„Lífið er eldspýta sem logar skamma stund“

Nýjasta skáldsaga Auðar Övu er loksins komin út! Hún ber heitið Dýralíf og fjallar um ljósmóðurina Dómhildi, eða Dýju. Bækur Auðar hafa vakið athygli víða um heim og hefur hún unnið Íslensku bókmenntaverðlaunin og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.

Í Dýralífi fær lesandinn að fylgja Dýju sem hefur flust inn í íbúð ömmusystur sinnar en þær eiga margt sameiginlegt. Hún ber einnig nafnið Dómhildur, en er kölluð Fífa, og var ljósmóðir. Íbúðin er einskonar tímahylki þar sem Dýja byrjar að róta í gömlu dóti ömmusystur sinnar og finnur þar bæði bréf og handrit þriggja bóka.

Mörk ljóss og myrkurs

Skáldsagan er frekar lágstemmd, í henni má ekki finna neinn hasar heldur rólega og yfirvegaða athugun á atferli mannsins, ljósi og myrkri, lífi og dauða. Bókin gerist öll á mörkum lífs og dauða, fjölskylda Dýju rekur útfaraþjónustu á meðan hún tekur á móti nýjum lífum nánast daglega: „Það er því löng hefð fyrir því í fjölskyldunni að annast manninn bæði á upphafsreit og endastöð, […] móðurættin þegar hann kemur í heiminn og föðurættin þegar hann kveður heiminn, móðurættin þegar ljósið kviknar og föðurættin þegar ljósið slokknar.“ (bls. 42)

Ömmusystirin var þekkt fyrir það að kasta fram heimspekilegum frösum eða hugleiðingum líkt og „…Lífið er eldspýta sem logar skamma stund. Eða, maðurinn er maurildi.“ (bls. 42) En það kemur því ekki mikið á óvart að hún hefur skrifað heilu handritin þar sem hún veltir fyrir sér spendýrinu homo sapiens á heimspekilegan og fræðilegan hátt. Hún er einnig háfleyg og jafnvel biblíuleg finnst Dýju, en Dýja á erfitt með að skilja samhengið í óreiðukenndu handritunum. Þau taka þó alveg yfir huga hennar og er hún að reyna að skilja ömmusystur sína alla bókina. Dýja hafði þó alltaf vitað af einu handriti sem ömmusystir sín var að vinna í en það handrit innihélt viðtöl við sjö ljósmæður og einn ljósföður. Handritið ver uppfullt af sögum þeirra af ferðalögunum á milli landshluta til að sinna starfi sínu hér í gamla daga. Dýja hjálpaði frænku sinni með því að skrifa upp viðtölin og í þessum stutta textabút má sjá hversu vel bókin er skrifuð, textinn flæðir og hefur fallega hrynjandi:

 

Ég skrifaði upp síðu eftir síðu af myrkri sem grúfði yfir og allt um kring, af botnlausum eilífðarsorta þar sem þær sjá ekki höndina á sér, þær lýsa heimi sem er lokaður veggur, þverhníptur, lóðréttur hamar við hvert fótmál, þær reyna að koma orðum að því hvernig er að sjá ekki fylgjdarmanninn sem stendur við hliðina á þeim og þurfa að þreifa á myrkrinu með fingurgómunum, það er engin leið að vita hvað býr inni í því eða hvað það afmarkar, í því bjuggu alls kyns hljóð, ekki bara ýlfur í vindi, heldur líka önnur hljóð sem þær vilja sem minnst um tala og helst ekki neitt, myrkrið geymir sögur, myrkrið geymir ímyndunarafl og svart er svart er svart.

bls. 100.

Barn sem fiktar í slökkvara

Það þarf vart að nefna það hvað textinn hennar Auðar Övu er dásamlegur og ríkur af endalausum gullmolum. Hún hefur sannað það með hverri bókinni að hún er einn af okkar bestu pennum og tekst að vekja svo fallegar myndir í huga lesandans á hverri blaðsíðu. Í Dýralífi saknaði ég þess að kynnast fleiri aukapersónum og lesa samtölin sem Auður Ava er svo fær í að skrifa. Það eru þó nokkrar aukapersónur sem vekja athygli, rafvirki sem er einnig nýorðinn faðir en Dýja tók einmitt á móti syni hans, honum Ulyssus Breka. Hann kemur og skoðar rafmagnið í íbúðinni hennar Dýju, en hér er ein önnur tengingin við ljósið: „Það má segja að við séum í sama fagi, segir hann. Bæði í ljósinu.“ (bls. 87) Önnur aukapersóna sem er vert að nefna er ástralski túristinn sem dvelur í íbúðinni fyrir ofan Dýju yfir jólin en veðurfræðingurinn og systir Dýju er mjög upptekin af því að honum verði komið í skilning um óveðrið sem er í vændum.

Að lokum er það stóra spurningin, hver er niðurstaðan um ljósið? Og mannskepnuna? Úr uppkasti af bréfi ritað af Fífu „má ráða að frænka mín telji að maðurinn bæði kveiki ljós og slökkvi ljós. Hann kveikir og slekkur. Slekkur og kveikir, skrifar hún og útskýrir: Því má líkja við það þegar barn fiktar í slökkvara og veit ekki sjálft af hverju eða hvaða hugsun býr að baki.“ (bls. 148) Er tilveran því óreiðukennd? Barnaleg?

Marglaga skáldsaga

Allar hugleiðingar um ljósið og myrkrið eru nátengdar í bókinni, lífið og dauðinn, rafmagnið og himinhvolfið, geimurinn og svartholin sem hafa að geyma ljós í miðju þeirra, allt er þetta samspil ljóss og myrkurs. Í skáldsögum Auðar Övu má nefnilega alltaf finna ákveðin þemu og tákn sem hún leikur sér listilega við í gegnum alla frásögnina. Hún veldur ekki vonbrigðum í þetta sinn en tengingarnar eru endalausar og hægt er að lesa þessa bók á svo mörgum plönum. Dýralíf er marglaga skáldsaga sem bókaunnendur munu drekka í sig eins og vel þroskað og dýrt rauðvín.

 

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...