Heill heimur í nóvellu

Tíkin eftir Pilar Quintana er þrettánda og nýjasta bókin í áskriftarröð Angústúru. Angústúra hefur síðustu ár gefið út metnaðarfullar þýðingar af vönduðum heimsbókmenntum og þannig kynnt íslenska lesendur fyrir nýjum bókmenntum og höfundum sem annars væri erfitt að komast í kynni við. Undirrituð las einmitt sína fyrstu bók eftir egypskan höfund, hina mögnuðu Konu í hvarfpunkti eftir Nawal El Saadwi vegna þess að hún var gefin út í þessari ritröð. Ég var spennt að kynnast nýjum kólumbískum höfundi í gegnum Tíkina, en áður hafði ég einungis kynnst verkum Gabriel García Marquez, og var Tíkin í senn aðgengileg, margslungin og umhugsunarverð.

Undir áhrifum Hemingway

Tíkin, sem kom fyrst út á frummáli árið 2017, er nóvella eða stutt skáldsaga og einungis rúmar 100 blaðsíður í heildina. Í eftirmála bókarinnar kemur fram að höfundurinn var undir áhrifum Hemingway með sinn einfalda stíl. Aðalsöguhetjan er hin fertuga Damaris sem þráir að verða móðir en getur ekki eignast börn. Hún hefur verið með Rogelio manninum sínum síðan hún var átján ára gömul og reynt allt til þess að geta barn, meðal annars að taka inn seyði af tveimur fjallajurtum, maríugrasi og heilagsandagrasi, sem hún hafði heyrt að væru mjög frjósemisaukandi. Í upphafi bókar fær hún gefna tík sem hún nefnir Chirli, nafn sem hún vildi gefa dótturinni sem hún aldrei eignaðist. Hvolpurinn er hjálparþurfi og Damaris gefur sig alla í umönnun hennar. Sorgin vegna barnleysis er samt aldrei langt undan og hlutirnir fara að vinda upp á sig eftir að tíkin kemur inn í líf Damaris.

Framandi heimur

Sögusviðið er bær við Kyrrahafsströnd Kólumbíu staður, sem eins og segir í eftirmálanum, fara fáar sögur af. Bókin veitir innsýn í þennan framandi heim með því að varpa ljósi á líf fátæks fólks sem býr á þessu svæði sem er umkringt regnskógi og fjöru og er eitt það votviðrasamasta í heimi. Höfundi tekst einstaklega vel að lýsa náttúrunni, hitanum og aðstæðunum á þann hátt að manni finnst maður kominn til Kólumbíu við lesturinn. Í viðtali á RÚV benti Jón Hallur Stefánsson, þýðandi bókarinnar, á að verkið minnir lítið á töfraraunnsæið sem suður-amerískar bókmenntir, meðal annars bækur Gabriel García Márquez eru þekktar fyrir.

Tíkin er heilt yfir mjög vönduð bók sem er hraðlesin en situr lengi eftir í manni. Þrátt fyrir lengdina er bókin eins og heill heimur og fannst mér ekkert þörf á lengri texta. Bókin er afar vel þýdd af Jóni Halli Stefánssyni og bætti eftirmáli þýðanda miklu við skilning manns og upplifun af lestrinum.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...