Íslandi. Ekkert ljós fyrir utan bæina, sem eru uppljómaðir, rétt eins og neðansjávarborgin. “Mig langar að vita meira um sögu Rósölu, Ameró og Serlu,” segir hinn áhugasami lesandi að lokum.

Frumlegt sögusvið

Eins og áður sagði er bókin frumraun Kristínar Bjargar. Hún fetar mjög örugga leið í söguþræðinum. Uppbygging sögunnar er mjög hefðbundin þroskasaga, þar sem hin útvalda þarf að takast á við innri púka (kvíða og óvissu), en sannar sig svo í lokabardaganum. Hún finnur sína innri krafta og sýnir sér og öðrum að hún er svo sannarlega Dóttir hafsins. Kristín Björg vefur inn í söguna sterkum tilfinningum, eins og ást og togstreitu sem Elísa þarf að takast á við. Einnig er sorg sterkt þema, en Elísa hefur misst bróður sinn og framan af í bókinni er mjög óljóst hvað kom fyrir hann. Tilfinningarnar í kringum sorgina eru skrifaðar af innlifun og snerta þráð í hjarta lesandans. Í lok bókarinnar skilur hún eftir nokkra lausa þræði sem hægt er að taka upp í næstu bókum. Það er eitthvað fleira á seiði í heiminum sem er lesandanum enn hulið.

Það sem gerir söguna eftirtektarverða er sögusvið hennar. Kristín Björg býr til heilan heim neðansjávar, leysir alls kyns vandamál sem því gætu fylgt, með ímyndunaraflinu. Hún færir ekki einfaldlega menningu og heim manna neðansjávar, heldur skapar nýja menningu marfólks, og gerir það vel. Heimur þar sem siðir og hefðir eru mjög frábrugðin okkar eigin og töfrar eru til. Það er auðvelt að falla í þá gryfju að gera marfólkið að klisjukenndum hálffiskum, Kristín Björg kemst þó algjörlega hjá því og skapar sannfærandi verur sem eru komnar aðeins lengra frá mennsku lífi en Aríel.

Dóttir hafsins er vel uppbyggð bók, sem fylgir öruggum leiðum í söguþræði en gerist í mjög frumlegum heimi. Ég hlakka til að sjá hverju Kristín Björg leynir uppi í erminni fyrir næstu bækur.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...