Hildur Knútsdóttir slær botninn í þríleikinn sinn um Kríu með bókinni Skógurinn. Allar bækur Hildar í þríleiknum hafa nú hlotið tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, enda er hér á ferðinni mjög metnaðarfull saga sem skrifuð er þvert á bókmenntagreinar. Þannig er fyrsta bókin, Ljónið, skrifuð eins og nokkuð hefðbundin unglingabók með unglingadrama, ástum og örlögum en þó með furðu inn á milli. Önnur bókin, Nornin, er vísindaskáldsaga og loftslagsbók – en það leynast líka furður. Sögurpersónurnar eru eldri og reyndari og vandamálin fjær unglingavandamálum en í fyrri bókinni.

Gamlar konur í unglingabók

Skógurinn hefst þar sem Nornin sleppir. Kría hefur stigið inn í skápinn með Davíð til að koma í veg fyrir að Alma, dótturdóttir hennar, hverfi á sama hátt og amma Gerða gerði í fyrstu bókinni. Kría er komin yfir nírætt þegar hér er komið við sögu og það er nokkuð sérstakt að skrifa unglingabók þar sem sögupersónurnar eru gamlar konur, því Kría hittir einmitt ömmu Gerðu hinu megin við skápinn. Báðar yngjast þær á líkama við að stíga yfir í annan heim, en halda minningum sínum. Þær eru því gamlar konur í ungum líkama.

Kría vill komast að því hvernig stendur á því að Davíð dregur manneskjur í gegnum gáttina yfir í sinn heim. Eitthvað tengist það skóginum. Í gegnum bókina komast Kría og Gerða hægt og rólega að sannleikanum á bak við ráðgátuna, en hún leysist þó aldrei alveg heldur skilur Hildur eftir smá ráðgátu fyrir lesandann sjálfan að svara og leysa úr.

Nýr og framandi heimur

Hildur verður að teljast einn af okkar færustu unglingabókahöfundum. Í Skóginum tekur hún lesandann ekki bara til annars heims, annarar plánetu eða í aðra vídd, heldur dregur hún upp svo ljóslifandi lýsingu af honum að það er nær ógerlegt að slíta sig frá lestrinum. Hildi nægir ekki að lýsa heiminum, heldur útskýrir hún hann í smáatriðum, allt frá þyngdarkrafti plánetunnar til þess hvernig litur grassins er og það er greinilegt að gríðarleg rannsóknarvinna liggur að baki sköpunarinnar. Stundum hefði þó alveg mátt draga úr lýsingunum og útskýringunum, því sú lesning getur verið leiðigjörn. Útskýringarnar eru þó hugsanir Kríu og sem mjög hæf vísindakona, þá pössuðu lýsingarnar við hennar persónuleika. En þær gátu þó verið of langar.

Ég fann ekkert smáatriði sem stangaðist á við annað í bókinni, eitthvað sem hefði getað rofið töfrana og angrað lesandann. Bókin er skotheld, plottið er skothelt. Það sem þó heillaði mig mest við bókina er hvernig Hildur hefur leyft ímyndunaraflinu að leika lausum hala og hún skorar á lesandann að opna huga sinn líka. Plöntur og dýr renna saman í eitt. Hvers vegna ætti ekki að vera hægt að nærast á vindi? Það er ekki alltaf hægt að útskýra allt.

Heilsteypt lokabindi

Það er greinilegt að mikil vinna og mikil hugsun hefur verið lögð í bókina og ég dáist að Hildi að hafa getað komið með svona heilsteypta bók í flóðið í ár, miðað við hvernig árið hefur verið. Bókin er ekki síður spennandi og eins og áður sagði átti ég erfitt með að slíta mig frá henni og hefði eflaust lesið hana í einni setu, hefði ég ekki þurft að sinna öðrum skyldum.

Skógurinn er heilsteypt og vel skrifað lokabindi í þríleik Hildar um Kríu. Heimsuppbyggingin skorar á lesandann að opna huga sinn fyrir nýjungum og öðrum veruleikum. Bókin er spennandi lokahnykkur á þrusugóðum þríleik.

 

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...