Smásagnasafn eftir nýjan höfund

500 dagar af regni er lítið og nett smásagnasafn eftir Aðalstein Emil Aðalsteinsson. Hann vann nýræktarstyrk í vor fyrir bókinni og kemur hún nú út hjá Dimmu útgáfu. Þetta er hans fyrsta bók en áður hafa birst eftir hann sögur í Tímariti Máls og menningar, Skandala og Stínu. 

Reykjavík undir sjó

Í bókinni eru níu fjölbreyttar smásögur en dauðinn og myrkrið er nærri í flestum þeirra. Flestar þeirra koma til okkar úr hversdagsleikanum en ein sagnanna hefur súrrealískari blæ og skar sig úr hópnum. Það er sagan „Veröld ný og blaut“ þar sem ungur maður vaknar að morgni og sér að borgin hafi horfið í sjó um nóttina. Hann tekur þessum umskiptum af mikilli yfirvegun og ró en fólkið í kringum hann virðist ekkert kippa sér upp við þessa breytingu. Sagan er draumkennd og myndræn, ungi maðurinn og konan hans sigla á árabát í Heiðmörk en stór dökkur skuggi undir vatnsfletinum fylgir manninum. Að mínu mati er þetta ein sterkasta sagan í smásagnasafninu og áhugavert verður að fylgjast með hvaða stefnu þessi nýi höfundur tekur í sínum næstu verkum.

Brothætt systkinasamband

Barnæskan er könnuð í nokkrum smásögunum, þar á meðal í upphafssögu safnsins sem heitir „Tunglfiskar.“ Sagan fjallar um afbrýðissemi á milli tveggja systkina. Sögumaðurinn er ung stúlka sem fer í sveit til afa síns ásamt bróður sínum sem verður virkilega hæfileikaríkur handverksmaður. Stúlkan hefur enga slíka hæfileika og fellur í skugga bróður síns. Tilfinningar hennar og reiði byrja að stjórna gjörðum hennar og fremur hún næstum því ódæðisverk sem hún hefði séð eftir alla ævi. Persónusköpunin stúlkunnar er sterk og á það við einnig í öðrum sögum bókarinnar.

Ekki er allt sem sýnist.

Dauðinn umlykur margar sögurnar en tvær fjalla um sjálfsvíg og einmanaleika. Þær eru þó töluvert fleiri sögurnar í bókinni sem fjalla um einmanaleikann en honum er náð sérstaklega fram í sögunum „Heiðursgestur“ og „Sálminum um Rósu“. „Heiðursgestur“ fjallar um hinn 99 ára Finnboga sem lifir rósemdar lífi í litlu sjávarþorpi. Konan hans lést fyrir mörgum árum og á hann sér ákveðna rútínu sem hann lifir eftir dagsdaglega. Hann fer í sund eldsnemma á morgnana, áður en krakkaskari skellur sér í skólasund. Eftir að hafa orðið vitni að hrottalegu einelti í sundklefanum einn morguninn hrindist af stað óvænt atburðarrás sem hefur slæm eftirköst fyrir Finnboga sem leiðréttir ekki misskilninginn sem á sér stað eftir að starfsmaður skerst í leikinn í klefanum.

 

Ég hafði gaman af því að lesa þetta smásagnasafn og hefði jafnvel viljað sjá lengri sögur og þykkari bók en þetta er fín byrjun hjá þessum unga höfundi. Hann hefur góð tök á tungumálinu og ætti að vera óhræddur að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn og kanna braut súrrealismans.

 

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...